fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 13. apríl 2024 20:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg hefur vísað á bug fullyrðingum um að starfsmönnum á þjónustu- og nýsköpunarsviði hafi staðið til boða betri kaffistofukjör en starfsmönnum annarra sviða sem og að verktökum hafi verið gert að starfa líkt og þeir væru á launaskrá með tilheyrandi boðum í starfsmannagleði og skyldumætingu á vinnustofur. Heimildir Eyjunnar herma að þar sé farið frjálslega með staðreyndir.

Eitt umdeildasta verkefni Reykjavíkurborgar þessar mundir er stafræn umbreyting hennar. Verkefnið hófst óformlega árið 2016 en síðar var stofnað heilt svið til að halda utan um það, þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON), og árið 2021 var ákveðið að keyra umbreytinguna fyrir alvöru að stað með þriggja ára fjárfestingaátaki upp á 10 milljarða.

Sviðsstjóri nýja sviðsins mætti í viðtal og sagðist ætla að spara borginni milljarða og borgin sagði fjárfestingaátakið nauðsynlegt svo hægt væri að fara hraðar í umbreytinguna og klára á þremur árum.

Aðeins ári eftir að átakið hófst var þó komið annað hljóð í borgina. Hér væri um langtímaverkefni að ræða, milljarðarnir væru til að koma þessu að stað og ljóst að stafræn umbreyting gæti ekki klárast á aðeins þremur árum. Ráðgjafafyrirtækið Intenta gerði greiningu á stöðu umbreytingarinnar í lok árs 2022 og var borgin þá talin komin áleiðis, og ljóst að hér væri um langhlaup en ekki spretthlaup að ræða.

Það hefur verið þekkt staðreynd í stafrænni umbreytingu um allan heim undanfarna áratugi að meirihluti slíkra verkefna mistekst, þar með talið hjá hinu opinbera, með tilheyrandi kostnaði skattgreiðenda. Þessi staðreynd á enn við daginn í dag. Ekki er deilt um að verkefni sem þessi eru mikilvæg og óhjákvæmileg, en þrátt fyrir fjölda rannsókna og greininga sé ekki búið að finna töfraformúluna sem lætur ferlið ganga smurt.

Ekki nóg að vita hvað er gert heldur þurfi að koma fram hvað það kosti

Fulltrúar minnihlutans hafa gagnrýnt umbreytinguna harðlega, þá einkum þar sem verkefni hafa unnist hægt og þó kjörnir fulltrúar hafi fengið mikið af verkefnakynningum þá hafi þeir ekki fengið upplýsingar um kostnaðar- og tímaáætlanir eða skilaskýrslur þegar verkefni er lokið þar sem rakið er hvernig áætlanir stóðust. Borgarfulltrúar minnihlutans hafa gagnrýnt að það skorti á gagnsæi varðandi kostnað við rekstur sviðsins sem sé ýmist færður í bókhald sem rekstrarkostnaður eða eignfærður sem kostnaður á eignasjóð. Eins falli kostnaður til á önnur svið borganna vegna verkefna og hafa sögusagnir gengið um að frjálslega sé farið með val á bókhaldslyklum.

Ofangreind afstaða minnihlutans birtist í þeim fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram á fundum nefnda og ráða sem hafa með málefni ÞON að gera. Á fundi Stafræns ráðs á miðvikudaginn lagði fulltrúi Sjálfstæðisflokks fram eftirfarandi fyrirspurn:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að þjónustu- og nýsköpuarsvið skili yfirliti yfir þær tæknilausnir sem teknar hafa verið í notkun frá júní 2022, hvaða svið nýta viðkomandi tæknilausn og hver var kostnaðurinn við innleiðingu og kaup og aðlögun eða smíði viðkomandi tæknilausnar. Ennfremur er þess óskað að gerð verði grein fyrir því á hvaða svið kostnaðurinn sem varð til við innleiðingu viðkomandi tæknilausnar var færður. Einnig er óskað eftir að gert sér grein fyrir kostnaðinum eftir árum.“

Málefni sviðsins hafa komið til umræðu á vettvangi borgarstjórnar undanfarna mánuði þar sem ÞON og fulltrúar meirihlutans saka Flokk fólksins um að hafa gangið nærri sviðinu og starfsmönnum þess með rætnum fyrirspurnum. Ekki sé vinnufriður á ÞON og starfsmönnum mikið niðri fyrir. Sviðsstjóri Óskar J. Sandholt orðar það svo í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um starfsanda á sviðinu:

„Margir þættir hafa áhrif á andrúmsloft á vinnustað en einna flóknast hefur verið að bregðast við því að stjórnendur og starfsfólk sviðsins hefur undanfarin tvö kjörtímabil nánast stöðugt þurft að sitja undir ósanngjörnum og því miður oft órökstuddum og beinlínis röngum málflutningi fáeinna kjörinna fulltrúa og endurflutningi sumra fjölmiðla á þeirri orðræðu sem þeir viðhafa.“

Sagði ekkert hæft í sögusögnum um Vínstofuna

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa á fundum borgarstjórnar vísað á bug því sem þeir kalla sögusagnir um starfsemina á ÞON sem ekkert sé hæft í.

Dæmi um slíkt er frá fundi borgarstjórnar í vikunni. Þar steig Alexandra Briem frá Pírötum upp í pontu og sagðist hafa kannað sögusagnir um að starfsmönnum sviðsins hafi staðið til boða ókeypis gosdrykkir og að þar hafi verið að finna vínkæli. Ekkert sé hæft í þeim sögum.

Þetta gengur þó í berhögg heimildir Eyjunnar. Þar sem ÞON er til húsa, á fimmtu hæð í Borgartúni hjá Upplýsingatæknideild sé rými sem kallaðist framan af Vínstofan, en heitir nú Bríetarstofa. Þar fyrir utan í lítilli innréttingu er vínkælir og þar var hægt að komast í gos. Gosið kom á vörubrettum, var frá Ölgerðinni og samanstóð af því helsta sem drykkjarframleiðandinn hefur upp á að bjóða. Rýminu var áður lokað af með tjaldi, sem hefur nú verið skipt út fyrir gler, og þjónaði líka hlutverki sem fundarherbergi og var hægt að brúka til slíks og var þá gjarnan pantaður bakarísmatur til að hafa eitthvað með gosinu.

Eyjunni var eins bent á að ef sviðið hafi ekki verið að bjóða starfsmönnum upp á gos, þá þurfi að skýra hvers vegna sviðið hafi á 9 mánuðum 2023 greitt 1,3 milljónir til Ölgerðarinnar og bókað það sem starfsmannakostnað eða kaffistofukostnað, eins og kemur fram í opnu bókhaldi borgarinnar. ÞON lagði fram yfirlit í vikunni um innkaup sviðsins yfir 1 m.kr. á árinu 2023 og þar kom fram að sviðið átti viðskipti við Ölgerðina upp á tæplega 1,2 milljón og skýringin var: „Aðföng á kaffistofur“.

Verktökum gert að mæta á vinnustofu

Sviðsstjóri ÞON sagði eins í svari við fyrirspurn sem lagt var fram á fundi Stafræns ráðs í mars að verktökum hjá borginni sé ekki boðið á starfsmannaviðburði á kostnað borgarinnar, en starfsfólki á vegum verktaka sem starfa á starfsstöðvum þjónustu- og nýsköpunarsviðs bjóðist að taka þátt í viðburðum s.s. árshátíð gegn fullri greiðslu kostnaðar.

Þetta gengur í berhögg við heimildir Eyjunnar. Borgin hafi vissulega fengið til sín starfsmenn á vegum einkafyrirtækja og gert þeim að starfa á starfsstöð. Þessir samningar byggðu gjarnan á þáttöku í tilteknum verkefnum eða á grundvelli svokallaðra gagnvirkra innkaupasamninga. Þessir starfsmenn hafi þó verið verktakar enda ekki á launaskrá hjá borginni heldur skráð á sig tíma. Þeir hafi þó verið hvattir til að skrá ekki of nákvæmlega niður hvaða verkefnum þeir voru látnir vinna að hverju sinni. Þeim var gert að skila þó hefðbundnum vinnudegi í Borgartúni, fengu ekki að ráða vinnutíma eða staðsetningu sjálfir og voru látnir í verkefni að fyrirmælum starfsmanna borgarinnar og oft látnir hafa viðveru þó ekkert væri fyrir þá að gera. Þá hafi verið gerð athugasemd ef viðkomandi tóku á sig yfirvinnu fyrir aðra kúnna raunverulegs vinnuveitanda, þar sem borgin ætlaðist til að þeir væru aðeins að störfum fyrir borgina.

Þessir verktakar voru látnir mæta á vinnustofur og fyrirlestra þar sem þeim var sagt að um skyldumætingu væri að ræða, sem þeir rukkuðu fyrir samkvæmt verktökusamning,  og var boðið á starfsmannaviðburði á vegum borgarinnar án þess að þurfa að greiða.

Einn heimildarmaður greindi frá því í gamni að varla hafi verið hægt að koma nokkru í verk fyrir tíðum vinnustofum, fyrirlestrum eða fundum sem vörðuð beint vinnustaðamenningu í Borgartúni, eða starfsmannagleði sem gjarnan voru veglegar, þar sem gert var vel við sig í mat og drykk.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um skilaboð þar sem verktaka var boðið á starfsmannagleði:

Hér má sjá skyldumætingu verktaka á fyrirlestur með sérfræðingi í notendaupplifun, Paul Boag, en fyrir þetta rukkuðu verktakar 4 klukkustundir þó svo að efni fyrirlesturs og vinnustofu hefði ekkert með þeirra störf að gera.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“