fbpx
Mánudagur 03.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Eyjan
Fimmtudaginn 9. maí 2024 10:30

Jón Sigurður segir frá kynnum sínum af Svedda Tönn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reglulega heyrum við fréttir af fangelsismálum Svedda tannar enda ekki óskemmtilegt að heyra af manni sem áður hélt til í partíhöll, umkringda sportbílum en dvelur nú bakvið lás og slá í Brasilíu. Eflaust eru margir fanganna ágætir innvið beinið en ekki er laust við að lesandinn fái á tilfinninguna að hagur hans hafi síst vænkað.

Á sama tíma gerist nokkuð í framhaldsskólanum þar sem ég vinn hér í Andalúsíu sem hefur nokkuð með þennan mann að gera. Þannig er mál með vexti að ég var að spila Bítlalög á gítarinn fyrir nemendur þegar einn þeirra spyr hvernig ég hefði fyrst lært á gítar. Þá horfði hugurinn til verbúðanna á Þórkötlustöðum, vetrarkvöld eitt árið 1989 þegar ég var búinn að bursta tennurnar og er á leið til vistarveru minnar. Þá verður mér gengið framhjá opnum dyrum.

Þar fyrir innan liggur afar illa tenntur drengur í rekkju sinni en við hliðina á rúminu er gítar svo fagur að ég staldraði við. Munaður einsog einkalíf var ekkert að þvælast fyrir okkur þarna á verbúðinni svo ég geng inn og spyr formálalaust hvaðan þessi forkunnar fagri gítar sé kominn. Sagði Sverrir þá upp og ofan af gripnum en mest af því er mér gleymt nema að hann sagði réttilega að hann væri sömu gerðar og sá sem prýddi plötuumslagið Brothers In Arms sem Dire Straights hafði gefið út nokkrum árum áður. Hitt man ég hinsvegar að hann settist á rúmstokkinn, líklegast á nærbuxunum, og tekur upp gripinn.

Fór hann vel í hendi, einsog hass sem lögreglan handleggur, svo ég taki mér í munn það ankanalega lögregluorð sem blaðamenn eiga ekki að lepja upp. Grípur hann svo með tveimur fingrum um jafnmarga strengi og hefur söng og leik. Eina lagið á efnisskrá Sverris var lagið Ung, gröð og rík en líklega eru komin fleiri lög á dagskránna þar sem nægur tími gefst til gítarleiks í brasilísku fangavistinni á síðkvöldum. Hann lék þó ekki aðeins lagið og söng heldur sýndi mér hvernig ætti að spila og hefur það ekki runnið mér úr minni. Sitthvað fleira var rætt þetta kvöld og hlegið enda drengurinn hinn skemmtilegasti og eflaust hefur það ekki breyst þó þjóðin þekki hann nú síst af gamanmálum.

Um sumarið var lítið um fiskirí svo ég hélt heim til föðurhúsa, greip gítar móður minnar og tók á háls honum líkt og Sverrir hafði kennt mér. Þannig lék ég Wild Thing um hríð. Hægt og bítandi fann ég öðrum fingrum mínum stað á gítarhálsinum uns ég var búinn að ná því sem gítarleikarar kalla þvergrip. Færðist svo heldur betur fjör í leikin þegar ég lærði hin svokölluðu vinnukonugrip, sem dugðu Bubba í slagara einsog Stál og hníf. Svo fór ég að spila Bob Dylan en líklega var hátindinum náð í Norræna húsinu þegar ég flutti þar, ásamt Atla Steini Guðmundssyni, nú blaðamanni á Morgunblaðinu, lag mitt við ljóð Steins Steinarrs, Verkamaður. Leik ég enn á þennan gítar sem þó lætur ekki plata sig.

Rúmum tuttugu árum síðar er ég að fara af fréttavakt á Fréttablaðinu. Var ég í hátíðarskapi enda voru umbrotsmenn að brjóta um skúbbið mitt a forsíðu blaðsins. Hlakkaði mig til að drekka morgunkaffið með Fréttablaðið svo frítt í framan þann næsta dag. En þegar sú stund rann loks upp hafði ýmislegt breyst. Stígur nokkur Helgason hafði nefnilega rekið inn fréttanefið sitt á kvöldvaktinni og þefað upp tíðindi úr óvæntri átt. Þannig að í stað slorfréttar minnar á forsíðunni var nú grein Stígs um að lögreglan í Brasilíu hefði gripið Svedda tönn. Það fylgdi ekki fréttinni hvort það hafi verið með þvergripum eða vinnukonugripum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér