fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Svandís með pálmann í höndunum – Bjarni ver hana og leyfir minni spámönnum að ólmast

Eyjan
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að ríkisstjórnin muni halda velli þrátt fyrir ólund nokkurra ósáttra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, leyfir þeim ekki að fella Svandísi vegna þess að þá fellur ríkisstjórnin. Bjarni vill halda þessari nánast dauðu ríkisstjórn saman fram á næsta ár. Það hentar honum sjálfum. Hann trúir því að rofa muni til síðar á þessu ári og hann vill trúa því og hann vill halda þessu áfram og vonast eftir betri tíð á árinu 2025. Bjarni Benediktsson er ekki á förum úr íslenskum stjórnmálum eins og sumir hafa haldið fram. Þeir sem líta hýru auga til formannsstólsins í Sjálfstæðisflokknum þurfa að bíða enn um sinn. Bjarni vonar að á næstu tveimur til þremur árum komi fram einhver nothæfur forystumaður þessa flokks. Enginn slíkur en nú í sjónmáli.

Bjarni Benediktsson ræður því sem hann vill ráða í flokknum. Þótt einhverjir minnipokamenn í þingflokknum bauli nú að Svandísi mun það engu breyta. Þeir vita það einnig sjálfir þó að þeim finnist mikilvægt að stimpla sig inn með skoðanir á misgjörðum Svandísar. Það er til heimabrúks innan flokksins sem er nú þegar í mikilli niðursveiflu.

Þeir sem hafa nú í hótunum vegna brota Svandísar vita að núverandi stjórnarmeirihluti í vinstri stjórnar Katrínar er með 38 þingmenn á bak við sig. Þannig þyrftu sjö þingmenn að láta af stuðningi við ríkisstjórnina og kjósa með stjórnarandstöðunni til að samþykkja vantraust á Svandísi. Þetta er þá miðað við að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar væru til í að fella hana. Það er heldur ekki víst. Ekkert bendir til þess að þetta gæti gerst.

Bjarni Benediktsson brosir bara út í annað og leyfir minnipokamönnum í þingflokknum að slá um sig með einhverjum ávirðingum á hendur Svandísi. En ekkert mun gerast þótt Óli Björn Kárason, Jón Gunnarsson og fleiri slíkir kvarti með einhverjum hætti. Þeir munu ekki segja af sér þó að Svandís sitji sem fastast þrátt fyrir ítrekuð lögbrot. Þeir munu svo þagna og gæta að sínum ríflegu þingmannslaunum og eftirlaunum. Þeir munu ekki víkja.

Orðið á götunni er að Bjarni Ben hafi alger tök á sínu liði. Það veit Svandís og er sallaróleg þrátt fyrir ágjöf nú um stundir.

Bjarni mun halda lífinu í þessari dauðvona ríkisstjórn fram á árið 2025.

Svanhildur Hólm og Logi Bergmann verma stólinn hans í Washington þar til honum hentar að hætta og fara þangað. Þá verður þeim skákað til Færeyja eða Helsinki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast