fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Eyjan

Það sem kom í búðina hjá okkur varð tískan á Íslandi, segir Svava Johansen

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 19. nóvember 2023 10:30

Svava Johansen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Núna eru allir á ferðalagi, hvort sem þeir eru inni í sínu herbergi eða úti í löndum. Allir geta séð allt og skoðað. Svona var þetta ekki þegar Svava Johansen, forstjóri tískukeðjunnar NTC, steig sín fyrstu skref í tískubransanum. Þá stóð unga fólkið í biðröð eftir tískuvöru á laugardagsmorgnum og um kvöldið hittist sama fólkið í biðröðinni við Hollywood við Ármúla. Verslunin Sautján skilgreindi tísku unga fólksins á Íslandi. Svava er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.

Markaðurinn - Svava Johansen - 3.mp4
play-sharp-fill

Markaðurinn - Svava Johansen - 3.mp4

Það sem við komum með var bara í tísku. Ég var sjálf í Versló og það var nú svona tískuskóli og það sem kom inn í verslunina það bara seldist og það var bara hleypt inn í verslunina í hollum á föstudögum eftir hádegi og á laugardögum, bara eins og í Hollí,“ segir Svava og hlær dátt.

Þannig að um morguninn var staðið í biðröð fyrir utan Sautján og um kvöldið var staðið í tröppunum í Ármúlanum?

Já, já, það var svoleiðis. Þetta voru ótrúlegir tímar, en þannig byggðum við fyrirtækið upp. Við fengum mikinn meðbyr.“

Þú ert að lýsa því að nú sé miklu meiri samkeppni, innlend og erlend, en þegar þú komst inn í þennan bransa.

Já, já, í rauninni réðum við bara tískunni. Það var ekkert internet, ég held að það sé svolítið erfitt að segja þetta, þú þurftir að kaupa þér einhver blöð og svo spurði fólk: ferð þú oft til útlanda? Og einhver annar svaraði, já ég fer svona einu sinni á ári. Það var bara mjög algengt að maður færi bara einu sinni á ári. Svo þegar maður fer að starfa við þetta þá fer maður að fara einu sinni í mánuði þannig að maður var alltaf að sjá tískuna erlendis. Maður keypti bara það sem var flott erlendis sem myndi henta okkar veðurfari.“

Já, það er náttúrlega ekki allt sem hentar okkur, það er rétt.

Við gátum t.d. ekki tekið svona suður-evrópska tísku hingað heim. Þannig að við vorum ekkert bara að leggja línuna, við vissum alveg hvað fólk myndi vilja. Maður hlustaði fyrst og svo vissi maður hvað maður átti að koma með. Og svo gat maður skreytt það með ýmsu og það varð oft mjög vinsælt,“ segir Svava og bætir því við að bíómyndirnar hafi nú ekki verið að móta tískuna á þessum árum vegna þess að myndirnar voru kannski 2-3 ára gamlar þegar þær komu til Íslands.

Ég man eftir því að ég var í Versló og maður sá einhvern í flottu, eða var kannski sjálfur í einhverju flottu, og þá vildu allir fá svoleiðis, ef maður sá einhvern í einhverju. Það var eiginlega þannig. Það voru fyrirmyndirnar. Svo var alltaf eitthvað af fólki sem var að ferðast meira. Þess vegna voru flugfreyjur svona vinsælar, þær voru svo mikið á ferðalagi,“ segir Svava og bendir á að þetta hafi verið ólíkt veruleika alls almennings. Í dag séu hins vegar allir á ferðalagi.

Í dag eru allir á ferðalagi, hvort sem þú ert bara inni í herberginu þínu eða ert að ferðast í alvörunni. Það geta allir séð allt og skoðað. Sem betur fer vegna þess að það er miklu skemmtilegra. Fyrir 40 árum vorum við einangruð, við vorum einver skrítin eyja norður í ballarhafi, en í dag erum við á besta stað í heimi og við sitjum í stúku og horfum á allan heiminn,“ segir Svava Johansen.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hide picture