fbpx
Laugardagur 26.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Fólk er ekki fífl – það skilur sérhagsmunina þegar það sér þá

Svarthöfði
Föstudaginn 25. júlí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vor var vart hægt að kveikja á sjónvarpinu án þess að fá framan í sig kjánalegar auglýsingar frá samtökum sægreifa ýmist um það hvernig norskir útrásardólgar hæddust að Íslendingum fyrir að vilja taka upp „norska kerfið“ í sjávarútvegi eða glaðhlakkalegt og kotroskið fólk þuldi upp fyrir okkur hvernig allt í þeirra heimabyggð færi lóðbeint til andskotans ef útgerðin í bænum þyrfti að borga eðlilega leigu fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Leikarar í síðarnefndu auglýsingunum voru ungt fólk úr sjávarbyggðum – venjulegt fólk var gefið í skyn – en svo kom í ljós að í einhverjum tilfellum voru þarna mættir kvótaerfingjar sem voru búnir að selja kvótann úr plássinu.

Auglýsingarnar struku almenningi öfugt og stuðningur við leiðréttingu veiðigjalda jókst með hverri birtingu. Samtök sægreifa virðast hafa áttað sig á þessu, hættu birtingu þeirra og birtu nýja auglýsingu þar sem framkvæmdastjóri samtakanna flutti þjóðinni ádrepu sem eflaust hefur átt að sannfæra fólk um að leiðrétting veiðigjalda væri vond en Svarthöfði man það eitt að af einhverjum sökum finnst henni áramótaskaupið 1985 besta áramótaskaup sögunnar. Þar telur hann að samtök sægreifa hafi endanlega tapað salnum.

Ekki það að skaup Spaugstofunnar hafi ekki verið gott. En það er þetta með trúverðugleika framkvæmdastjórans og samtaka sægreifa yfirleitt. Svarthöfði efast hreinlega um að framkvæmdastjórinn muni eftir skaupinu frá 1985 því að þá var hún sex ára. En sama gildir svo sem um allan málflutning samtakanna. Hann virðist einatt byggður á ósannindum.

Ekkert hefur þó hindrað stjórnarandstöðuna í að leggja allt undir í varðstöðu um sérhagsmuni stórútgerðarinnar, m.a. með Íslandsmeti í málþófi. Helstu málþæfingarnir komu oft og mörgum sinnum í ræðustól Alþingis og fluttu grátklökkar ræður um það hvernig leiðrétting veiðigjaldanna myndi ganga af byggðum landsins dauðum og hversu skelfingu lostnir íbúar sjávarplássa væru. Allt var þetta eftir handritinu frá samtökum sægreifa og mun þetta hafa gengið svo langt að stjórnarandstaðan reyndi að kúga ríkisstjórnina til að taka frumvarp um veiðigjöld sem samtök sægreifa sömdu og gera að sínu.

Tvær skoðanakannanir sem birtar voru í vikunni hafa vakið athygli Svarthöfða. Í könnun Maskínu um fylgi flokka kemur fram að fylgi ríkisstjórnarinnar hefur aldrei verið meira og virðist hafa stóraukist við það að forseti Alþingis beitti lýðræðisákvæði þingskapalaga, 71. greininni, og stöðvaði málþóf stjórnarandstöðunnar.

Þegar Svarthöfði rýndi í niðurstöður könnunarinnar rifjaðist upp fyrir honum að þrír af helstu málþæfendunum í veiðigjaldamálinu voru Njáll Trausti Friðbertsson, Jens Garðar Helgason og Jón Pétur Zimsen. Njáll Trausti og Jens Garðar eru þingmenn Norðausturkjördæmis. Á Norðurlandi drottnar Samherji yfir sjávarútvegi og sjávarplássum. Þar mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 8,8 prósent en fylgi Samfylkingarinnar er 34,6 prósent, eða fjórfalt meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins. Fylgi Viðreisnar er 11,7 prósent eða þriðjungi meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Svarthöfði tekur meira mark á skoðanakönnunum en því sem samtök sægreifa og þingmenn stjórnarandstöðunnar segja um hug fólksins í landinu og er helst á því að ef örðu sannleika væri að finna í hræðsluáróðrinum væri skipting fylgis milli flokka á einhvern annan veg en þennan.

Þriðji oratorinn sem hér er nefndur, Jón Pétur Zimsen, er þingmaður Reykjavíkur suður. Hann er þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Í könnuninni mælist flokkurinn með 16,8 prósent í Reykjavík og samkvæmt því myndi Zimsen falla af þingi.

Það er kúnstugt að Zimsen hafði af því miklar áhyggjur í málþófinu að leiðrétting veiðigjalda hefði áhrif til lækkunar hlutabréfaverðs í sjávarútvegi. Það væri slæmt fyrir lífeyrissjóðina. Ekki getur Svarthöfði sagt að það hafi komið sér á óvart þegar í ljós kom að Zimsen hefur mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta sjálfur vegna hlutabréfaeignar einkahlutafélaga í hans eigu í útgerðarfyrirtækjum og fleiri fyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi. Ekki var hægt að sjá þessa hagsmuni þingmannsins í hagsmunaskráningu hans hjá Alþingi. Þar komu einungis fram nöfn einkahlutafélaganna en ekki félaganna sem þau áttu hlut í.

Svarthöfði telur að bæta þurfi hagsmunaskráningu þingmanna þannig að ekki dugi þeim að skrá einkahlutafélög sín án frekari skýringa heldur verði að liggja ljóst fyrir á hverjum tíma hvaða endanlegu hagsmuni þingmenn hafa t.d. í gegnum fjárfestingar eignarhaldsfélaga í þeirra eigu.

Alþekkt er að Jens Garðar Helgason sagði það „heilaga skyldu“ sína að koma í veg fyrir leiðréttingu veiðigjaldanna og í ljós kom að uppkomin börn hans eiga gríðarlega hagsmuni af því að auðlindarentan renni áfram til sægreifa en ekki þjóðarinnar.

Svarthöfði telur einsýnt að fólk er ekki fífl. Fólk áttar sig á þessari persónulegu hagsmunavörslu þingmanna stjórnarandstöðunnar þegar það fær upplýsingar um hvaða hagsmunir liggja raunverulega undir hjá þeim. Það skýrir væntanlega fylgi flokkanna um þessar mundir og það að í hinni könnun vikunnar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er ánægður með störf ríkisstjórnarinnar og yfirgnæfandi meirihluti er óánægður með störf stjórnarandstöðunnar.

Að fenginni reynslu á Svarthöfði frekar von á því að stjórnarandstaðan forherðist en að hún líti í eigin barm, dragi lærdóm og hætti að moka sig dýpra og dýpra ofan í holuna sem hún er komin í.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Alþingi leyst úr gíslingu

Alþingi leyst úr gíslingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Óvinir!

Nína Richter skrifar: Óvinir!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?
EyjanFastir pennar
24.06.2025

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá
EyjanFastir pennar
22.06.2025

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú