Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir samgöngumál í miklum ólestri og telur lausnina á vandanum felast í hugmyndum sem hann lagði fram árið 2017. Jón vill að stofnað verið opinbert fyrirtæki utan um rekstur alls vegakerfisins og að veggjöld verði tekin upp.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu. „Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að bregðast við þessu ástandi og verkefnið þolir enga bið. Einhver arðsamasta fjárfesting samfélagsins er fjárfesting í samgönguinnviðum. Tíma- og orkusparnaður er augljós ávinningur fyrir alla í umferðinni. Kostnaður samfélagsins vegna hárrar slysatíðni er óásættanlegur. Því verður ekki mætt nema með skilvirkara og betra vegakerfi. Uppbygging samgöngukerfisins um allt land verður að vera í forgangi á næstu árum, ef ekki þá blasir við algjört öngþveiti,“ segir Jón og útlistar með eftifarandi hætti hugmyndir sínar um úrlausnir á vandanum:
„Ég tel rétt að stofna opinbert fyrirtæki sem taki yfir uppbyggingu og mögulega rekstur á stofnleiðakerfinu, auk allra jarðganga og valinna vegarkafla víða um land. Með sambærilegum hætti og Landsnet sér um meginflutningskerfi raforku.
Á þessum vegarköflum þarf að koma upp nútímagjaldtökukerfi af umferð þar sem þeir sem reglulega fara um gjaldtökuhlið myndu greiða hóflegt gjald. Einskiptisnotendur myndu greiða hærra gjald, en þar verður eðlilega um ferðamenn að ræða. Þegar þetta var reiknað út 2017 af starfshópi sem ég skipaði vegna þessa var gengið út frá um 150 kr. grunngjaldi. Til viðmiðunar má rifja upp að ódýrasta gjald í Hvalfjarðargöng þegar innheimtu lauk þar 2018 var 238 kr. Á þeim tíma greiddu einskiptisgreiðendur um 37% af heildargjöldum sem má heimfæra á það að ferðamenn myndu greiða 35-40% af uppbyggingu vegakerfis sem sætti gjaldtöku.
Rétt er að halda því til haga að hugmyndir fyrrverandi innviðaráðherra um „samvinnuverkefni“, þ.e. samfjármögnun einkaaðila og ríkisins á samgönguframkvæmdum hafa reynst erfiðar í framkvæmd, eins og reynslan af fjármögnun framkvæmda við Hornafjarðarfljót og Öxi, þar sem þessa leið átti að fara, hafa sýnt. Sú leið verður alltaf óhagkvæmari þar sem einstaka verkefni eru undir. Með heildarnálgun á verkefnið er ljóst að nokkrar leiðir verða mjólkurkýr verkefnisins sem mun gefa miklu meiri möguleika á heildstæðri nálgun í stórverkefnum hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.“
Jón vill gæta hófs í gjaldtöku og selja ríkiseignir á borð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að fjármagna umbæturnar. Hann segir að breiðari og öruggari vegi þurfi í dreifbýli en í höfuðborginni þurfi að fjölga mislægum gatnamótum og þannig fækka slysum. Jón segir í lok greinar sinnar:
„Að efla og styrkja samgöngukerfið er þjóðhagslega mjög hagkvæmt. Það á bæði við í þéttbýli og í dreifbýli. Í dreifbýli snýst þetta um breiðari og öruggari vegi og aðskildar akstursleiðir þar sem við á. Í þéttbýli má nefna t.d. mislæg gatnamót. Slysamestu gatnamót landsins eru ljósastýrð gatnamót í höfuðborginni. Umferðarþyngstu gatnamót landsins eru mislæg gatnamót neðan Ártúnsbrekku og þar eru slys mjög fátíð. Að setja mislæg gatnamót víðar á höfuðborgarsvæðinu mun draga mikið úr slysum og greiða mjög fyrir umferð. Ekki er líðandi lengur að láta afturhaldsöfl í borgarstjórn standa í vegi fyrir slíkum framförum.“