fbpx
Föstudagur 05.september 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði
Föstudaginn 5. september 2025 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsætisráðherra tilkynnti nýtt vaxtarplan til 2035 í gær og kynnti áherslur ríkisstjórnarinnar við mótun nýrrar atvinnustefnu á fundi í Hilton hótelinu í gær. Kvað þar mjög við annan og skarpari tón en hjá kyrrstöðu-vinstri stjórninni sem sat aðgerðalaus og sundurleit við völd í sjö ár þar til kjósendur fleygðu henni á dyr í kosningunum í nóvember í fyrra.

Svarthöfði hefur óbilandi áhuga á efnahagslegum framförum og farsæld íslensku þjóðarinnar, ekki bara þess hluta hennar sem gerir út togara eða rekur banka og keyrir um á Range Rover, Benz eða Porsche heldur líka hinna sem vinna í verksmiðjum og skólum og á spítölum og hjúkrunarheimilum, og því finnst honum vor í lofti í íslensku efnahagslífi, þótt dagurinn sé tekinn að styttast og haustið handan við hornið. Það er nýtt og stórhuga fólk með plan sem nú heldur um stýri þjóðarskútunnar.

Forsætisráðherra lagði áherslu á að atvinnustefnan muni leggja grunn að betri hagvexti hér á landi, meiri hagvexti á mann, sem sé lykilatriði. Í þessu er Svarthöfði hjartanlega sammála forsætisráðherra. Gamla ríkisstjórnin, sem nú er í stjórnarandstöðu (sá hluti sem hélst inni á þingi) og skilur ekkert í því hvers vegna hún fær ekki að vera lengur í ríkisstjórn, skreytti sig nefnilega með stolnum fjöðrum. Ráðherrar síðustu ríkisstjórnar, ekki hvað síst fjármálaráðherrann sem lengst sat, héldu því statt og stöðugt fram að á meðan lítill sem enginn hagvöxtur væri í Evrópu væri Ísland litið öfundaraugum vegna þess hve mikill hagvöxtur væri hér á landi.

Þegar betur var skoðað kom í ljós að allur hagvöxtur hér á landi var vegna fólksfjölgunar – hagvöxtur á mann var enginn! Ísland var meðal skussanna í OECD hvað hagvöxt varðar og á síðasta ári varð samdráttur. Svarthöfði verður því að lýsa ánægju sinni með að til valda skuli vera komið fólk sem leggur áhersluna á að efla atvinnulífið og verðmætasköpun um allt land en ekki að reyna að slá ryki í augu fólks og blekkja jafnvel sjálft sig eins og ráðherrar síðustu ríkisstjórnar gerðu með eftirtektarverðum árangri.

Einnig greindi forsætisráðherra frá skipun atvinnustefnuráðs, sem mun veita stjórnvöldum ráðgjöf um mótun, áherslur og framkvæmd atvinnustefnu Íslands næstu 10 árin. Hin íslenska hefð er að þegar svona ráð eru skipuð eru fengnir sauðtryggir flokkshundar ríkisstjórnarflokkanna og svo fá helstu hagsmunaaðilar sína fulltrúa. Árangurinn af því er svo, eins og forsætisráðherra lýsti í fjölmiðlum, sá að þrasað er og þvargað og allir vilja fá „sitt“ inn í niðurstöðurnar – sem er auðvitað ekki hægt – og niðurstaðan verður lægsti mögulegi samnefnari, vita gagnslaust plagg með almennt orðuðum þvættingi.

Slíkt hefði án efa hentað gömlu ríkisstjórninni sem hvorki vildi né gat gert nokkurn skapaðan hlut í atvinnuuppbyggingu hér á landi í þau sjö ár sem hún sat aðgerðalaus. En nú eru breyttir tímar. Í ráðinu sitja þrír erlendir sérfræðingar með gríðarlega reynslu á alþjóðlegum vettvangi og tveir Íslendingar, annar hámenntaður og virtur prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og hinn framkvæmdastjóri Íslandsstofu, maður með fjölbreytta og víðtæka reynslu í íslensku atvinnulífi. Það sem mestu máli skiptir er að báðir eru þeir óháðir hagsmunaaðilum, eða lobbíistum, hér á landi.

Ef ríkisstjórnin hefði haldið í gömlu íslensku hefðina er eins víst að frá atvinnulífinu hefði komið Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtaka sægreifa, og frá verkalýðshreyfingunni annaðhvort Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, eða Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Svarthöfði hefur takmarkaða trú á því að úr því samtali kæmi nothæf niðurstaða – og líkast til borin von að hún yrði yfirleitt vitræn.

Svarthöfði brosir til framtíðar vegna þess að nú eru nýir tímar og nýir herrar – eða réttara sagt valkyrjur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Rétt mál, herre gud!

Svarthöfði skrifar: Rétt mál, herre gud!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“