fbpx
Sunnudagur 12.október 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli

Svarthöfði
Sunnudaginn 12. október 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í liðinni viku birti Morgunblaðið makalausan leiðara í fullri lengd sem einkenndist af ólund, svekkelsi og væli vegna þess að til stendur að gera lítils háttar breytingu á úthlutun fjölmiðlastyrks sem setur þak á þá fjárhæð sem einstaka fjölmiðlar geta fengið af heildarúthlutuninni. Morgunblaðið og Sýn hafa fengið helming af allri fjárhæðinni í sinn hlut þannig að allir hinir hafa mátt skipta hinum helmingnum á milli sín! Það er vitanlega argasta ósanngirni. Þessir tveir stóru miðlar eru milljarðafyrirtæki og ættu í raun ekki að þurfa á neinum fjölmiðlastyrk að halda. Hvort þeir fá 100 eða 120 milljónir á ári í sinn hlut ætti varla að skipta þessa umsvifamiklu miðla neinu máli. Litlu fjölmiðlarnir sem deila hinum helmingnum eru um 30 talsins þannig að lítið kemur í hlut hvers þeirra en það eru einmitt þeir fjölmiðlar sem rétt og mikilvægt er að styrkja til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun um allt land.

Ætlunin er að setja þak á hámarksgreiðslu og hafa það 22 prósent af heild í stað 25 prósenta áður Það er nú allt of sumt en veldur Morgunblaðinu miklum innantökum ef marka má fyrrnefndan leiðara. Hámarksgreiðsla þyrfti að vera mun lægri og best væri að milljarðamiðlarnir fengju ekki neinn ríkisstyrk enda vandi að sjá þörf þeirra fyrir ríkisaðstoð. Þá er mikilvægt að halda því til haga að Morgunblaðið er eini fjölmiðillinn sem fengið hefur gríðarlega fjármuni eftirgefna af skuldum sínum frá ríkisbanka. Þar er um að ræða meira en 10 milljarða króna á núverandi verðlagi. Eftir hrunið árið 2008 felldi Íslandsbanki, sem þá var ríkisbanki, niður 4,5 milljarða króna af skuldum Morgunblaðsins en það jafngildir 8,5 milljörðum króna í dag og bætti svo um betur árið 2011 og felldi niður milljarð króna sem jafngildir 1,8 milljörðum í dag. Samtals felldi bankinn niður skuldir Morgunblaðsins að fjárhæð meira en 10 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Enginn annar fjölmiðill hefur fengið fyrirgreiðslu frá ríkisbanka af þessu tagi. Morgunblaðið er því eini fjölmiðillinn sem hefur enga ástæðu til að kvarta og ætti að skammast sín fyrir þá lítilmennskuna sem birtist í leiðaraskrifum af því tagi sem hér um ræðir. Morgunblaðið ætti auðvitað ekki að þiggja neitt meira frá ríkinu. En þar á bæ kunna menn ekki að skammast sín.

