fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Stærsta áskorunin sem Kristrún stóð frammi fyrir – „Ég ætlaði ekki að segja ósatt eða ganga gegn mínum gildum“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 18. október 2024 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist reglulega minna sig á að samfélagið sem hún ólst upp í hafi fært henni tækifæri í lífinu. Kristrún, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist vilja höfða til þeirra sem vel gengur á Íslandi að muna að enginn kemst langt einn síns liðs:

,,Við eigum að höfða til ábyrgðar þeirra sem gengur vel og hafa það mjög gott. Það fólk vill búa í góðu samfélagi eins og við hin og áttar sig vonandi á því að það komst ekki þangað sem það er eitt síns liðs. Ég hef oft tekið sjálfa mig sem dæmi. Ég kem inn í pólitík úr fjármálageiranum og var í mjög vel launuðu starfi, hefur alltaf gengið mjög vel í skóla og hef átt mikið af vinum og góðu fólki í kringum mig. Ég fékk styrk til að fara í nám erlendis í ,,Ivy-league” skóla og vann þar fyrir flott fyrirtæki og þar fram eftir götunum. En ég veit hvaðan ég kom. Ég er ekki firrt. Það flæddi ekkert allt í peningum þegar ég var krakki og ég veit að það var meira en bara minn dugnaður sem kom mér þangað sem ég er. Það er semfélagið sem ól mig, velferðarkerfið sem hélt utan um mig og menntakerfið sem kom mér áfram og svo hef ég auk þess verið gríðarlega heppin. Það er frábært að fólk gangi vel og við eigum að vera ánægð með það, en við erum líka í þessu öll saman. Þeir sem fá ekki sömu tækifæri eiga ekki að sitja eftir og við verðum að ýta undir þá tilfinningu að allir taki þátt í samfélaginu saman.”

Að hitta fólk er það besta sem Kristrún hefur gert

Kristrún segir það hafa breytt sér fyrir lífstíð að hafa hitt fólk um allt land síðan hún byrjaði í stjórnmálum:

,,Þetta er það besta sem ég hef gert í lífinu. Þessi hluti af starfinu. Að hitta fólk um allt land. Sama hvernig þetta verkefni fer, hvernig kosningarnar fara eða hvort ég verð í ríkisstjórn eða ekki, hefur þetta breytt mér fyrir lífstíð. Það að fá að hitta fólk um allt land sem er að gera magnaða hluti án þess að það fari hátt hefur verið stórkostleg lífsreynsla. Á þessum ferðum mínum um landið tók ég ákvörðun um að ég vildi frekar segja minna og geta staðið undir því, heldur en að lofa einhverju sem ég get ekki staðið við. Orð eru ofboðslega ódýr og fólk áttar sig á því,” segir Kristrún, sem segist einlæglega þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að þora að vera óvinsælir þegar það þarf að taka erfiðar ákvarðanir:

,,Það var ein stærsta áskorunin sem ég stóð frammi fyrir þegar ég fór í stjórnmál. Að ég ætlaði ekki að segja ósatt eða ganga gegn mínum gildum. Frekar að þora að segja fólki satt þó að það vilji heyra þig segja eitthvað annað. Ég hafði ekki verið í stjórnmálum áður og hafði búið erlendis og á ákveðinn hátt verið lokuð í mínum turni. Það opnaði augu mín mikið að byrja að hitta allt þetta fólk á Íslandi og tengja við grasrótina í þessu landi.”

Gagnrýnd fyrir að skipta um takt flokksins

Kristrún hefur á köflum verið gagnrýnd úr ákveðnum hornum eigin flokks fyrir að skipta um takt og koma með annan málflutning en var í Samfylkingunni fyrir hennar tíð:

,,Það getur verið vandasamt að ná að sýna muninn á þér og öðrum flokkum án þess að fara í öfgar og kreddur. Í stjórnmálum vill fólk alltaf sjá muninn á þér og öðrum og það er ákveðin krafa um það það þurfi að vera mjög skýr munur og helst harkalegur munur. En ég hef ákveðið að horfa á þetta þannig að í stórum og breiðum flokki eins og Samfylkingin á að vera sé ekki mikið rými fyrir kreddur og öfgar. Jafnaðarstefnan er í grunninn ekki byltingarsinnuð og þannig sé ég hana.”

Fólk upplifir óstjórn í útlendingamálum

Einn af þeim málaflokkum þar sem Kristrún hefur talað á annan hátt en margir til vinstri í stjórnmálum eru útlendingamálin. Þar segir hún ákall um að stjórnvöld nái betri tökum á málaflokknum:

,,Fólk upplifir óstjórn í þessum málaflokki af því að hann virðist oft rekinn í óðagoti og undanþágum og ákveðnum öfgum í sveiflum upp og niður. Kostnaður safnast upp og öllu er blandað saman í eina umræðu. Við verðum að haga rammanum með þeim hætti að fólk upplifi að stjórnvöld ráði við þennan málaflokk. Við viljum ekki búa til samfélag sem er stéttskipt eftir því hvaðan þú kemur. Það skiptir máli hversu hratt fólk kemur inn í landið, hvernig það aðlagast og hvernig fjölskyldan aðlagast. Þetta hefur svolítið verið þannig að fólki hefur verið mokað hingað inn af því að okkur vantar vinnuafl, án þess að hugsa um að það þurfi heilbrigðisþjónustu, innviði fyrir börnin og þar fram eftir götum. Við verðum að geta rætt þetta án þess að þetta snúist um einstaklinginn per se. Ofboðslegur vöxtur er ósjálfbær og í honum felst ákveðin óstjórn,” segir Kristrún sem segir augljóst ákall frá almenningi um að tekin sé umræða um þennan málaflokk og ekki hoppað beint í að ráðast á alla sem voga sér að taka umræðu um hluti eins og skipulagða glæpastarfsemi:

,,Það að skipuleg glæpastarfsemi sé orðinn raunveruleiki á Íslandi er mjög alvarlegt mál og við eigum að taka það alvarlega. Við eigum ekki að hrökkva í kút þegar það er talað um það og gefa okkur að allir sem tala um það hljóti að vera að kenna öllum útlendingum um glæpi í landinu. Þvert á móti kemur það sér mjög illa fyrir fólk af erlendu bergi brotið á Íslandi að aðrir séu að koma á þá óorði með því að fremja hér glæpi. Landamæraeftirlit á Íslandi hefur einfaldlega ekki verið nógu gott. Stundum þarf að tala um þessa hluti með köldum haus til þess að ná sem bestri niðurstöðu.”

Hve mikið á ríkið að vasast í lífi þegnanna

Kristrún og Sölvi ræða í þættinum um hlutverk ríkisins. Hve langt það eigi að ná og hve mikið það eigi að vasast í lífi þegnanna. Kristrún gefur lítið fyrir umræðu um að það sé alltaf slæmt ef ríkið stækkar:

,,Ríkið á að veita fólki öryggi fyrst og fremst. Það er stóra hlutverk ríkisins. Öryggi kemur til á mjög mörgum vígstöðvum, löggæsla, almannavarnir, dómstólar og fleira þess háttar. En svo eru það velferðarmálin. Að fólk upplifi öryggi ef eitthvað komi upp á. Auðvitað er ekki hægt að vernda fólk fyrir öllu, en ríkið á að skapa grunn-öryggi, sem gerir það að verkum að fólk getur farið út og lifað sínu lífi, tekið þátt í atvinnurekstri og tekið áhættur, til þess að ýta undir verðmætasköpun. Ef að fólk upplifir ekki öryggi þegar kemur að grunnþáttum eru ekki forsendur fyrir góðu samfélagi. Þetta er auðvitað endalaust jafnvægislist hvar línan á að liggja. En í fátækustu löndum heims er ríkið mjög lítið og stofnanastrúktúr nánast enginn og þar eru innviðir í molum. Að sama skapi eru þau lönd sem almennt er talið að standi best almennt með talsvert stórt ríki. Í þeim löndum þar sem verðmætasköpun er mest er ríkið hve stærst sem hlutfall af landsframleiðslu.”

Kristrún segir að síðustu þrjú ár hafi kennt sér mikið og hún sé þakklát fyrir viðbrögðin sem hún hefur fengið um allt land:

,,Ég tók þessa ákvörðun frekar ,,spontant” að fara í stjórnmál. Ég vildi nýta þekkingu mína til góðs og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Ég tel mig hafa trúverðugleika í efnahagsmálum sem mér hefur fundist vanta í jafnaðarmannaflokka á Íslandi. En það hefur margt breyst í stjórnmálunum bara á þessum þrmur árum síðan ég byrjaði og skoðanakannanir sýna að það er mikil hreyfing í gangi. En ég er ennþá nógu ný í þessu til þess að vera ekki orðin neikvæð og trúi því að það sé hægt að gera breytingar á þessu samfélagi sem muni verða mjög til góðs til lengri tíma.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Kristrúnu og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“