fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Reykjavíkurborg leitar á náðir þróunarbanka til að fjármagna viðhald skólabygginga

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 29. febrúar 2024 18:00

Laugarnesskóli er einn þeirra skóla í Reykjavík sem þarfnast hefur mikils viðhalds undanfarið. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur í morgun var samþykkt tillaga Einars Þorsteinssonar borgarstjóra um að honum yrði veitt heimild til að sækja um lán að fjárhæð 100 milljónir evra (15 milljarða króna) til Þróunarbanka Evrópuráðsins til að fjármagna viðhaldsátak í húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundar í borginni.

Með fundargerð fundarins á vef borgarinnar fylgir tillaga borgarstjóra en hún er samhljóða tilkynningu sem borgin sendi Kauphöll Íslands fyrr í dag. Fram kemur í fundargerðinni að með tillögunni hafi fylgt trúnaðarmerkt fylgiskjöl. Þessi skjöl eru því ekki aðgengileg á vef borgarinnar en fram kemur í tillögunni að um sé að ræða greinargerð og áhættumat, lánsumsókn til bankans og drög að bréfi til utanríkisráðherra.

Með tillögunni er lagt til að borgarráð veiti borgarstjóra heimild til að sækja um lán að fjárhæð 100 milljónir evra til Þróunarbanka Evrópuráðsins (Council of Europe Development Bank) til fjármögnunar á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundar, samanber áætlun sem upprunalega hafi verið lögð fram í borgarráði 4. nóvember 2021. Í íslenskum krónum nemi fjárhæðin um 15 milljörðum króna eða um 50 prósent af þeirri áætlun sem legið hafi fyrir við upphaf verkefnisins.

Í tillögunni segir enn fremur að verði lánsumsókn Reykjavíkurborgar afgreidd með jákvæðum hætti verði borgarstjóra veitt heimild til að hefja viðræður um lánskjör og undirbúa drög að gerð lánssamnings. Reykjavíkurborg hafi farið í umfangsmikið viðhaldsátak í skólahúsnæði borgarinnar á árinu 2022 en gert sé ráð fyrir að það muni ná yfir næstu fimm ár samkvæmt fjárhagsáætlun til ársins 2028.

Á síðustu árum hafi Reykjavíkurborg að mestu fjármagnað fjárfestingar með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði en unnið hafi verið að því að fjölga valkostum í fjármögnun og yrði fjármögnun frá þróunarbankanum liður í því. Bankinn láni eingöngu í evrum en unnið sé að því að skoða varnir gagnvart gengisáhrifum í samstarfi við innlenda banka. Niðurstaða viðræðna og drög að lánssamningi verði lögð fyrir borgarráð til samþykktar.

Félagsleg markmið í hávegum höfð

Á vefsíðu Þróunarbanka Evrópuráðsins segir meðal annars að hlutverk hans sé fyrst og fremst félagslegs eðlis. Hans helsta verkefni sé að ýta undir félagslega einingu í Evrópu með því að ýta undir velsæld í aðildarríkjum ráðsins og draga úr ójafnræði og myndun jaðarhópa. Þetta geri bankinn með því að fjármagna félagsleg verkefni. Bankinn fjárfesti í fólki, atvinnusköpun, umhverfismálum o.fl. Fram kemur að bankinn sé virkur í ýmsum geirum þar á meðal þeim sem snúa að heilbrigðis- og menntamálum.

Á vefsíðu Þróunarbankans er einnig sérstaklega tekið fram að innan hans sé mikil þekking á þörfum sem snúi að verkefnum sem varða félagslega innviði, víða í Evrópu. Einnig kemur fram að bankinn bjóði lántakendum upp á aðstoð sérfræðinga sinna við útfærslu þeirra verkefna sem hann komi að því að fjármagna.

Ferlið við lánsumsókn hjá bankanum er bersýnilega nokkuð umfangsmikið. Um það segir meðal annars að bankinn meti lánshæfi viðkomandi og að lántakar verði að standast viðmið bankans. Umsóknir um lán séu ekki staðlaðar heldur fari eftir hverju og einu verkefni og að bankinn aðstoði lántaka við að útbúa umsóknina. Félagsleg áhrif viðkomandi verkefnis hafi mikið að segja um mat á því. Bankinn býður upp á nokkrar leiðir til fjármögnunar. Þegar umsókn hefur verið frágengin er hún lögð fyrir stjórn bankans til samþykktar eða synjunar en lánsumsókn er lögð fyrir stjórnina með sérstöku bréfi fjármálaráðuneytis, þess ríkis sem lántakinn kemur frá, til aðalritara Evrópuráðsins en aðalritarinn metur hverja lánsumsókn og veitir álit sitt.

Fjármagnar sig á mörkuðum en ekki í hagnaðarskyni

Nákvæm lánskjör bankans eru ekki gefin upp á vefsíðu hans en þar kemur þó fram að hann fjármagni sig á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og fara kjörin því væntanlega eftir stöðu markaða hverju sinni. Tekið er fram að bankinn sé í efstu flokkum hjá lánshæfismatsfyrirtækjum. Þar sem hann sé ekki rekinn í hagnaðarskyni sé takmörkuð ávöxtunarkrafa á lánum sem hann veitir og engin lántökugjöld.

Þróunarbanki Evrópuráðsins safnar líka framlögum, einkum meðal opinberra aðila, til þeirra verkefna sem hann kemur að því að fjármagna. Evrópusambandið hefur veitt 3/4 af öllum slíkum framlögum en einstök ríki sem hafa veitt mest, eru Bandaríkin, Noregur og Þýskaland en Ísland er meðal þeirra ríkja sem lagt hafa fram fjármuni.

Útbreidd mygluvandamál og erfiðari fjármögnun á mörkuðum

Þessi væntanlega umsókn borgarinnar til að fjármagna viðhald á skólabyggingum kemur í kjölfar þess að mygla hefur fundist í fjölda grunn- og leikskóla í Reykjavík. Á síðasta ári greindu fjölmiðlar frá því að mygla hefði fundist í á þriðja tug leik- og grunnskóla í borginni. Sumir þeirra hafa flutt starfsemina að hluta eða að öllu leyti í annað húsnæði jafnvel í öðru hverfi en skólarnir eru í. Dæmi um þetta eru Fossvogsskóli og Hagaskóli.

Meðal annarra skóla sem verið hafa nokkuð í fréttum vegna myglu er Laugarnesskóli. Mygla kom fyrst í ljós í skólanum árið 2016 og síðan þá hefur að sögn starfsfólks skólans og foreldra nemenda gengið hægt að ráða bót á vandanum með nauðsynlegum framkvæmdum. Á síðasta ári neyddist skólastjórinn, Sigríður Heiða Bragadóttir, til að láta af störfum vegna þeirra áhrifa sem ástand húsnæðis skólans hafði á heilsu hennar. Vakti það talsverða sorg hjá nemendum og kennurum enda var Sigríður mjög vinsæl og vel liðin meðal þeirra og var sögð láta sér mjög annt um velferð nemenda.

Sjá einnig: Sigríður neyðist til að fara fyrr á eftirlaun vegna heilsuspillandi aðstæðna – „Mörg tár hafa fallið líka“

Reykjavíkurborg hefur undanfarin misseri einkum leitað eftir lánsfé með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Eins og áður segir kemur það fram í tilkynningu borgarinnar að væntanleg lánsumsókn til Þróunarbanka Evrópuráðsins sé liður í því að fjölga valkostum í fjármögnun.

Einhverjar vísbendingar hafa verið um að lánsfjármögnun borgarinnar sé orðin eitthvað erfiðari á innlendum mörkuðum. Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að borgin hafi fullnýtt lánalínu að upphæð 6 milljarða króna hjá Landsbankanum og einnig fullnýtt lánalínu sömu upphæðar hjá Íslandsbanka. Þegar kemur að skuldabréfaútgáfu hafnaði borgin til dæmis í ágúst síðastliðnum tilboðum í skuldabréfaflokkinn RVKN 35 1 sem fólu í sér ávöxtunarkröfu á bilinu 8,49 prósent til  8,63 prósent en mánuði síðar var tilboðum tekið í þennan sama flokk á ávöxtunarkröfunni 9,78 prósent. Það þýðir að kaupendur skuldabréfanna væntu þess að fá meiri ávöxtun en áður fyrir að lána Reykjavíkurborg fé. Hvort það feli í sér að viðkomandi telji áhættusamara en áður að lána borginni er þó erfitt að fullyrða nokkuð um.

Eins og áður kom fram er Þróunarbanki Evrópuráðsins ekki rekinn í hagnaðarskyni og getur því boðið upp á hagstæðari kjör en eru í boði á lánsfjármörkuðum. Það hefur væntanlega haft eitthvað að segja um að borgarstjóri lagði fram tillögu um að leitað yrði til þessa banka sem borgarráð hefur nú samþykkt að verði gert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“