fbpx
Miðvikudagur 23.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Eyjan
Miðvikudaginn 23. júlí 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem leiðsögumaður er ég virkur þátttakandi í því ævintýri sem ferðaþjónustan er í dag á Íslandi. Í ferðum mínum og samtölum við erlenda ferðamenn sé ég með eigin augum og heyri hvað ferðamennina hrífur mest og hvað mætti fara betur.

En skoðum fyrst ferðaþjónustuna almennt.

Talið er að fyrstu ferðamennirnir hafi komið til Íslands um 1850. Um var að ræða efnaða Englendinga sem voru á sinni „Grand tour“ um heiminn. Einnig voru þeir hér á laxveiðum eða vildu kaupa fornmuni. Einnig komu ferðamenn í vísindaleiðöngrum til landsins. Talið er að ferðamenn hafi þá verið um 30 á ári.

Fyrsta ferðaskrifstofan var stofnuð 1872 af Geir Zoega í samstarfi við Thomas Cook í Englandi. Fyrstu hótelin voru byggð á seinni hluta 19. aldar og ferðamönnum fjölgaði þegar reglubundnar siglingar á gufuskipum hófust upp úr 1900.

Erlendum ferðamönnum fjölgaði ört á tuttugustu öldinni. Þeir voru um eitt þúsund á ári upp úr aldamótunum og um 80 þúsund kringum 1980.

Árið 2000 voru þeir orðnir jafnmargir og íbúar landsins eða um 300 þúsund.

Ísland er eitt af mestu ferðamannalöndum í heiminum

Árlega koma um 2,6 milljónir ferðamanna til landsins með flugi og skipum eða tæplega sjöfaldur íbúafjöldi landsins. Samkvæmt tölum á netinu er Austurríki með fjölda ferðamanna sem nemur um 3,4-földum íbúafjölda, Grikkland er með 3,1 og Spánn með um 1,8.

Sem hlutfall ferðaþjónustutekna af þjóðarframleiðslu er Ísland í öðru sæti í meðal vestrænna ríkja með um 9% meðan Spánn vermir efsta sætið með um 12%.

Ferðaþjónustan á Íslandi er öflug atvinnugrein og er í dag ein af grunnstoðum íslenska hagkerfis­ins. Í henni starfa um 2200 fyrirtæki með um 36 þúsund starfsmenn.

Gjaldeyristekjur af ferðafólki nema um 600 milljörðum króna á ári sem eru um 32% af heildartekjum okkar af útflutningi á vörum og þjónustu. Allur sjávarútvegur á Íslandi skapar til samanburðar um 350 milljarða og álframleiðslan um 325 milljarða í gjaldeyristekjur á ári.

Ferðaþjónustan skapar um 9% af þjóðarframleiðslunni meðan sjávarútvegur er með um 6% samkvæmt tölum frá Hagstofunni.

Gjaldmiðillinn veldur miklum skaða

Í nýlegri grein Péturs Óskarssonar formanns Samtaka ferðaþjónustunnar sagði hann meðal annars þetta:

„Ferðaþjónustan er frábrugðin flestum öðrum atvinnugreinum sem byggja á náttúruauðlindum. Hún byggist á því að sýna – ekki sækja. Þannig tekur hún ekki fisk úr sjó eða tré úr skógi. Ferðamenn koma til að sjá, upplifa og skilja“.

Síðar í greininni sagði Pétur: „Íslensk ferðaþjónusta er í harðri alþjóðlegri samkeppni og tryggja þarf samkeppnishæfni greinarinnar á hverjum tíma“.

Pétur minntist ekkert á aðalvandamál greinarinnar sem er galinn gjaldmiðill sem ferðaþjónustan þarf að búa við. Krónan sem ferðaþjónustan þarf að nota skapar henni tugmilljarðatjón á hverju ári. Nánar um það hér að neðan.

Það sem ferðaþjónustan þarf er stöðugt gengi

Þó að flestir ferðamenn sem koma til landsins séu ánægðir með sína upplifun er ýmislegt sem þeir kvarta undan.

Í samtölum mínum við þá kemur í ljós að þeir kvarta mest undan slæmri salernisaðstöðu víða og því drasli sem þeir sjá meðfram vegum landsins. Þetta er auðvelt að laga.

En það sem þeir kvarta mest undan er hátt verðlag á mat, ferðum og gistingu.

Í nýlegu viðtali við eiganda rútufyrirtækis kom fram að fjármögnun á rútum er mjög dýr enda eru þær fjármagnaðar á um 11% vöxtum. Sama á við um hótelbyggingar og fjármögnun á aðstöðu fyrir ferðamenn.

Erlend fyrirtæki í hótelrekstri og rútuakstri á Íslandi njóta mun ódýrari fjármögnunar og hafa því verulegt samkeppnisforskot miðað við þau íslensku.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði í viðtali í síðustu viku: „Raungengi íslensku krónunnar er nú nálægt sögulegu hámarki. Sagan sýnir að þessi staða er ósjálfbær og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar,“ og bætti svo við að gengissveiflur og styrking krónunnar hefði haft mjög slæm áhrif á afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Í kynningu frá Icelandair segir jafnframt að veruleg styrking íslensku krónunnar að undanförnu hafi neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.

Það er því ljóst að ferðaþjónustan þarf að vinna í krónuhagkerfi sem veldur gengissveiflum og þeim okurvöxtum og verðbólgu sem almenningi og fyrirtækjum á innanlandsmarkaði bjóðast.

Þetta ýtir undir hið háa verðlag á mat, ferðum og gistingu sem ferðamenn kvarta mest undan.

Aðrar útflutningsgreinar hafa flestar yfirgefið krónuna og gera upp sína reikninga og taka lán í erlendum gjaldmiðlum á mun lægri vöxtum en flest íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Gengi krónunnar sveiflast eins og jarðskjálftamælarnir í Grindavík og valda gífurlegu tjóni hjá ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Sem dæmi má nefna að í september 2024 fengust 152 krónur fyrir evruna en aðeins um 140 krónur þann 28. júní síðastliðinn.

Þetta er lækkun sem nemur um 8% sem veldur tekjurýrnun aðeins í ferðaþjónustunni sem nemur um 50 milljörðum króna á ársgrundvelli og þýðir auk þess að allar áætlanir fram í tímann standast illa og stöðugt þarf að breyta gjaldskrám fyrirtækjanna.

Það er bjart fram undan

Það styttist í það að íslensk ferðaþjónusta fái að búa við betri skilyrði með stöðugum gjaldmiðli og lægri vöxtum og verðbólgu.

Ef spár ganga eftir styttist í aðildarviðræður við ESB og upptöku evru í framhaldi af aðildarsamningum.

Það er því bjart fram undan í íslenskri ferðaþjónustu sem í framtíðinni mun starfa með alþjóðlegum stöðugum gjaldmiðli sem auk þess tryggir lága vexti og stöðugra verðlag en nú er í okkar landi.

Þannig munum við tryggja samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu til frambúðar.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni (www.evropa.is).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
21.06.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api
EyjanFastir pennar
20.06.2025

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni