fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Eyjan

Formaður Viðreisnar segir flokkinn með rödd sem er ólík öðrum – „Erum dálítið sér á báti á hinum pólitíska ás“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 28. september 2024 14:36

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar hélt ræðu sína á Haustþingi Viðreisnar rétt í þessu í fullum sal í Hlégarði Mosfellsbæ. 

„Skráningar á þingið héldu áfram langt fram á nótt og er ljóst að mikil stemning er innan raða Viðreisnar um þessar mundir. Hlégarður er stappfullur af bjartsýnu Viðreisnarfólki sem mun í dag leggja línur fyrir komandi kosningabaráttu. Þar sem Viðreisn ætlar sér að vera í lykilstöðu,“ segir María Rut Kristinsdóttir aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar.

Mynd: Aðsend

Segir Viðreisnarfólk þurfa að bretta upp ermar

Í ræðu Þorgerðar lagði hún áherslu á að tíminn væri dýrmæt auðlind og að verkefnið framundan væri ærið. „Allur tími þessarar ríkisstjórnar fer í innbyrðis erjur, þeirra á milli. Þetta skynjar fólk.  Þetta er þjóðinni dýrt spaug. Þið munið kæru vinir – að tíminn er dýrmæt auðlind.“

Hún lagði áherslu á að nú þyrfti Viðreisnarfólk að bretta upp ermar og leggja fram hvað það er sem flokkurinn stendur fyrir og af hverju það skiptir fólkið í landinu máli. Hvernig við sjáum Ísland fara áfram. „Því eins og okkar kona fyrir vestan segir – hún Kamala Harris – við ætlum ekki til baka¨ sagði hún og uppskar dynjandi lófaklapp í salnum.

Hún ítrekaði að kjarnamál Viðreisnar væru í raun ekkert flókin.

„Þau eru í grunninn bara almenn skynsemi og réttlætiskennd.Við viljum létta fólki róðurinn. Viðreisn er frjálslynt stjórnmálaafl sem er í raun nokkuð sama um hvað fólk gerir svo lengi sem það gengur ekki á rétt annarra. Frelsi með ábyrgð. Við viljum að ríkisfjármálin séu í lagi. Að við eigum fyrir því sem við ætlum að eyða. Þenjum ekki út báknið.Við viljum að mikilvægar hugmyndir um einfaldara kerfi og auðveldara líf verði að veruleika.“

Mynd: Aðsend

Flokkurinn í sérstöðu gagnvart Evrópumálum

Þorgerður minntist einnig á sérstöðu flokksins þegar það kemur að Evrópumálunum: „Og við viljum vera þjóð meðal þjóða og við treystum þjóðinni til að taka næstu skref til þess, helst fyrir kosningar. Kæru vinir – hér er ég auðvitað að tala um Evrópusambandið. Að við spyrjum þjóðina hvort eigi að halda áfram með aðildarviðræður og klára þær.  Að við hættum að rífast um bók sem ekki hefur verið skrifuð. Fáum inntakið á hreint, leyfum þjóðinni að marka sína framtíð en ekki leiðarahöfundum Moggans og öðrum leigupennum.

Þetta er risa hagsmunamál ekki síst í þágu unga fólksins, og við skuldum þeim það að veita þeim val.“

Þorgerður minntist einnig á samtöl sín við fólk þessa dagana:        

„Ég hitti fólk sem hefur áhyggjur af dýrri matarkörfu og áhrifum hennar á heimilisbókhaldið. Sem stendur sig núna að því að taka upp úr matarkörfunni hluti sem það hafði áður efni á. Ég hitti ungt fjölskyldufólk sem er gjörsamlega að kikna, álagið hjá þeim er mikið og í mörg horn að líta. Þess vegna verðum við að vinna að því að brúa bilið og styðja við þennan mikilvæga hóp samfélagsins með afgerandi hætti. Gleymum ekki að öll mál, öll mál sem við snertum eru fjölskyldumál! Ég hitti fólk sem lýsir yfir miklum áhyggjum af þróun menntamála hér á landi og sérstaklega ískyggilegri þróun um þverrandi lestrargetu barnanna okkar. Undirstaða jafnra tækifæra í samfélaginu er aðgengi að menntun – og við verðum að gæta þess að öll börn fá það tækifæri.“

Ingileif Friðriksdóttir, Pétur Björgvin Sveinsson, Helgi Ómarsson og Eva Mattadóttir
Mynd: Aðsend
Jón Gnarr og Diljá Ámundadóttir Zoëga
Mynd: Aðsend

Sérstaða Viðreisnar er skýr:

„Við í Viðreisn erum nefnilega með rödd sem er ólík öðrum. Erum dálítið sér á báti á hinum pólitíska ás. Við tölum óhrædd fyrir frjálsum markaði og sterku efnahagskerfi í opnu, alþjóðlegu samfélagi. Og leggjum okkur fram við að tryggja að kerfin okkar séu einföld, sanngjörn og grípi fólkið okkar í sterkt þéttofið velferðarnet, þegar á móti blæs.  Og við erum eini flokkurinn – eini flokkurinn á þingi – sem hefur nægjanlegt sjálfstraust til að standa með þeirri stefnu að hér þurfi  einfaldlega að skipta út gjaldmiðli sem þjónar ekki hagsmunum fólksins í landinu. Viðreisn er eini flokkurinn sem er með lausn fyrir heimilin í landinu til skemmri tíma en lítum óhrædd til lengri tíma lausna. Af hverju – því við vitum skyndilausnir og plástrar gera lítið til að létta fólki róðurinn. Því róðurinn mun þyngjast hratt aftur. Og aftur. Lærum af sögunni. Gerum betur, sýnum metnað og framsýni.“

Hún ítrekaði svo þetta: „Valið stendur á milli afturhalds og framfara. Valið er á milli sérhagsmuna og almannahagsmuna. 

Valið stendur hreinlega á milli fortíðar og framtíðar.) Og okkar stefna, kæra Viðreisnarfólk, hún er sú útfærsla sem ég er sannfærð um að íslenskt samfélag þurfi á að halda til að mæta framtíðinni.“

Þorsteinn Pálsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir ræða málin
Mynd: Aðsend

Hún ræddi einnig líðan ungs fólks:

„Engum, sem beitir aðra manneskju ofbeldi, líður vel. Við vitum sem er að aukin vanlíðan ungmenna, samfélagsmiðlanotkun, einmanaleiki, tilgangsleysi, félagsleg einangrun, fíknisjúkdómar og ofbeldi – allt eru þetta hlutir sem tengjast á einn eða annan hátt. Vanlíðan ungs fólks er eitt mikilvægasta málið í okkar samfélagi. Og hún tekur á sig ólíkar myndir, í sumum tilfellum þær dimmustu og sorglegustu hliðar lífsins sjálfs.“

Þorgerður Katrín, María Rut smellir af mynd í bakgrunni
Mynd: Aðsend
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gunnarsson: Brjóta hefði átt upp stjórnarsamstarfið 2021 – aftur tækifæri þegar Katrín sagði af sér

Jón Gunnarsson: Brjóta hefði átt upp stjórnarsamstarfið 2021 – aftur tækifæri þegar Katrín sagði af sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðbrandur Einarsson skrifar: Vinnuþrælar verðbólgunnar

Guðbrandur Einarsson skrifar: Vinnuþrælar verðbólgunnar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir