Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt.
Frumvarp þingmannanna, Vilhjálms Árnasonar, Óla Björns Kárasonar og Diljá Mistar Einarsdóttur, telur aðeins eina grein sem felur í sér viðbót við 30. grein tekjuskattslaganna.
Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Útgjöld vegna heimilishjálpar að hámarki 1.800.000 kr.
Leggja þingmennirnir til að lagabreytingin taki gildi 1. janúar næstkomandi. Frumvarpið hefur verið lagt þrisvar sinnum áður fram, en í því er lagt til að fjárhæð allt að 1.800.000 krónur á ári vegna heimilishjálpar verði frádráttarbær frá tekjuskattsstofni einstaklings, eða sem nemur að meðaltali 150.000 krónum á mánuði. Benda flutningsmenn tillögunnar á að sambærilega heimild megi finna í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi þó að útfærslan sé misjöfn eftir löndum.
Markmiðið með frumvarpinu er meðal annars að sporna við svartri atvinnustarfsemi auk þess sem hægt verður að auka réttindi þess fólks sem vinnur í dag störf sem talin eru nánar upp í greinargerð með frumvarpinu, meðal annars hvað varðar lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur. Bent er á að lagasetning í Svíþjóð og Danmörku hefur dregið úr svarti atvinnustarfsemi í þessum störfum.
Flutningsmenn telja að með lögfestingu skattfrádráttar vegna aðkeyptrar heimilishjálpar sé komið til móts við einstaklinga og fjölskyldur, einkum barnafjölskyldur, með margvíslegum hætti. Þá mun breytingin einnig gagnast eldri borgurum sem vilja búa áfram á eigin heimili en þurfa á þjónustu að halda við almenn heimilisþrif og önnur létt heimilisstörf.