fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar

Eyjan
Miðvikudaginn 1. október 2025 06:00

Mynd/Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir átta árum sat ég á foreldrafundi í grunnskóla þar sem rætt var um Snapchat- notkun fjórðubekkinga. Ég var hissa á hve mörg börn voru þá þegar farin að nota samfélagsmiðla daglega. Eitthvað sem hafði ekki hvarflað að mér að leyfa syni mínum að gera á þeim aldri. Ég man að ég velti því fyrir mér þá hvort ég væri með þessu að skerða félagslíf hans með því að standa fast á því að leyfa honum ekki að eiga snjallsíma. En ég hélt samt mínu striki. Þessi pressa sem foreldrar finna hefur sannarlega ekki minnkað síðan. Þvert á móti hafa æ fleiri samfélagsmiðlar litið dagsins ljós og félagslega normið um símaeign barna breyst á ótrúlegum hraða.

Í vikunni gerði ég óformlega könnun á Instagram og spurði hvort fólk teldi að börn ættu að eiga snjallsíma eða ekki. Yfirgnæfandi meirihluti svaraði því neitandi. En þegar spurt var hvort börnin þeirra ættu snjallsíma var niðurstaðan 50/50. Þar liggur ákveðin þversögn. Við sjáum hættuna en finnum okkur samt knúin til að fylgja straumnum. Upp úr þessari könnun fékk ég ótal skilaboð frá áhyggjufullum foreldrum sem sögðust vita hvað væri börnunum þeirra fyrir bestu en lýstu téðri félagslegri pressu, öryggisþættinum og að það væri oft í skólanum sem börnin kæmust í snertingu við snjalltækin þar sem ekki væri í boði heima fyrir. Á sama tíma komu mikilvægar vangaveltur um ábyrgð okkar foreldranna sem fyrirmyndir í þessum efnum. Þar erum við líklega fæst saklaus.

Svissneskur vasahnífur nútímans

Snjallsíminn er orðinn svissneski vasahnífur nútímans: hann geymir kortin okkar, myndirnar, skilríki, afþreyinguna, tölvupóstinn, samskiptin og er okkar helsti leiðarvísir. Það er varla hægt að hugsa sér daglegt líf án hans. Snjallsíminn hefur á aðeins örfáum árum umbylt tilveru okkar. Börn og unglingar lifa nú í veröld þar sem símarnir eru skyndilega lykillinn að félagslífi en á sama tíma uppspretta kvíða og samanburðar og upplýsingaóreiðu.

Rannsóknir sýna tengsl notkunar við bæði einbeitingarleysi og sjálfsmyndavanda. Í skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar sem ber heitið Börn og netmiðlar er til að mynda varpað ljósi á að flest börn á grunnskólaaldri eiga snjallsíma og verja stórum hluta dagsins á netmiðlum.

Einbeitingaleysi og raunveruleikarof

Við þekkjum líklega flest tilfinninguna að reyna að einbeita okkur en stöðugar tilkynningar í símanum rjúfa einbeitinguna. Fyrir börn, sem eru enn að móta sjálfsmynd sína, eru þessar truflanir og þrýstingur margfalt flóknari en fyrir okkur sem fullorðin eru. Skilin milli raunveruleika og upplýsingaóreiðu verða sífellt óljósari. Það er ekki bara einbeitingin sem líður fyrir heldur virðist færni okkar til að lesa langan og flókinn texta fara dvínandi. Ég las á dögunum greinina The Dawn of the Post-Literate Society eftir James Marriott þar sem hann hélt því fram að við værum jafnvel að fara að upplifa tíma þar sem að lestur og skrif í þeirri mynd sem við þekkjum í dag gætu orðið sjaldgæfari. Ljósmyndir, myndbönd, hljóð og önnur miðlun hefur tekið við hlutverki sem bækur og fræðigreinar sinntu áður. Hvað gerist ef við töpum getu okkar til að lesa flókinn texta? Hvaða áhrif hefur það á ályktunarhæfni okkar og lýðræðisvitund? Þetta eru allt spurningar sem við ættum að staldra við og spyrja.

Notendur eða neytendur?

Snjallsíminn veitir okkur sannarlega meira frelsi. Opnar heiminn, gerir lífið að einhverju leyti þægilegra og bætir tengsl okkar við aðra. En honum fylgja einnig skuggahliðar. Frelsi krefst ábyrgðar. Við verðum að temja okkur miðlalæsi, tileinka okkur gagnrýna hugsun, setja okkur mörk um skjátíma og auka samveru.

Við foreldrar verðum að bera ábyrgð á að vera fyrirmyndir og skólar sem nýta tækni verða að vera meðvitaðir um ábyrgð sína. Ef við erum sjálf límd við skjáinn, getum við ekki ætlast til þess að börnin okkar tileinki sér hófsemi.

Allra helst verðum við að fara að líta upp úr skjánum og eiga raunverulegt samtal um það hvert við ætlum að stefna.

Tæknin er líklega komin til að vera en spurningin er í raun og veru þessi: Ætlum við að stjórna henni, eða ætlum við að láta hana stjórna okkur?

Það er undir okkur komið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Högg í maga Liverpool
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
EyjanFastir pennar
29.08.2025

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa
EyjanFastir pennar
28.08.2025

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni