fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra

Eyjan
Laugardaginn 23. nóvember 2024 16:03

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þessum kosningum er tækifæri til að móta næstu skref eftir að frá er farin óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Tækifæri til að skapa stjórn sem vinnur fyrir alla en ekki fáa. Tækifæri til að móta stefnu á grunni jafnvægis, forgangsröðunar og ábyrgðar.

Þjóðin þarf stefnu sem horfir til langs tíma og ríkisstjórn sem er annt um hagsmuni vinnandi fólks og lítilla- og meðalstórra fyrirtækja.

Ríkisstjórn sem tryggir að ávinningur hagvaxtarins skili sér í vasa almennings og hækkar ekki skatta. Ríkisstjórn sem treystir þjóðinni og byggir á reynslu og framtíðarsýn.

Viðreisn treystir þjóðinni – hafnar óttastjórnmálum

Við í Viðreisn finnum að áherslur okkar ná eyrum fólks. Fólk vill breytingar.

Fólk er orðið langþreytt á viðvarandi verðbólgu og háum vöxtum og því ójafnvægi sem hefur lengi plagað íslenskt efnahagslíf.

Það kallar eftir stjórn sem vinnur í þágu almennings og leggur áherslu á raunverulegt samstarf í þágu þjóðarinnar allrar. Þörfin fyrir þessa nálgun er augljós.

Nú birtist málflutningur Sjálfstæðisflokks þar sem skín í gegn furðuleg hræðsla við lýðræðislegar ákvarðanir fólksins í landinu. Því er haldið fram að sú einfalda afstaða Viðreisnar að þjóðaratkvæðagreiðsla fái að fara fram um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB sé hættuleg. Þessi furðulega hugsun er kannski fyrirséð hjá flokki sem ákveðið hefur að byggja kosningabaráttu sína á óttastjórnmálum. Hjá flokki sem hvorki virðist treysta sér til að byggja kosningabaráttu á árangri sjö ára ríkisstjórnarsamstarfs með Vinstri grænum og Framsókn né á raunverulegri stefnu.

Eftir stendur einfaldlega þetta: Viðreisn treystir þjóðinni, Sjálfstæðisflokkurinn gerir það ekki.

Gleymum ekki litlu- og meðalstóru fyrirtækjunum

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru drifkraftur í íslensku atvinnulífi.

Þau styrkja samfélagið og auka fjölbreytni og nýsköpun. Rekstrarumhverfi þeirra hefur hins vegar verið flókið og óskilvirkt á Íslandi. Óstöðugleikinn hamlar vexti þeirra og getu til að skapa meiri verðmæti. Fákeppnisokrið kemur niður á þeim rétt eins og á almenningi.

Á sama tíma og þessi fyrirtæki glíma við ósamkeppnishæft starfsumhverfi greiðir þjóðin næstum aðra hverja krónu í skatta eða lífeyrisiðgjöld. Þetta kallar á sjálfsagða kröfu fólks og fyrirtækja um góða nýtingu skattfjár til að fjárfesta í innviðum og þjónustu sem styður við fólk og fyrirtæki.

Það þarf að einfalda regluverk, draga úr óþarfa skrifræði og tryggja aðgang að ódýrara fjármagni. Skattahækkanir koma ekki til greina. Sköpum umhverfi sem styður betur við vaxtarmöguleika fyrirtækja og samfélagsins alls.

Almannahagsmunir í forgang

Á Íslandi greiðir almenningur aðra hverja krónu í skatta og samtryggingu lífeyrissjóðanna.

Skattfé almennings ætti að nýtast í þágu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og innviða. Raunin er sú að skattfé rennur að stórum hluta til í vaxtagreiðslur, þar sem fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins eru greiðslur vaxta.

Ísland þarfnast breytinga fyrir fólk og fyrirtæki. Með betri forgangsröðun, aukinni hagræðingu og hagkvæmum rekstri opinberra stofnana er hægt að bjóða bætta þjónustu og sterkari innviði. Þetta er leiðin fram á við til að skapa raunverulegan stöðugleika og bæta lífskjör fyrir alla.

Það er kominn tími til að setja almannahagsmuni í forgang á Íslandi og draga úr sérhagsmunagæslu. Viðreisn er tilbúin til þess að vinna fyrir þjóðina – þjóð sem við treystum.

Breytum þessu saman.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík suður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?