fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Eyjan

„Það er nánast móðgun við fólk að bjóða þetta“

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 16. nóvember 2023 12:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staða mála hjá íbúum Grindavíkur kom nokkuð til umræðu á Alþingi í gær. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, ræddi meðal annars um aðgerðir viðskiptabankanna sem hafa verið gagnrýndar talsvert.

„Alþingi og ríkisstjórn eru svona slökkvilið í þeim vandræðum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir núna. Það er mjög mikilvægt að við mætum á staðinn og bregðumst hratt og örugglega við,“ sagði Ásmundur og bætti við að heimili væru ónýt og þau sem standa heil séu ónotuð vegna þeirra aðstæðna sem þarna eru.

Sjá einnig: Sigríður býr í Grindavík og er ósátt við bankana: „Þetta boð til okkar er í besta falli samfélagslega siðfirrt“

„Í því ljósi finnst mér það tilboð sem bankarnir gerðu Grindvíkingum um að stöðva afborganir en halda áfram að rukka vexti og verðbætur á fasteignalánum nánast hjákátlega broslegt í þeirri stöðu sem núna er uppi. Bankarnir þurfa ekki undir þessum kringumstæðum að hagnast á Grindvíkingum. Vaxtaokrið í þessu landi er nóg og verðbæturnar sem ofan á það bætast. Og svo ef fólkið þarf að leigja sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar til viðbótar því sem fyrir er þá nær enginn endum saman undir þeim kringumstæðum. Fólkið getur ekki borgað tvöfalt af húsnæði,“ sagði hann.

Ásmundur sagði á Alþingi á mánudag að bregðast yrði við strax svo Grindvíkingar gætu losnað undan afborgunum af fasteignalánum, vöxtum og verðtryggingu og þeim yrðu tryggð laun. Fyrirtækjunum yrði tryggt að þau gætu haldið áfram að greiða laun til starfsmanna sinna og þeim yrði gert kleift að hefja rekstur eins fljótt og hægt er og við gæfum íbúunum svigrúm til að koma sér fyrir.

Sjá einnig: Ásthildur Lóa brjáluð fyrir hönd Grindvíkinga: „Við sem samfélag eigum meira einni hjá bönkunum en þetta“

„Við verðum að gera það á þann hátt að þeim líði eins bærilega með það og hægt er. Í því ljósi er það tilboð sem nú liggur fyrir frá bönkunum og lánastofnunum algerlega óviðunandi. Það er nánast móðgun við fólk að bjóða þetta.“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, tók í svipaðan streng. Hann spurði hvort það væri til of mikil mælst að stjórnvöld gætu eytt óvissu fólks hratt og örugglega í svona hamförum þegar fjárhagurinn er undir.

„Ég held að svarið við því sé já. Ég hefði haldið að íbúar byggða sem er á slíkum hættusvæðum ættu samstundis að geta fengið svör frá ríkisvaldinu um að þegar fólk getur ekki lengur unnið, hvað þá búið í sveitarfélaginu sínu vegna almannavarnaástands, þá eigi að vera hægt að gefa þau loforð að fjárhagslegt öryggi þess þurfi ekki að vera í uppnámi. Mér finnst skorta á það í dag og af því að við viljum öll standa með Grindvíkingum þá verðum við að geta svarað þessari spurningu jafn vel, jafn hratt og örugglega og við göngum í verkin þegar við erum að rýma hús.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt