fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðræði

Eyjan
Föstudaginn 18. júlí 2025 15:07

Ari Kr. Sæmundsen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heyrði haft eftir einum ráðherra ríkisstjórnarinnar að meint málþóf minnihlutans væri aðför að lýðræðinu. Einhverjir þingmenn minnihlutans viðruðu svipaða skoðun eftir að forseti þingsins stöðvaði frekari umræður um veiðigjaldafrumvarp atvinnuvegaráðherra og vísaði því til atkvæðagreiðslu, með vísan í 71. gr. laga um þingsköp. Menn virðast túlka hugtakið á ýmsa vegu og nota það eftir hentisemi máli sínu til stuðnings. Gott ef ekki var talað um lýðræðið á Íslandi! Þetta vakti forvitni mína. Hvað er eiginlega þetta lýðræði sem er allt í einu orðið þingmönnum svo tungutamt? Er lýðræðið á Íslandi öðruvísi en lýðræði annars staðar?

Kíkti á netið. Þar er hafsjór af upplýsingum um lýðræði, oft í löngu máli. Vandinn er að margt af því sem þar stendur er skrifað af heimspekingum og þeir eru bara oft svo háfleygir, svo heimspekilegir. Ég er ekki heimspekingur, en ætla nú að reyna að draga saman stutta skýringu á lýðræði eins og ég skil hugtakið eftir þessa snöggu yfirferð.

Lýðræði er íslensk þýðing á orðinu „demokrati“, sem er samsetning grísku orðanna „demos“ sem þýðir fólk og „kratos“ sem þýðir vald. Valdið er sem sagt hjá fólkinu, almenningi. Þá vandast málið. Við þurfum jú að setja okkur lög og reglur um hvernig samfélagi við viljum búa í og það yrði nú aldeilis handagangur í öskjunni ef allir kosningabærir Íslendingar ætluðu að koma að málinu. Það yrði í stuttu máli alger ringulreið. Því höfum við, eins og flestar lýðræðisþjóðir, valið s.k. fulltrúalýðræði. Fulltrúar skipa sér í flokka með fólki með sömu eða svipaðar hugsjónir og hagsmuni. Flokkarnir útbúa lista fulltrúa og síðan er gengið til kosninga, alla jafna á fjögurra ára fresti. Vegna þess hve hugsjónir fólks og hagsmunir eru mismunandi eru yfirleitt margir flokkar í framboði, enginn einn fær hreinan meirihluta í kosningu til þings og þá þarf mynda meirihluta, samsteypustjórn. Reyndar þurfa þá fulltrúarnir stundum að falla frá hugsjónum sínum og hagsmunum og er það kallað málamiðlun. Þeir sem eftir sitja eru þá s.k. minnihluti.

Svo óheppilega hefur hins vegar viljað til að orðskrípið „stjórnarandstaða“ hefur fest við minnihlutann. Minnihlutinn tekur þetta andstöðu hlutverk sitt mjög alvarlega og er yfirleitt á móti öllu sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar bera fram, á fínu máli kallað aðhald. Að sama skapi eru stjórnarliðar, meirihlutinn, á móti öllu sem kemur frá minnihlutanum. Og þá er komið að lykilspurningunni: Eftir að meirihluti hefur verið myndaður, er þá ekki bara einfaldast að senda minnihlutann í frí? Hann þvælist bara fyrir, er með almenn leiðindi, málþóf og kemur í veg fyrir að þjóðþrifamál nái fram að ganga. Af hverju þarf að ræða málin fram og til baka, þegar minnihlutinn hefur ekkert uppbyggilegt til málanna að leggja að mati meirihlutans? Meirihlutinn mun hvort eð er ná sínu fram að lokum í atkvæðagreiðslu eins og stjórnarliðar hafa verið ólatir við að benda á. Lýðræði er nefnilega ekki vald alls fólksins, það er vald meirihluta fólksins, eða réttara sagt vald hugsjóna og hagsmuna þeirra fulltrúa sem skipa meirihluta hverju sinni.

Lýðræðinu má líkja við stærðfræðijöfnu, L = k(x+y+z), fastinn (k) er skilgreiningin en (x+y+z) er framkvæmdin. Lýðræðið (L) er því síbreytilegt eftir því hvaða tölur eru settar inn fyrir x, y og z. Þar liggur e.t.v. munurinn á lýðræði milli landa? Veldur hver á heldur. Í því samhengi má spyrja sig hvor stundar meiri aðför að lýðræðinu, þingmaður í minnihluta, sem er rökþrota og bullar í ræðustól (málþóf), eða ráðherra, sem fer með framkvæmdavaldið, en er jafnframt þingmaður og því hluti löggjafans, sem samkvæmt þrískiptingu valds í lýðræðissamfélagi á að veita framkvæmdavaldinu aðhald? Veitir hann sjálfum sér aðhald? Er misvægi atkvæða eftir búsetu aðför að lýðræðinu?

Lýðræði er e.t.v. vond þýðing á orðinu „demokrati“? Lýður hefur nefnilega tvenns konar merkingu í íslensku, annars vegar: fólk, þjóð og hins vegar: skríll, pakk. Miðað við orðræðuna á þingi undanfarnar vikur mætti ætla að meirihlutinn líti á sig sem þjóðina og minnihlutann sem skríl. Hvort er þá Alþingi félagsheimili (samkomustaður meirihlutans) eða pakkhús (geymsla fyrir málstað minnihlutans)? Fer sjálfsagt eftir því hver er spurður.

Vona að þessi stutta samantekt á fyrirbærinu íslenskt lýðræði hafi verið þér gagnleg, lesandi góður.

Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund útskýrir hvers vegna hún tók ekki þátt í málþófinu

Halla Hrund útskýrir hvers vegna hún tók ekki þátt í málþófinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við
Eyjan
Fyrir 4 dögum

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí