Íslendingum finnst flugfélagið PLAY hafa jákvæðari áhrif á samfélagið en Icelandair samkvæmt niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem birt var í gær. Sjálfbærniásinn, sem metur viðhorf almennings til frammistöðu íslenskra fyrirtækja í sjálfbærni, var kynntur í Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík. Rannsóknin er framkvæmd af Prósenti í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Langbrók og stjórnunarfélagið Stjórnvísi. Fimmtán þúsund Íslendingar 18 ára og eldri voru í úrtakshópi Prósents.
Íslensk erfðagreining mældist hæst þeirra fyrirtækja sem mæld voru en alls hlutu sextán fyrirtæki viðurkenningu fyrir árangur í sjálfbærni.
Fyrirtækin hlutu 0 til 100 stig þar sem 0-49 stig er talin slæm frammistaða, 50-59 stig meðalgóð frammistaða, 60-69 stig er góð frammistaða og 70 stig og yfir er afbragðsgóð frammistaða.
Alls voru veitt verðlaun í fjórtán flokkum en athygli vakti að flugfélagið PLAY skákaði samkeppnisaðilinum Icelandair duglega. PLAY hlaut 73, sem flokkaðist sem afbragðsgóð frammistaða, en Icelandair stóð þeim talsvert að baki með 64 stig, sem flokkast sem góð frammistaða.
Ein af lykilspurningunum sem lagðar voru fyrir úrtakshópinn var spurningin: Ég er ánægður með framlag fyrirtækisins til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Má því túlka niðurstöðurnar á þann veg að Íslendingar séu ánægðari með framlag Play til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið en Icelandair.
Þá vekur einnig athygli að sparisjóðurinn Indó kafsigldi önnur fjármálafyrirtæki í rannsókninni. Indó fékk einkunnina 85, og var í öðru sæti íslenskra fyrirtækja, en Auður, fjármálaþjónusta Kviku stóð sjóðnum talsvert að baki með einkunnina 75. Viðskiptabankarnir þrír voru hins vegar langt fyrir aftan með einkunnirnar 51 (Landsbankinn), 49 (Arion banki) og 46 (Íslandsbanki).