fbpx
Þriðjudagur 17.september 2024
Eyjan

Hvaða fólk verður í framboði fyrir Samfylkinguna? – Útlit fyrir stórsigur og marga nýja þingmenn

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 31. ágúst 2024 12:00

Ýmis nöfn eru nefnd á kaffistofum landsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfylkingin hefur mælst stærsti stjórnmálaflokkur landsins í könnunum síðan í árslok 2022. Mælist flokkurinn ítrekað með á bilinu 26 til 30 prósenta fylgi. Ferskur andblær með nýjum formanni og gríðarlegar óvinsældir ríkisstjórnarinnar, einkum Vinstri grænna, skýra þetta að miklu leyti.

Flokkurinn hefur aðeins 6 þingmenn í dag en miðað við fylgið í könnunum myndi flokkurinn fá á bilinu 17 til 20 þingsæti. Ljóst er því að margir munu vilja komast í gott sæti á lista flokksins í komandi kosningum, sem verða í síðasta lagi eftir rúmt ár. DV leit yfir sviðið.

Stóru nöfnin

Stærsta spurningin er hvort að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, fari í framboð. Mikil umræða var um hvort hann tæki slaginn við Kristrúnu Frostadóttur um formennsku í Samfylkingunni haustið 2022.  Það gerði hann ekki og fékk hún því rússneska kosningu.

Helga Vala Helgadóttir er horfin af þingi og líklegt að Kristrún vilji fá einn sinn helsta bandamann, Jóhann Pál Jóhannsson, til að leiða það Reykjavíkurkjördæmi sem hún leiðir ekki. En að fá Dag, sem hefur gríðarlega pólitíska vigt og persónuvinsældir, gæti verið tilboð sem hún gæti ekki hafnað. Með því að láta Framsóknarmanninn Einar Þorsteinsson hafa borgarstjóratignina fær Dagur einnig gott andrými til þess að koma ferskur inn í alþingiskosningar.

Guðmundur Árni vann stóran sigur í Hafnarfirði.

Annar stór persónuleiki sem líklegur er til að koma inn af sveitarstjórnarsviðinu er Guðmundur Árni Stefánsson. Guðmundur Árni, sem var bæjarstjóri, ráðherra og sat á þingi í 12 ár, kom óvænt aftur inn í stjórnmálin í síðustu sveitarstjórnarkosningum eftir 16 ára fjarveru. Hann vann góðan sigur í bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði en hafnaði þó í minnihluta.

Þó að Guðmundur Árni sé orðinn 68 ára gamall hefur hann táp ungs manns og hefur beitt meirihlutann miklu aðhaldi. Einnig bauð hann sig fram og var kosinn sem varaformaður Samfylkingarinnar þannig að metnaðurinn er svo sannarlega enn þá til staðar.

Sigurvegarar af landsbyggðinni

Ýmist annað sveitarstjórnarfólk gæti reynt að láta slag standa eða að minnsta kosti minnt á sig við þá sem stýra uppstillingum, hvort sem það verða lokaðar nefndir eða flokksmenn.

Má þar meðal annars nefna Guðmund Ara Sigurjónsson, oddvita á Seltjarnarnesi þar sem flokkurinn fékk heil 41 prósent í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Guðmundur Ari er fulltrúi ungu kynslóðarinnar, aðeins 36 ára gamall, og hefur barist sérstaklega fyrir málefnum ungs fólks í sínu bæjarfélagi. En hann hefur einnig 10 ára reynslu sem bæjarfulltrúi og var á síðasta aðalfundi kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Sigur Guðmundar Ara á Seltjarnarnesi var eftirtektarverður.

Einnig má nefna Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og ritara Samfylkingarinnar. Arna Lára var sett í fimmta sæti í síðustu bæjarstjórnarkosningum hjá Í-listanum en upplýst var að hún væri bæjarstjóraefni listans. Í-listinn vann í kjölfarið góðan sigur, fékk 46 prósent og hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Samfylkingin hefur í dag engan þingmann í Norðvesturkjördæmi og því þarf uppstillingarnefnd að vanda valið vel.

Vert er að nefna þrjár aðrar konur sem gert hafa sig gildandi á sveitarstjórnarstiginu. Það er Hildu Jönu Gísladóttur, hinn reynda bæjarfulltrúa á Akureyri og fyrrverandi sjónvarpsstjóra N4, Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur forseta sveitarstjórnar Reykjanesbæjar, sem og Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Íris var lengi í Sjálfstæðisflokknum en sleit sig frá honum og gekk til liðs við bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey fyrir þar síðustu bæjarstjórnarkosningar eftir gríðarlega harðar deilur í flokknum. Hún hefur unnið tvo góða sigra í kosningum í Vestmannaeyjum.

Unggæðingarnir

Þá er glás af ungu fólki í Samfylkingunni sem hægt er að stilla fram ofarlega á listum. En Kristrúnu verður væntanlega umhugað að sýna fram á að um nýtt upphaf sé að ræða hjá flokknum.

Jóna Þórey er vonarstjarna í flokknum.

Á meðal unggæðinga í flokknum má nefna Jónu Þórey Pétursdóttur, lögfræðing og fyrrverandi forseta Stúdentaráðs, Óskar Stein Ómarsson fyrrverandi ritara Samfylkingarinnar, Lilju Hrönn Önnudóttur Hrannarsdóttur forseta framkvæmdastjórnar Ungs jafnaðarfólks, Rögnu Sigurðardóttur varaborgarfulltrúa og Aron Leví Beck skipulags- og umhverfisfulltrúa hjá Fjarðabyggð.

Verkalýðsforkólfar

Kristrún hefur einnig lagt áherslu á klassísk málefni vinnandi fólks og tengingu við verkalýðsfélögin, eins og jafnaðarmannaflokkar víða í Evrópu hafa og íslensku vinstri flokkarnir höfðu á árum áður.

Sterkur leikur til að sýna þetta í verki væri að fá einhvern af forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna á lista. Er þar helst að nefna Kristján Þórð Snæbjarnarson, formann Rafiðnaðarsambandins. Kristján tók við embætti forseta Alþýðusambandsins um tíma, eftir að Drífa Snædal sagði af sér. Þótti hann með eindæmum yfirvegaður og ekki hluti af „villta vinstrinu“ í verkalýðshreyfingunni.

Kristjáni Þórði var óvænt kastað inn í sviðsljósið og þótti standa sig með prýði.

Annar sem kemur til greina er hinn reyndi verkalýðsforkólfur Vilhjálmur Birgisson. Vilhjálmur hefur kannski frekar verið tengdur við Framsóknarflokkinn og álit hans á hvalveiðum virðast í fyrstu sýn gjörsamlega ósamrýmanleg við stefnu Samfylkingarinnar. En hann myndi hiklaust breikka kjósendahópinn og ekki er ólíklegt að hann sé orðinn þreyttur á að verja molnandi atvinnulíf á Akranesi.

Stóru spurningarmerkin

Þá eru ýmis tækifæri og möguleikar uppi í samfélaginu, oft hjá fólki sem ekki hefur haft sig frammi í Samfylkingunni eða neinum öðrum stjórnmálaflokki ef út í það er farið.

Helst ber að nefna Höllu Hrund Logadóttur, orkumálastjóra sem fékk 16 prósent atkvæða í forsetakosningunum í júní þrátt fyrir að vera lítt þekkt út fyrir íslenska embættismannakerfið. Nýlega var greint frá því að Halla Hrund hafi ekki sótt um nýja stöðu forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar. Halla Hrund myndi efla stöðu Samfylkingarinnar á sviði umhverfisverndar.

Annað nafn sem hefur verið nefnt er Þórður Snær Júlíusson. Þórður Snær tilkynnti nýlega starfslok sín sem ritstjóri Heimildarinnar og óvíst hvað tekur við hjá honum. Þórður hefur lengi verið orðaður við framboð fyrir Samfylkinguna þó að starfslok hans sem ritstjóri tengist því ekki beint samkvæmt heimildum DV.

Jón Magnús hefur sést á fundum.

DV hefur einnig heimildir fyrir því að Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, hafi sést á fundum hjá Samfylkingunni að undanförnu. Jón Magnús hefur skrifað mikið um heilbrigðismál og leitt viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins í bráðaþjónustu. Heilbrigðismálin hafi verið ofarlega á blaði hjá Kristrúnu Frostadóttur og framboð Jóns Magnúsar myndi efla trúverðugleika flokksins í málaflokknum.

Talandi um lækna, þá kemur annað nafn einnig til greina. Það er nafn Ölmu D. Möller, landlæknis. Alma var sterklega orðuð við forsetaframboð í sumar eftir vasklega framgöngu í COVID-faraldrinum en harðneitaði því. Algjörlega óljóst er hvort að Alma hafi nokkurn áhuga á framboði til þings, en hún á þó ekki langt að sækja það því að bróðir hennar Kristján L. Möller sat á þingi í 17 ár og var samgönguráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir skýrslu SFS um áhrif veiðigjalda á sjávarútveginn og hagkerfið vera enn eina grátskýrsluna studda falsrökum

Segir skýrslu SFS um áhrif veiðigjalda á sjávarútveginn og hagkerfið vera enn eina grátskýrsluna studda falsrökum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhannes krefur Kristrúnu um svör hvernig hún hyggist þrengja að ferðaþjónustunni – „Það eru margir sem bíða svars eftir þetta útspil í gær“

Jóhannes krefur Kristrúnu um svör hvernig hún hyggist þrengja að ferðaþjónustunni – „Það eru margir sem bíða svars eftir þetta útspil í gær“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Svönu líst ekki á blikuna: Ábyrgðarleysi að vara ekki við

Svönu líst ekki á blikuna: Ábyrgðarleysi að vara ekki við
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sænskir hægri menn segja vinstri menn komast upp með gyðingahatur

Sænskir hægri menn segja vinstri menn komast upp með gyðingahatur
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Eiríkur Bergmann: Vinstri-hægri ásinn er ekki bein lína heldur hestaskeifa – vinstri-hægri öfgarnar mætast

Eiríkur Bergmann: Vinstri-hægri ásinn er ekki bein lína heldur hestaskeifa – vinstri-hægri öfgarnar mætast