Hildur Sverrisdóttir varð í dag nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Tekur hún við formennsku af Óla Birni Kárasyni, sem óskaði eftir því að víkja úr sæti formanns.
Í tilkynningu frá þingflokknum segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld segir Hildur þetta hafa borið brátt að og missir sé að Óla Birni.
„Þetta bar brátt að, gagnvart okkur flestum í þingflokknum, en Óli Björn hafði íhugað þetta í einhvern tíma og vildi fá að óska eftir því að fá að stíga úr þessu hlutverki. Hann er blessunarlega ekkert að hætta í þingflokknum, hann vill bara hætta kannski í þessu hlutverki til að geta einbeitt sér að öðrum verkefnum í pólitíkinni.
Hann var mjög farsæll hér á þinginu, bæði hjá samstarfsflokkunum og stjórnarandstöðunni líka. Þannig að þetta verða einhver fótspor sem ég þarf að stíga í, en ég er til í slaginn.“