fbpx
Sunnudagur 25.maí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Leigubílafarganið

Eyjan
Sunnudaginn 25. maí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á sjötta áratug síðustu aldar voru sett lög um leigubifreiðaakstur hér á landi þar sem fjöldi leyfa var takmarkaður og leyfishöfum gert skylt að vinna og vera skráðir á leigubifreiðastöð. Þetta var gert til að bæta úr ófremdarástandi en fram til þess tíma hafði hvorki gengið að tryggja sólarhringsþjónustu leigubifreiða né að bifreiðastjórar fengju búið við mannsæmandi lífskjör. Segja má að það fyrirkomulag sem tekið var upp hafi í meginatriðum gefist vel svo halda mætti uppi fullri og öruggri þjónustu leigubifreiða allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Á hinum Norðurlöndunum var innleitt áþekkt fyrirkomulag en frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur reglum verið breytt í þeim löndum, til að mynda með afnámi fjöldatakmarkana sem hafði sums staðar í för með sér að áhugasamir urðu sér úti um leyfi og sinntu akstri nær eingöngu á stöðum og tímum sem líklegast var að vænta viðskipta. Víða hefur þetta haft í för með sér verri þjónustu fyrir neytendur á virkum dögum, utan háannatíma og skort hefur á þjónustu við fjarlægari staði. Sér í lagi hefur þetta bitnað á öldruðum, fötluðum, sjónskertum og öðrum þeim er síst skyldi.

Ein höfuðröksemd fyrir því sem kalla mætti afregluvæðingu leigubifreiðaaksturs var að verð til neytenda myndi lækka, en sú hefur ekki orðið raunin alls staðar, til að mynda hækkaði verð á þjónustu leigubifreiða um 13% umfram verðlag við slíkar breytingar í Finnlandi og ítrekað bárust af því fregnir að notendur þjónustunnar hefðu misst trú á henni.

Danir fengu á sínum tíma undanþágu frá samræmdum Evrópureglum þannig að stöðvarskyldu var viðhaldið og fjöldi leyfa áfram takmarkaður með þrepaskiptri úthlutun leyfa. Þar er einnig gerð krafa um að leyfishafar hafi fullnægjandi dönskukunnáttu. Þegar núgildandi íslensk lög um leigubifreiðaakstur voru sett fyrir þremur árum var engu slíku ákvæði fyrir að fara. Í athugasemdum sínum við frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra sögðu leigubifreiðastjórar það lykilatriði að gerð yrði krafa um að þeir sem sinntu akstrinum skildu vel íslenskt tal- og ritmál, en hér er um mikilvægt neytendavarnarmál að ræða.

Próf þau sem þarf að undirgangast til að öðlast réttindi til aksturs leigubifreiða eru þó á íslensku en eins og greint var frá í fréttum í fyrrasumar hefur fjöldi manna staðist prófið án þess að kunna stakt orð í ríkismálinu. Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi samgönguráðherra og flutningsmaður frumvarpsins, var inntur álits á því svindli sem átt hafði sér stað vísaði hann bara á Samgöngustofu. Enginn hefur axlað ábyrgð á því að fjöldi manna hafi aflað sér sérstakra atvinnuréttinda hér á landi með óheiðarlegum hætti.

Áttum að læra af reynslu Norðmanna

Fáeinum árum áður en frumvarp Sigurðar Inga um leigubifreiðaakstur var samþykkt hafði hámarksfjöldi leyfa verið afnuminn í Noregi og stöðvarskylda sömuleiðis. Afleiðingarnar þar voru þær að bifreiðastjórar freistuðust til að aka helst á tímum þegar gjaldið var hátt svo neytendum gat reynst afar erfitt að fá bifreið utan háannatíma. Þá höfðu lögin í för með sér félagsleg undirboð líkt og varað hafði verið við. Erlendir menn urðu sér úti um leyfi í stórum stíl, menn sem gátu sætt sig við kjör langt undir eðlilegum framfærsluviðmiðum. Segir mér hugur að stórkostleg félagsleg undirboð eigi sér stað á þessum markaði hér á landi, sem og raunar í ýmsum öðrum atvinnugreinum án þess að ráðamenn láti sig það nokkru varða.

Afleit reynsla af norsku lögunum gerði það að verkum að ráðist var í endurskoðun þeirra og var sú vinna í gangi um það leyti sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra keyrði sitt frumvarp í gegn. Íslenskir leigubifreiðastjórar lögðu áherslu á að fylgst yrði náið með þeirri vinnu sem þá átti sér stað á norska Stórþinginu og dregnir mikilsverðir lærdómar áður en ráðist yrði í algjöra umbreytingu atvinnugreinarinnar hér á landi. Þau tilmæli voru hunsuð en í ljósi reynslunnar hefði þingheimur betur hlýtt varnaðarorðum leigubifreiðastjóra. Mér er raunar kunnugt um að samgönguráðherra þáverandi hafi ítrekað hunsað beiðni félaga leigubifreiðastjóra um fundi.

Misindismönnum hleypt í stéttina

Í athugasemdum sínum við frumvarp samgönguráðherra lögðu leigubifreiðastjórar áherslu á að enginn afsláttur yrði gefinn af kröfum til þeirra er sinna starfinu. Ég gríp niður í álit þeirra:

„Nú er reglan sú að sá eða sú sem ætlar að leggja fyrir sig leigubifreiðaakstur verður að hafa hreinan sakarferil frá því að sakhæfisaldri er náð og allan þann tíma sem viðkomandi heldur leyfinu. Þetta er sjálfsögð krafa enda á almenningur heimtingu á því að geta ferðast öruggur og treyst leigubifreiðastjórum fyllilega. Þeir sem komist hafa í kast við lögin eiga ekkert erindi í stétt leigubifreiðastjóra jafnvel þó svo að dómur yfir viðkomandi hafi fallið fyrir löngu.“

Við blasir af fréttum að ýmsum misindismönnum hefur verið hleypt í stétt leigubifreiðastjóra síðustu misseri. Margt fleira mætti tína til af varnaðarorðum leigubifreiðastjóra en undir lok athugasemda þeirra sagði:

„Íslenskt samfélag er fámennt og þar af leiðandi viðkvæmara fyrir breytingum en milljónaþjóðfélög hinna Norðurlandanna. Miklu skiptir að taka tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á hinum Norðurlöndunum og læra af reynslu þeirra — og mistökum. Breytingar á fyrirkomulagi leigubifreiðaaksturs þarf að framkvæma í skrefum og af varfærni enda gríðarlegir hagsmunir undir; annars vegar lífsafkoma heillar stéttar og mannréttindi sömuleiðis, atvinnuréttindi og eignarréttindi; og hins vegar hagsmunir neytenda af góðri, öruggri og skilvirki þjónustu á hagstæðu verði allan sólarhringinn, árið um kring.“

Hvað er frelsi?

Stuðningsmönnum áðurnefnds frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar varð tíðrætt um að auka yrði frelsi í leigubifreiðaakstri — en sumir stjórnmálamenn nota hugtakið frelsi fjálglega og jafnan í mjög yfirborðskenndri merkingu. Jú, það má færa fyrir því rök að umræddar breytingar hafi aukið frelsi erlendra manna til að öðlast tiltekin sérstök atvinnuréttindi hér á landi. En íslenskir leigubifreiðastjórar sem þar með búa við ótryggari atvinnu og lakari kjör — eru þeir frjálsari? Eða Íslendingar sem ekki geta talað á sinni þjóðtungu við menn sem fengið hafa sérstök atvinnuréttindi hér á landi — eru þeir frjálsari? Hvað með notendur þjónustunnar sem finna til stórkostlegs óöryggis og hafa jafnvel orðið fyrir alvarlegum afbrotum af hendi misindismanna sem hleypt hefur verið í stétt leigubifreiðastjóra síðastliðin misseri — eru þeir frjálsari? Eða er samfélagið allt frjálsara með tilkomu þess ribbaldaháttar sem virðist orðið daglegt brauð í tengslum við tiltekna hópa leigubifreiðastjóra, þar sem ekki einasta er beitt ítrekað hótunum, ofbeldi og svindli heldur húsnæði í ríkiseigu tekið herskildi?

Svari hver fyrir sig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Evrópa er á fleygiferð

Thomas Möller skrifar: Evrópa er á fleygiferð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ísland og Rómarkirkjan

Björn Jón skrifar: Ísland og Rómarkirkjan
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að vanvirða líf þar til það þagnar

Steinunn Ólína skrifar: Að vanvirða líf þar til það þagnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Borgum meira!

Thomas Möller skrifar: Borgum meira!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa
EyjanFastir pennar
23.04.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins
EyjanFastir pennar
20.04.2025

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag