Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur allt á hornum sér þessa dagana og hefur í vikunni gagnrýnt að ekki hafi allir stjórnarliðar verið í húsi á laugardaginn á aukaþingfundi til að halda áfram margra daga umræðu um veiðifrumvarpið, gagnrýnt að fjármálaráðherra hafi ekki verið í salnum á laugardaginn, gagnrýnt að lagafrumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið afgreitt úr velferðarnefnd þvert á vilja andstöðuliða og áfram mætti telja.
Það sama var uppi á teningunum í dag, en Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks gagnrýndi að stjórnarliðar hafi neitað að rýma til á dagskrá atvinnuveganefndar svo nefndarmenn kæmust á fund sjávarútvegssveitarfélaga sem er haldinn á Hilton hótelinu á föstudaginn.
„Virðulegur forseti. Ég sé mig knúinn til að vekja athygli virðulegs forseta á ákveðinni stöðu sem er að koma upp í atvinnuveganefnd þingsins. Þar var, að beiðni formanns, farið í það um daginn að lengja fundartíma nefndarinnar og þeir byrja yfirleitt klukkan átta á morgnana núna. Það var samþykkt í meiri hlutanum og við tókum svo sem ágætlega í það sum,“ sagði Jón en mætti við að þetta hafi verið undir þeim formerkjum að þannig fengist meiri tími fyrir gesti, sem hafi þó ekki gengið eftir.
„En nú ber svo við að það er fundur sjávarútvegssveitarfélaga boðaður á Hilton-hótelinu út af auðvitað fiskveiðistjórnarmálunum á föstudaginn kemur. Fundartíminn er sérstaklega valinn með tilliti til þess að þingnefndir séu ekki á fundum, að þingið sé ekki að störfum, og er fundartíminn frá hálfníu til hálftíu.“
Minnihlutinn í nefndinni hafi óskað eftir rými til að ná að mæta á þennan fund.
„Því hefur verið hafnað af formanni nefndarinnar og tekið undir það af öðrum fulltrúum í meiri hlutanum. Þetta eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð, virðulegur forseti, að ætla að þvinga fram fund í nefndinni þegar þessar aðstæður eru uppi. Þarna eru fulltrúar 26 sveitarfélaga að óska eftir því að sérstaklega fulltrúar úr atvinnuveganefnd komi á þennan fund og ég bið forseta að grípa inn í og beina þeim tilmælum til formanns nefndarinnar og annarra að það verði orðið við þessari beiðni okkar.“
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar, segir að það komi sér á óvart að Jón sé að gera athugasemdir við fundarstjórn nefndarinnar.
„Það er nú þannig að sá sem hér talar er allur af vilja gerður til að koma til móts við minnihlutann í nefndinni. Þær óskir sem þar koma fram eru m.a. að fá meiri tíma með gestum og þess vegna var brugðið til þess ráðs að halda fundinn aðeins fyrr á daginn, sem ég taldi ekkert tiltökumál, að mæta átta í vinnuna í staðinn fyrir níu. Síðan hafa komið upp óskir um að ræða fleiri mál heldur en hafa verið sett á dagskrá af meirihlutanum, m.a. um málefni Bakka. Minn hugur stóð til þess að setja það á dagskrá næstkomandi föstudag. Það er greinilega snúið að koma til móts við allar óskir og þarfir en það skal ítrekað að formaður nefndarinnar, sá sem hér stendur, er allur af vilja gerður til að koma til móts við óskir háttvirts þingsmanns, Jóns Gunnarssonar.“
Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks tekur fram að Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafi verið að undirbúa þennan fund í einhvern tíma. KPMG sé að vinna að skýrslu um áhrifamat á þessar byggðir og standi til að kynna niðurstöðurnar á föstudaginn.
„Þess vegna kom þessi einfalda beiðni frá þeim sem hér stendur um það að nefndin hefði tækifæri til að sækja þann fund. Þið sjáið að tengslin eru mikil á milli atvinnuveganefndar og þessa máls, sem eru veiðigjöldin. Enn sem komið er hefur ekki verið tekið sérstaklega vel í það að við myndum þá kannski getað byrjað fund klukkan hálftíu í staðinn fyrir hefðbundinn tíma, níu, en svo er verið að færa fundi til átta.“
Njáll Trausti frétti af því að allsherjar- og menntamálanefnd ætlaði að taka tillit til fundarins svo þingmenn þeirrar nefndar gætu mætt, en það sama eigi greinilega ekki um þingmenn í atvinnuveganefnd.
Jón Gunnarsson steig aftur í pontu og sagði að þvert á það sem Sigurjón hefði sagt í sinni ræðu hefðu fulltrúar minnihlutans fengið hreint nei í tölvupósti frá honum.