fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Fjármálaráðuneytinu skipað að afhenda óritskoðaða reikninga vegna umdeildra viðskipta við lögmannsstofu

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 28. mars 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármála- og efnahagsráðuneytinu beri að afhenda fyrirtækinu Frigus II ehf. reikninga yfir viðskipti ráðuneytisins við lögmannsstofuna Íslög ehf. frá janúar 2018 fram til janúar 2023 með mun minni útstrikunum en áður hafði verið gert. Viðskipti ráðuneytisins við Íslög hafa verið umfangsmikil undanfarin ár og vakið talsverðar deilur ekki síst vegna félagsins Lindarhvoll sem var stofnað utan um eignir föllnu bankanna sem runnu til ríkisins í kjölfar samninga við kröfuhafa. Voru þau viðskipti efni sérstakrar skýrslu Sigurðar Þórðarsonar fyrrverandi ríkisendurskoðanda. Lengi hvíldi leynd yfir þeirri skýrslu en þegar hún loks var gerð opinber var niðurstaða hennar sú að ekki hafi verið farið vel með fjármuni ríkisins í rekstri Lindarhvols.

Sjá einnig: Hér er greinargerðin um Lindarhvolsmálið sem forseti Alþingis vildi ekki að væri opinberuð

Sjá einnig: Lindarhvolsmálið: Taumlaust örlæti fjármálaráðuneytisins við Steinar Þór Guðgeirsson

Lögmennirnir Steinar Þór Guðgeirsson og Ástríður Hjördísar Gísladóttir eiga Íslög en Steinar mun vera persónulegur vinur Bjarna Benediktssonar sem var fjármála – og efnahagsráðherra þegar ráðuneytið fór í hin umfangsmiklu viðskipti við Íslög. Ráðuneytið hefur greitt Íslögum háar fjárhæðir undanfarin ár fyrir umsýslu Lindarhvols og önnur verkefni.

Fyrirtækið Frigus II hefur gert margvíslegar athugasemdir við viðskipti ráðuneytisins og Íslaga. Frigus II er í eigu fyrrverandi eigenda Exista sem síðar fékk nafnið Klakki og rann til Lindarhvols. Gerði Frigus II meðal annaras athugasemd við sölu Lindarhvols á Klakka. Taldi fyrirtækið að virði hlutar ríkisins hefði ekki verið hámarkað og kærðu söluna til dómstóla. Dómur Héraðsdóms féll Frigus II ekki í vil en fyrirtækið hefur áfrýjað málinu til Landsréttar.

Afhenda án útstrikana

Það er því ljóst að saga viðskipta Íslaga við fjármála- og efnahagsráðuneytið er löng og viðamikil og þar að auki afar umdeild.

Í þeirri kæru Frigusar II sem Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur nú skorið úr um hafði fyrirtækið kært synjun ráðuneytisins á ósk fyrirtækisins um að fá afhenta alla reikninga vegna vinnu Íslaga ehf. fyrir ráðuneytið, frá janúar 2018 og til og með janúar 2023. Frigus II hafði fengið reikingana afhenta en með útstrikunum og vildi fá þá án þess upplýsingar í þeim væru afmáðar. Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni með vísan til þess að lýsing á vinnu Íslaga sem kæmi fram í reikningunum væru upplýsingar um efna­hagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins.

Í kæru Frigusar II var tilgreint að samkvæmt upp­lýsingum frá ráðuneyt­inu vörðuðu reikningarnir annars vegar vinnu fyrirtækisins vegna kaupa ríkis­sjóðs á öllu hlutafé fyrirtækis­ins Auðkennis ehf. og hins vegar lögfræðiráðgjöf vegna stöðugleikaeigna (sem Lindarhvoll var meðal annars stofnað utan um, innsk. DV.) o.fl. Í kærunni hafi verið vísað í að þóknanir úr ríkissjóði til Íslaga undanfarin ár hafi numið gríðarlegum fjárhæðum, sem ekki sjái enn fyrir endann á. Þá hafi vinna fyrirtækisins fyrir ráðuneytið verið án útboðs. Hagsmunir almennings að fá aðgang að upplýsingum um hvað sé verið að greiða fyrir séu augljósir.

Þagnarskylda og mikilvægir hagsmunir

Í úrskurðinum segir um rökstuðning fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir því að afhenda reikningana með útstrikunum að reikningar Íslaga til ráðuneytisins séu 33 talsins. Upplýsingar í þeim sem synjað hafi verið um aðgang að varði virka viðskipta- og fjárhagslega hagsmuni einstaklinga og lögaðila, sem og mikilvæga hagsmuni ríkis­ins sem tengist úrvinnslu stöðugleikaeigna. Stöðugleikaeignirnar hafi verið mótteknar af Seðlabanka Íslands fyrir hönd ríkissjóðs og upplýsingar um umsýslu þeirra falli því að mati ráðuneytisins undir þagnarskyldu­ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.

Ekkert viðkvæmt í reikningunum

Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars að í reikningunum sé vinnu Íslaga lýst með mjög almennum hætti. Upplýsingar um einstök verkefni teljist að langstærstum hluta ekki vera viðkvæmar samkvæmt almennum sjónar­mið­um eða séu opinberlega að­gengi­legar. Ráðuneytið hafi að engu leyti rökstutt með hvaða hætti af­hending upplýsinganna gæti verið til þess fallin að skaða fjárhag eða efnahag ríkisins.

Það er einnig mat nefndarinnar að upplýsingar í reikningunum um stöðugleikaeignir sem kunna að varða viðskipta- eða einkamálefni viðskipta­manna fjármála­fyrir­tækis í skilningi laga séu ekki undirorpnar þagnarskyldu þar sem þær séu opin­berlega aðgengilegar.

Undantekning frá þessu séu hins vegar upplýsingar á þremur reikningum um út­burðarmál sem varða tiltekna fasteign sem var hluti af stöðugleikaframlagi slitabús fjármálafyrirtækis. Úr­skurð­arnefndin telji að þær upp­lýs­ing­ar varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanns fjár­mála­fyrir­tækis í skilningi laga. Þá virðist upplýsingarnar ekki vera aðgengilegar opin­berlega. Sé ráðu­neytinu því óheim­ilt að veita kæranda aðgang að upplýsingunum og lagði nefndin fyrir ráðuneytið að strika yfir nafn fasteignar í þessum þremur reikningum áður en þeir verða afhentir Frigus II.

Að öðru leyti sé ekki að finna upplýsingar í reikningunum sem varði einka- eða fjár­hagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt.

Er fjármála- og efnahagsráðuneytinu því skylt að afhenda Frigus II ehf alla reikninga vegna vinnu Íslaga ehf. fyrir ráðuneytið á tímabilinu 1. janúar 2018 til janúarloka 2023, þó með áðurnefndum þremur yfirstrikunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast