fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Eyjan

Björn Leví skrifar: Ég fór þrisvar sinnum í gegnum menntakerfið

Eyjan
Laugardaginn 19. október 2024 16:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson skrifar:

Ég fór þrisvar sinnum í gegnum menntakerfið

Þetta er ekki alveg nákvæmt, ég er næstum búinn að fara þrisvar í gegnum menntakerfið. Það eru enn nokkur ár í að það klárist.

Staða skóla og kennara í dag er flókin – svo ekki sé meira sagt. Það ætti að vera augljóst öllum sem vilja skoða það. Starf kennara er margfalt erfiðara í dag en þegar ég fór í fyrsta og annað skiptið í gegnum menntakerfið – starf sem er eitt af mikilvægustu störfunum sem eru til í okkar lýðræðissamfélagi. Þess vegna lagði ég og þingflokkur Pírata fram tillögu um sáttmála um laun starfsstétta grunninnviða

„Markmið sáttmála um lágmarksviðmið launa fyrir starfsstéttir grunninnviða verði að ná utan um verðmætamat samfélagsins á þeim mikilvægu störfum innan heilbrigðis-, mennta-, öryggis- og félagsþjónustukerfisins sem saman mynda samfélagslegt öryggisnet fyrir okkur öll.”

Í greinargerð er farið yfir stöðu launa samkvæmt skýrslu kjaratölfræðinefndar vorið 2023: “Ef skoðuð eruð grunnlaun í launareiknivél Kennarasambands Íslands má sjá að grunnskólakennari með fimm ára starfsreynslu og meistarapróf er með 686.444 kr. í laun. Það sama gildir um leikskólakennara með sömu menntun og starfsreynslu. Framhaldsskólakennari með kennsluréttindi og fimm ára starfsaldur er með 643.623 kr. í laun hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð, sama staða hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti gefur 709.594. Víða um land er hins vegar stór hluti kennara ekki með kennsluréttindi en laun samkvæmt kjarasamningum fyrir leiðbeinendur með meistarapróf og fimm ára starfsreynslu er 617.287. 10 Stærstur hluti þeirra sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna er jafnframt ófaglært starfsfólk eða alls 58% árið 2022. Leikskólaleiðbeinandi í Reykjavík fær 478.380 kr. í heildarlaun en í Kópavogi fær hann 433.209 kr., samkvæmt upplýsingum frá BSRB.”

Niðurstaðan er skýr: “Samkvæmt þessari samantekt eru mörg störf þeirra sem sinna grunninnviðum samfélagsins undir meðaltali grunnlauna í landinu.” Og spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er hvort þetta sé í samræmi við mikilvægi þessara starfa.

Þá er tölulega hluta þessarar greinar lokið – mig langar nefnilega til þess að deila reynslu minni á menntakerfinu. Sérstaklega eftir grein DV þar sem talað er við Ragnar Þór Pétursson um rósrauða reynslu þeirra sem þurfa ekki að sjá flóknu hluta menntakerfisins.

Ég er einn af þeim sem lenti í einelti í grunnskóla. Bæði á Sauðárkrók og í Grundarfirði. Það þýddi að samskipti við jafnaldra voru mjög takmörkuð – ég var einfaldlega ekki samferða þeim né “félagslegum þroska” þeirra. Mig minnir að einn þeirra hafi sagt mér að þeir hafi allir farið í meðferð einhvern tíma seinna á ævinni. Hversu satt það er, veit ég ekki, en þessu missti ég greinilega af. En leiðinlegt.

Á framhaldsskólaárunum mínum kom ég aðeins út úr skelinni sem ég hafði byggt í kringum mig í grunnskóla. Ég treysti jafnöldum mínum samt mjög illa – bjóst alltaf við að eineltið gæti byrjað aftur. Það gerðist sem betur fer ekki, en varnartilfinningin var alltaf til staðar. Eftir framhaldsskóla vissi ég svo ekkert hvað ég átti að fara að gera – og hófst þá önnur ferð mín í gegnum menntakerfið. Ég fór að vinna sem starfsmaður á leikskóla. Ég bókstaflega byrjaði upp á nýtt – eða eins og ég áttaði mig á síðar. Frá því að ég byrjaði að vinna í leikskólanum lærði ég að verða manneskja upp á nýtt. Manneskja sem treysti öðrum. Þar kynntist ég einlægni og heiðarleika aftur. Ekkert í lífinu hefur jafnast á við þá reynslu sem starfið á leikskólanum gaf mér.

Ég hafði fundið minn stað í lífinu. Kennsla. En kjörin voru ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Hvað þá laun starfsfólks í leikskóla sem var nýskriðið úr framhaldsskóla. Ég fann mér því kvöldnám í tölvunámi og skipti um starfsvettvang með söknuð í hjarta. Svo mikinn að þegar ég heyrði af kjarabaráttu kennara í upphafi aldarinnar – og loforðum stjórnvalda um bætt kaup og kjör – að þá skráði ég mig í fjarnám í Kennó og fór fljótlega að kenna í grunnskóla. Ég hélt áfram að tvöfalda leið mína í gegnum menntakerfið.

Þar kenndi ég nemendum allt frá 3. – 10. bekk. Aðallega nemendum á efsta stigi grunnskólans. Þarna var ég aftur kominn inn í menninguna sem gegnsýrði æsku mína af einelti – en núna sem kennari. Ég sá litlu hjörtun í stóru strákunum sem reyndu að belgja sig sem mest út í sýndarmennsku og skildi betur hvaðan eineltið kom. Úr óöryggi. Ásýndin var allt til þess að fela óöryggið gagnvart innihaldinu. Það þýðir alls ekki að innihaldið hafi verið lítið – þvílík snilld sem bjó í þeim öllum sem einum. En óöryggið er svo erfitt.

En þrátt fyrir kennaraverkföll breyttist ekki mikið. Ég leitaði aftur yfir í tölvurnar og kerfin mín og endaði á því að klára master í tölvunarfræði þar sem ég var með áherslu á menntatengda tölvutækni. Ég óf þessi áhugamál mín einhvern vegin saman í lok annarar umferðar í gegnum menntakerfið.

En nú er það þriðja atrennan. Sem foreldri. Þegar ég var í grunnskóla var einn í bekknum ættleiddur erlendis frá. Ekkert nema Íslendingur auðvitað. Ekkert annað tungumál í bekknum. Sama í framhaldsskóla. Sama þegar ég starfaði í leikskóla. Sama þegar ég kenndi í grunnskóla. En nú er staðan önnur. Allt önnur. Stjarnfræðilega allt önnur.

Það er skiljanlegt að einhverju leyti að fólk vilji bara einföldu tímana aftur þar sem allir tala íslensku og eru hvítir í framan. Það er mjög mannleg tilfinning. Á sama tíma hljótum við að gera okkur grein fyrir því að það er ekki að fara að gerast. Heimurinn breytist og þó að það sé sagt að mennirnir breytist með, þá gerist það því miður hægar. Þá eru einhverjir sem vilja hægja á eða stoppa breytingarnar. Hingað og ekki lengra pólitík. Ég verð að vera einlægur þegar ég segi að ég hafi aldrei séð það gerast á jákvæðan hátt. Hversu mikið sem við myndum vilja það.

Ég man ekki hversu mörgum kennaraverkföllum ég hef tekið beinan og óbeinan þátt í. Sem bæði nemandi og þegar ég var að kenna. Fyrsta ræðan mín á Alþingi fjallaði hins vegar um það, þannig að ég get bara flett því upp:

„Virðulegi forseti. Ég var grunnskólanemi í nokkrum verkföllum. Ég var framhaldsskólanemi í verkfalli. Ég var grunnskólakennari í verkfalli.

Frá 1977 hafa verið kennaraverkföll á rétt rúmlega fjögurra ára fresti að meðaltali. Ég hef ýmist verið nemandi eða kennari í rúmum helmingi þeirra. Ég horfði á það af þingpöllum þegar Alþingi setti lög á verkfall kennara árið 2004. Alþingi setti lög sem byggðu á samningi sem kennarar höfðu þegar hafnað með 93% greiddra atkvæða.

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um að menntun er verðmæt en tíð verkföll kennara, núverandi verkfall framhaldsskólakennara og yfirvofandi verkfall Félags háskólakennara bendir hins vegar til þess að stjórnvöld meti ekki framleiðendur menntakerfisins að verðleikum.

Fræðslustarfsemi er að meðaltali lægst launaða atvinnugreinin. Er það skrýtið að kennarar fari svona oft í verkfall?

Ég hvet því til þess að framkvæmdarþjónustan, hæstv. menntamálaráðherra, tryggi stöðu fræðslustarfsemi, eins mikilvæg og hún er, til framtíðar, að vinna að sátt með menntastarfsfólki og samfélaginu öllu sem greiðir fyrir þjónustuna, sátt í þágu starfsöryggis, sátt í þágu námsöryggis og sátt í þágu framtíðar íslenskrar hugvitsstarfsemi.“

Þarna minnist ég einmitt á loforðið um kjarabætur kennara sem gerðu það að verkum að ég skráði mig í kennaranám – sem ríkisstjórnin setti síðan lög á. Gott ef áhugi minn á óréttlæti samfélagsins sem Alþingi var gerandi í hafi ekki kviknað dálítið þarna – áhuginn um að gera betur.

En það er einmitt það sem við þurfum að gera. Betur. Þess vegna lagði ég fram tillöguna um sáttmála um laun starfsstétta grunninnviða – af því að á þeim byggjum við íslenskt lýðræðissamfélag.

Höfundur er þingmaður Pírata

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hversu stjórntækur Flokkur fólksins er

Skiptar skoðanir á hversu stjórntækur Flokkur fólksins er
Eyjan
Fyrir 1 viku

Baldur rýnir í kosningaúrslitin – Einn af fjórflokkunum datt af þingi og Píratar fengu sömu örlög og allir nýir flokkar

Baldur rýnir í kosningaúrslitin – Einn af fjórflokkunum datt af þingi og Píratar fengu sömu örlög og allir nýir flokkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn