Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar og 2. varaforseti Alþingis, glímir við drykkjuvanda og mun nú taka sér leyfi frá þingstörfum til að fara í áfengismeðferð á Vogi. Ingvar greinir frá þessari ákvörðun á Facebook.
„Seinasta haust horfðist ég í fyrsta skiptið í augu við það að ég og áfengi ættum ekki samleið. Ég sá að ég ætti við drykkjuvanda að stríða og þyrfti að hætta,“ segir þingmaðurinn. Hann hafi í framhaldinu tekið erfið skref í rétta átt og tekist nokkuð vel að snúa við blaðinu.
„Svo skall á með þingkosningum og ég var kjörinn þar inn, sem ég hafði enga trú að hefði getað gerst hefði ég ekki orðið edrú fyrr um árið. Því miður hefur orðið bakslag í þessum efnum. Ég missteig mig, og get engum um kennt nema sjálfum mér. Ég er miður mín gagnvart vinum mínum og fjölskyldu sem ég hef valdið vonbrigðum, sem og samstarfsfélögum á þinginu og í Viðreisn.“
Ingvar segist staðráðinn í að snúa blaðinu við svo hann geti staðið undir því sem hann lofaði kjósendum sínum, að vera öflugur fulltrúi þeirra á þingi. Hann mun því fara í dag inn á sjúkrahúsið Vog í áfengismeðferð og tekur sér því leyfi frá þingstörfum.
„Ég ætla að sigrast á þessum djöfli, svo mér geti liðið vel með sjálfan mig og lífið á ný. Á meðan ég tek mér tíma í þetta verkefni mun Norðausturkjördæmi og Íslendingar allir (Austurlandið ekki síst) eiga frábæran og öflugan fulltrúa í Heiðu Ingimarsdóttur,“ segir þingmaðurinn og segist sannfærður um að Heiða muni standa sig með glæsibrag.
Ingvar kom nýr inn á þing í síðustu kosningum enda aðeins tæplega 27 ára gamall. Áður hafði hann starfað sem stærðfræði- og eðlisfræðikennari við Menntaskólann á Akureyri, en hann er iðnaðarverkfræðingur að mennt.