Svarthöfði áttar sig á því að vitaskuld getur það orkað tvímælis hvort ríkissjóður eigi yfir höfuð að styrkja útgáfu fjölmiðla, bókaútgáfu, kvikmyndagerð – eða rekstur stjórnmálaflokka. En það hefur þó orðið niðurstaðan í meðförum margra ríkisstjórna og mismunandi þingmeirihluta. Þessu verður haldið áfram og eðlilegt er að nýir ráðamenn komi á þeim breytingum sem þeir telja að séu til bóta. Að lækka hámarkshlutfall styrkja til einstakra fyrirtækja er til bóta en ganga þyrfti lengra. Þá ætti að hraða greiðslu þessara styrkja enda er ekki góður bragur á því að greiða út styrki undir lok árs vegna rekstrar ársins á undan þegar unnt er að benda á þann samanburð að ríkið greiðir stjórnmálaflokkunum styrk þeirra vegna hvers árs í janúar á sama ári. Greinilega er ekki sama hvort um er að ræða Jón eða séra Jón! Þá er á það bent að heildarfjárhæð styrkja til fjölmiðla hefur ekki hækkað til samræmis við verðlag og þar af leiðandi hafa styrkirnir rýrnað. Sjálfsagt er að ráða bót á því og leiðrétta þá skekkju.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins var því haldið fram að með því að skerða stuðning til milljarðamiðlanna væri verið „að senda skýr skilaboð“ um að þeir sem flytji fréttir sem henti ekki stjórnvöldum, verði fyrir skerðingu. Þetta er órökstutt og hreint bull. Unnt er að líkja slíkum málflutningi við móðursýki. Þá er því haldið framar að nú sjái fleiri þingmenn en áður að „óeðlilega“ hafi verið að málum staðið varðandi umrædda frumvarpssmíð og að vitlaust sé gefið. Þessi staðhæfing stenst enga skoðun. Það er fyrst og fremst vitlaust gefið ef tveir miðlar geta hirt helminginn af þeirri heildarfjárhæð sem ætluð er til þess að styrkja alla fjölmiðla hringinn í kringum landið.

Svarthöfði stendur á því fastar en fótum að engan veginn standist að bera Ísland saman við önnur Norðurlönd hvað varðar hömlur á auglýsingasölu ríkisrekinna sjónvarps- og útvarpsstöðva. Á hinum Norðurlöndunum eru fjölmörg dagblöð í rekstri í hverju landi en hér er einungis eitt dagblað enn þá gefið út enda eru pappírsfjölmiðlar hvarvetna á hröðu undanhaldi. Það hlýtur einnig að hafa áhrif á stöðuna að tveir stærstu fjölmiðlarnir hér á landi eru undir hælnum á illskeyttum hagsmunahópum. Þannig er Morgunblaðið að mestu í eigu sægreifa og framleiðanda landbúnaðarafurða sem stöðugt stendur styrr um. Síðan er nýtilkomið að sægreifar virðast vera að teygja arma sína inn í hinn stóra miðilinn, Sýn. Á síðasta vori var Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka í sjávarútvegi og aðaltalsmaður samtakanna, valin til setu í stjórn Sýnar. Þar er vissulega ekki um neina tilviljun að ræða. Þeir sem fylgst hafa með Heiðrúnu Lind og vinnubrögðum hennar gera sér ljóst að hún tekur ekki sæti í stjórn Sýnar án þess að láta hressilega til sín taka. Enda virðist fréttamat og áherslur þegar vera að breytast.

Í ljósi þessa er ólíklegt að áratuga krafa um að taka RÚV af auglýsingamarkaði nái fram að ganga við núverandi aðstæður. Sjálfstæðismenn hafa verið við stjórnvölinn lengst af síðustu 50 árin og oftar en ekki haft yfirstjórn RÚV á sinni könnu. Á öllum landsfundum hefur verið ályktað um að taka RÚV af auglýsingamarkaði og minnka umsvifin. En ekkert hefur gerst á vakt Sjálfstæðisflokksins og varla þarf að búast við því að aðrir taki að sér að framkvæma ályktanir landsfundar flokksins frá síðustu 50 árum.

Svarthöfði trúir og treystir því að frekjuleg leiðaraskrif Morgunblaðsins frá í liðinni viku leiði ekki til annars en þess að rifjaðar verði upp óþægilegar staðreyndir og umræður hefjist um það að ríkisstyrkir til fjölmiðla eigi einungis að berast til þeirra sem þurfa á styrkjum að halda en ekki til milljarðafyritækja sægreifanna. Nóg fá þeir samt, þrátt fyrir hóflega leiðréttingu veiðigjalda. Það er fullkominn óþarfi að niðurgreiða áróðursstarfsemi kvótakónga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Diane Keaton er látin

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu
EyjanFastir pennar
12.09.2025

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin
EyjanFastir pennar
11.09.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri