Össur Skarphéðinsson fyrrum formaður, þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar skýtur í nýrri Facebook-færslu föstum skotum á Gunnar Smára Egilsson og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur sem nú hafa bæði stigið til hliðar úr leiðtogahlutverkum sínum í Sósíalistaflokknum. Össur segir Sönnu hafa gert það sama og hún hafi gagnrýnt þá fylkingu í flokknum, sem hún var á móti, fyrir að gera. Hann finnur sömuleiðis Gunnari Smára allt til foráttu og fagnar því að hann hafi lotið í lægra haldi og ekki náð kjöri í eina af stjórnum flokksins.
Fjallað hefur verið um væringar í Sósíalistaflokknum undanfarið en um helgina beið sú fylking sem Sanna og Gunnar Smári tilheyrðu ósigur á flokksþingi og önnur fylking náði völdum fyrir utan að Sanna hélt sæti sínu sem pólitískur leiðtogi flokksins. Hún hefur hins vegar sagt sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn en ætlar að klára kjörtímabilið sem oddviti Sósíalista í borgarstjórn Reykjavíkur.
Fylkingin sem bar sigur úr býtum hefur hlotið töluverða gagnrýni frá fylkingunni sem tapaði fyrir að dreifa lista með leiðbeiningum til flokksmanna um hvernig ætti að kjósa á þinginu. Össur bendir hins vegar á að Sanna hafi gert nokkurn veginn það sama en þó hafi verið munur á:
„Skildi ég þetta rétt í Kastljósi? Börnunum, sem átu byltingu Gunnars Smára, var gefið að sök að hafa útbýtt til stuðningsmanna „tossalistum“ um hverja ætti að kjósa, en Sanna, sam gagnrýndi þetta ásamt hinum burtkastaða leníníska leiðtoga, Gunnari Smára, útbýtti eigi að síður sínum eigin tossalista!.Eini munurinn virtist mér sá, að börnin gerðu það leynilega en Sanna notaði – eða misnotaði – boðvaldsstöðu sína sem hinn mikli leiðtogi og borgarfulltrúi, og birti listann opinberlega! Hvort er verra? Í mínum huga er svarið augljóst.“
Hér fyrir neðan má sjá upphaf færslu á samfélagsmiðlum sem Sanna skrifaði daginn áður en kosning í hinar ýmsu stjórnir fór fram:
Síðan birti hún þar fyrir neðan lista yfir alla þá einstaklinga sem hún ætlaði að kjósa í hverja og eina stjórn og merkti (taggaði) viðkomandi um leið.
Gunnar Smári náði ekki kjöri og virðist hafa sagt skilið við Sósíalistaflokkinn. Í svörum við athugasemdum lesenda virðist nokkuð hlakka í Össuri yfir óförum Gunnars Smára:
Einn lesandi sér ekki á eftir Gunnari Smára og segist í athugasemd vera feginn að losna við hann af hinu pólitíska sviði. Össur tekur heilshugar undir það:
„Hjartanlega sammála!“
Einn lesandi virðist nokkuð forviða yfir þessu og spyr í athugasemd nánar út í hug Össurar til Gunnars Smára sem sá fyrrnefndi svarar:
„Mér var hlýtt til hans en það kólnaði snögglega þegar hann tók með tilteknum hætti til máls um mig og Palestínu. Þá sá ég fólið sem í honum býr. Margt má um mig segja, en ekki lítilsvirða minn hlut fyrir Íslendinga hönd gagnvart Palestínu.“
Össur segir ekki nánar frá hvaða ummæli það voru sem fóru svona fyrir brjóstið á honum en hafa ber í huga að það var í hans tíð sem utanríkisráðherra sem að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu.