fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 25. nóvember 2024 21:00

Ráðherrabílar fyrir framan Stjórnarráðið. Hverjir skyldu fá þá til afnota í næstu ríkisstjórn?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingiskosningar bresta á næsta laugardag og í kjölfarið fær Ísland nýja ríkisstjórn. Skoðanakannanir streyma fram og mikið er spáð í spilin. Andrés Jónsson almannatengill og Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður sem halda úti hlaðvarpinu Bakherbergið hafa sent frá sér mjög ítarlega kosningaspá. Þeir spá um hvaða frambjóðendur verði kjörnir á þing, hvaða flokkar sé líklegast að myndi næstu ríkisstjórn og hvaða einstaklingar úr þingmannahópnum líklegast sé að endi við ríkisstjórnarborðið. Samkvæmt spánni myndi verða mikil endurnýjun í þingmannahópnum en Andrés og Þórhallur spá því að af 63 þingmönnum verði 35 nýir.

Þeir spá því að Samfylkingin fái 13 þingmenn, Viðreisn 12, Sjálfstæðisflokkurinn 11, Miðflokkurinn 10, Flokkur fólksins 8, Framsóknarflokkurinn 5, Sósíalistaflokkurinn 3 og Píratar 1.

Gangi spáin eftir munu til dæmis allir ráðherrar Framsóknarflokksins, nema Willum Þór Þórsson, ekki ná kjöri, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir yrði eini þingmaður Pírata, borgarstjórarnir fyrrverandi Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson kæmust báðir inn og Gunnar Smári Egilsson kæmist inn fyrir Sósíalista sem og Davíð Þór Jónsson, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fimm líklegustu

Í spá Bakherbergsins eru nefnd þau fimm stjórnarmynstur sem líklegust þykja að verði niðurstaðan að loknum kosningum

Fyrsta mynstrið er fjögurra flokka ríkisstjórn Viðreisn, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata eða Flokks fólksins en ljóst er þó að samkvæmt spánni um fjölda þingsæta yrði fjórði flokkurinn að vera sá síðasttaldi til að meirihluti náist.

Annað líklegt stjórnarmynstur samkvæmt spá Bakherbergisins er fjögurra flokka stjórn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks Fólksins.

Önnur líkleg stjórnarmynstur eru þriggja flokkar stjórnir sem myndu samanstanda af í fyrsta lagi Viðreisn, Samfylkingunni og Miðflokknum. Í öðru lagi af Viðreisn, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum og í þriðja lagi af Viðreisn, Samfylkingunni og Flokki fólksins.

Líklegasti forsætisráðherrann

Viðreisn kemur við sögu í fjórum af fimm líklegustu stjórnarmynstrunum og taldar því 90 prósent líkur á að flokkurinn endi í ríkisstjórn. Þar með er talið líklegast að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verði forsætisráðherra. Samkvæmt spánni væru aðrir líklegustu ráðherrakandídatar flokksins Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem er spáð að endi líklegast í dómsmálaráðuneytinu, Hanna Katrín Friðriksson, sem spáð er að endi sem heilbrigðisráðherra og  Daði Már Kristófersson varaformaður flokksins sem spáð er að endi sem iðnaðar- viðskipta og nýsköpunarráðherra en Daði Már yrði þá ráðherra utan þings þar sem hann er í 22. sæti á lista flokksins í Reykjavík-Suður.

Bakherbergið spáir því að ráðuneytum og þar með ráðherrum verði fækkað úr 12 í 11 og öllum líklegum ráðherrrum er spáð ráðuneyti sem er talið líklegast að þeir endi í og ráðuneyti sem er talið næst-líklegast að þeir taki við.

Samkvæmt spánni eru 70 prósent líkur á að Samfylkingin setjist í ríkisstjórn. Því er spáð að ráðherrar flokksins verði Kristrún Frostadóttir, Alma Möller, Víðir Reynisson og Jóhann Páll Jóhannson. Því er spáð að líklegast verði Kristrún fjármálaráðherra, Víðir menntamálaráðherra, Alma heilbrigðisráðherra og Jóhann Páll félagsmálaráðherra.

Helmingslíkur

Því er spáð að líklegustu stjórnarflokkarnir á eftir Viðreisn og Samfylkingunni séu Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn en líkur þeirra allra þriggja á að setjast ríkisstjórn eru taldar 50 prósent.

Líklegustu ráðherrar Framsóknarflokksins eru Willum Þór Þórsson sem spáð er menntamálaráðuneytinu eða sínu núverandi ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytinu, Stefán Vagn Stefánsson sem er talinn líklegur kandídat í matvælaráðuneytið og loks Ingibjörg Isaksen en henni er spáð stöðu iðnaðar-, viðskipta- og nýsköpunarráðherra.

Líkleg ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins eru Bjarni Benediktsson sem helst er spáð utanríkisráðuneytinu en verði hann þar ekki þá forsætisráðuneytinu. Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur er spáð áframhaldandi setu í utanríkisráðuneytinu eða þá að hún taki við fjármálaráðuneytinu. Guðrún Hafsteinsdóttir yrði samkvæmt spánni áfram dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir yrði matvælaráðherra en yrði hún það ekki yrði hún menntamálaráðherra og Jens Garðar Helgason matvælaráðherra en honum er spáð innviðaráðuneytinu fari Áslaug Arna í matvælin.

Líklegustu ráðherraefni Miðflokksins eru samkvæmt spánni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem spáð er utanríkisráðuneytinu, Bergþór Ólason sem yrði umhverfisráðherra og loks Sigríður Andersen sem myndi snúa aftur í stól dómsmálaráðherra.

Minni líkur á stól fyrir Ingu

Bakherbergið spáir því að 20 prósent líkur sé á að Flokkur fólksins komist í ríkisstjórn. Verði það raunin er því spáð að Inga Sæland verði félagsmálaráðherra og því er spáð að komist flokkurinn í ríkisstjórn verði komið á fót sérstöku húsnæðismálaráðuneyti sem Ragnar Þór Ingólfsson taki við.

Þótt Pírötum sé spáð aðeins einu þingsæti eru samkvæmt spánni 10 prósent líkur að þessi eini þingmaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, verði ráðherra og taki þá við félagsmálaráðuneytinu en verði það ekki raunin fái hún dómsmálin.

Bakherbergið spáir því að það séu engar líkur á því að Sósíalistaflokkurinn fá sæti við ríkisstjórnarborðið, með sína þrjá þingmenn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?