fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði
Þriðjudaginn 22. júlí 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hefur, líkt og þorri þjóðarinnar, skemmt sér bærilega við að fylgjast með stjórnarandstöðunni fara á límingunum og hlaupa eins og hauslaus hæna um víðan völl. Einna helst má finna að því að atburðarásin sé full langdregin á köflum en inn á milli koma svo kaflar sem bæta fyrir það.

Einu virðist gilda hvort um er að ræða nýliða á þingi, blauta bak við eyrun, eða þaulsetna þingmenn hokna, jafnvel sligaða, af þingreynslu. Stjórnarandstöðuþingmenn virðast allir farnir á taugum og rjúka upp til handa og fóta af minnsta eða jafnvel engu tilefni.

Nýjasta dæmið um taugaveiklunina eru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, til Íslands í síðustu viku. Heimsóknin var vel heppnuð og dró fram þá jákvæðu staðreynd að ESB metur samstarf við Ísland mikils.

Strax byrjaði samt eitthvert gagg í stjórnarandstöðunni um að með heimsókninni væri verið að smygla Íslandi inn í ESB fram hjá þinginu og fram hjá þjóðinni. Ekki hvað síst virtist það fara fyrir brjóstið á fúllyndum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að von der Leyen lýsti því afdráttarlaust yfir að umsókn Íslands um aðild að ESB er enn í fullu gildi.

Yfirlýsingin um gildi aðildarumsóknarinnar kom Svarthöfða ekki á óvart og raunar engum þeim sem þekkir eitthvað til stjórnskipunar Íslands og alþjóðasamskipta. Það var Alþingi sem fól ríkisstjórninni að sækja um aðild að ESB með samþykkt þingsályktunartillögu fyrir rétt rúmum 15 árum. Alþingi hefur ekki dregið þessi fyrirmæli til baka og því eru þau enn í fullu gildi. Skiptir þá engu máli þótt einhver utanríkisráðherra hafi á einhverjum tíma ákveðið að senda bréf til Brüssel með tilkynningu um afturköllun. Forsvarsmenn ESB vita eins og Svarthöfði að utanríkisráðherra Íslands situr í krafti Alþingis og hefur ekki vald til að taka fram fyrir hendur þingsins. Alþingi hefur aldrei gefið fyrirmæli um að afturkalla aðildarumsókn Íslands.

Ekki er hægt að segja að Svarthöfði hafi bundið miklar vonir við að formaður Miðflokksins myndi stunda annað en öfugmælakveðskap í tengslum við heimsókn von der Leyen og fyrirhugaða þátttöku Íslands í varnarsamstarfi ESB en hann bjóst við meiru af reynsluboltum á borð við Guðlaug Þór Þórðarson og Sigurð Inga Jóhannsson. Taldi hann jafnvel líkur á að menn sem gegnt hafa þingmennsku og ráðherraembættum um langt árabil þekktu til stjórnskipunar Íslands og vissu að ríkisstjórn situr í krafti þingsins en ekki öfugt.

Rifjaðist þá upp fyrir Svarthöfða að árið 2017 samdi Guðlaugur Þór, sem þá var utanríkisráðherra í ríkisstjórn með Sigurði Inga, um viðbót við varnarsamning Íslands við Bandaríkin án þess að þess að segja nokkrum manni frá því, alla vega engum utan ríkisstjórnarinnar. Alþingi fékk ekkert að vita, ekki utanríkismálanefnd, enginn. Þó felast í viðbótinni kvaðir sem þjóðréttarsérfræðingar segja að kalli á samþykki Alþingis. Þetta mál var svo lítilfenglegt að mati Guðlaugs Þórs að hann segist hreint ekki muna eftir því. Svarthöfða finnst sú útskýring viðlíka trúverðug og að prófessor í stjórnmálafræði muni ekki hvað hann kaus í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Svarthöfði hefur velt því fyrir sér hvort þingmenn stjórnarandstöðunnar séu einstaklega viðkvæmir fyrir gosgufunni frá Reykjanesi. Það gæti þá mögulega skýrt mjóðursýkislegt uppnám þeirra vegna stuttrar heimsóknar æðsta embættismanns þess ríkjasambands sem Ísland á mest viðskipti við og þiggur meira en helming sinnar lagasetningar frá. En það var ekkert eldgos í gangi þegar stjórnarandstaðan spilaði rassinn úr buxunum í málþófinu þannig að sennilega er skýringarinnar ekki þar að leita. Vandinn er sennilega miklu djúpstæðari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí