fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Eyjan

Þurfti að stilla til friðar eftir háðsglósur á Alþingi þar sem þingmaður móðgaðist og meirihlutinn flissaði – „Bíddu, hvar hefurðu verið?“

Eyjan
Fimmtudaginn 8. maí 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Forseti ætlar að biðja fólk í hliðarsal um að hafa hægt um sig. Það er þingfundur í gangi,“  sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, á þingfundi í morgun eftir nokkuð hörð orðaskipti þingmannsins Jóns Péturs Zimsen og Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þórunn beindi orðum sínum í átt að sæti Jóns Péturs.

Jón Pétur, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, bað ráðherra að útskýra fyrir sér hvers vegna 40 prósent nemenda útskrifast úr grunnskólum landsins eftir tíu ára skyldunám án þess að hafa grunnfærni í lesskilningi.

„Ef staðan væri þessi í einhverju öðru kerfi en menntakerfinu væri löngu búið að bregðast við. En af því að þetta eru börn þá virðist þetta ekki skipta máli.

Ísland hefur allar forsendur til þess að vera með afburðaárangur í grunnskólunum. Við erum með vel fjármagnað kerfi, fimm ára kennaranám, tæknivædda grunnskóla, vel menntað bakland og erum ein ríkasta þjóð í heimi.“

Bíddu, hvar hefurðu verið?

Guðmundur Ingi furðaði sig á fyrirspurninni, enda hafi þetta átt sér stað á valdatíð flokks Jóns, Sjálfstæðisflokks.

„Ég verð nú bara að spyrja: Bíddu, hvar hefurðu verið?,“ en við þessi orð mátti heyra hlátur úr þingsal.

„Hverjir hafa verið að stjórna hérna? Við í ríkisstjórninni? Nei. Aftur á móti erum við verkstjórn og ætlum að taka til hendinni. Þinn flokkur hefur verið við völd undanfarna áratugi þannig ég spyr: Hvað voruð þið að gera? Þú getur kannski svarað því á eftir en ég ætla að benda á hvað við eru að gera.“

Ráðherrann rakti að nú standi til að breyta kerfinu. Það eigi að taka upp samræmt mat og þegar séu 14 ný samræmd próf í lesskilningi og stærðfræði í þróun. Búið er að leggja tilraunaverkefni fyrir 7.000 börn í 26 skólum og stefnt á að taka næsta vor í gagnið samræmt kerfi til að fylgja barni frá upphafi til enda.

„Við ætlum að vera með kerfi sem grípur börnin strax, fyrir utan að ég fór í mína fyrstu heimsókn út á land til Vestmannaeyja og kynnti mér þar Kveikjum neistann, frábært kerfi sem er einmitt hannað til að hjálpa börnum að lesa. Það er kerfi sem er byggt upp einmitt til að hjálpa þessum einstaklingum. Það er svo frábært að ég hefði viljað hafa það í skóla þegar ég var, byrja daginn á að hlaupa, á hreyfingu, 40 mínútur, síðan í kennslu.“

Guðmundur sagðist einnig horfa til þess lands sem hann segir standa sig best, Finnlands, og leita þangað.

Gróflega misboðið yfir svarinu

Jón Pétur taldi að Guðmundur hefði ekki svarað sér og virtist nokkuð móðgaður yfir málflutningi ráðherrans.

„Það er dapurlegt að hæstvirtur ráðherra hafi hér nám og framtíð grunnskólabarna í flimtingum. Og hér flissar meirihlutinn með, það er virkilega dapurlegt, og aðrir ráðherrar. Í raun sér maður á hvaða stað menntamálin eru.“
Guðmundur hafi í engu útskýrt slæman árangur grunnskólabarna heldur bara blaðrað út og suður.

„Ég vil að fólk átti sig á því að hér eru engin svör við því hvers vegna staðan er svona. Hvers vegna er staðan svona? Að öðru leyti væri gott að benda á að þessi matsferill sem hæstvirtur ráðherra er að leggja allt sitt traust á byggir á samræmdum könnunarprófum, hæfnisrammanum þar, og samræmdu könnunarprófin byggja á samræmdum lokaprófum sem byggja ekki á núgildandi námskrá. Þannig að við erum að búa til kerfi sem byggir ekki á þeirri námskrá sem er núna og þetta ætlar hæstvirtur ráðherra að halla sér á. Það er með ólíkindum hvernig er talað um menntamál hér. Ég frábið mér að það sé verið að gera grín að námsárangri barna hér í pontu.“

Jón Pétur tók einnig fram að Finnar séu hvergi nærri að standa sig best í menntamálum, en þess ber þó að geta að Finnland kom best út allra Norðurlanda í síðustu Pisa-könnun, og hvað lestur varðar voru aðeins Eistland, Bretland og Írland sem komu betur út í lestri, hvað Evrópu varðar.

Mynd/Datapandas

Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert?

Guðmundur tók fyrir að hafa gert grín að menntun eða stöðu barna. Hann hafi þó verið að benda á að staðan sem Jón Pétur talar um er ekki ný af nálinni.

„Aftur á móti mun ég vísa þessu beint til föðurhúsanna, til Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið við völd allan þennan tíma. Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert? Hvað hefur flokkur háttvirts þingmanns gert?“

Þá kallaði Jón Pétur úr salnum: „Svaraðu spurningunni“

Guðmundur sagði þá að staðan væri ekki núverandi ríkisstjórn að kenna heldur þeim flokkum sem höfðu verið við völd undanfarna áratugi. Ný ríkisstjórn ætli að leita lausna og koma þeim í framkvæmd.

„Við munum, ólíkt fyrri ríkisstjórn, sjá til þess að þessum börnum verði hjálpað.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennaárinu er fagnað – í kvíða

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennaárinu er fagnað – í kvíða
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Diljá Mist Einarsdóttir: Verðum að ávarpa þá tilfinningu þjóðarinnar að ekki sé eðlileg skipting ágóðans af sjávarútvegi

Diljá Mist Einarsdóttir: Verðum að ávarpa þá tilfinningu þjóðarinnar að ekki sé eðlileg skipting ágóðans af sjávarútvegi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meira um grátskýrslu forstjóra Síldarvinnslunnar – Samherji á fyrirtækið en ekki lífeyrissjóðirnir

Orðið á götunni: Meira um grátskýrslu forstjóra Síldarvinnslunnar – Samherji á fyrirtækið en ekki lífeyrissjóðirnir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Einn stærsti styrktaraðili Repúblikana segir að Trump sé að eyðileggja vörumerkið Bandaríkin

Einn stærsti styrktaraðili Repúblikana segir að Trump sé að eyðileggja vörumerkið Bandaríkin
Eyjan
Fyrir 1 viku

Trump var ósáttur við umfjöllun um hendur sínar – Lét starfsfólk sitt kaupa allt upplagið

Trump var ósáttur við umfjöllun um hendur sínar – Lét starfsfólk sitt kaupa allt upplagið