fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ekki sjálfsvörn eða gagnárás á Hamas, heldur gjöreyðingarstríð á hendur Palestínumönnum

Eyjan
Mánudaginn 13. nóvember 2023 08:21

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur verið hryllingur, að fylgjast með fréttum frá botni Miðjarðarhafs, Ísrael og Gaza, síðustu 5 vikur, og, í raun, hafa myndirnar, sem þaðan berast, bara orðið verri og verri, þó maður hafi ímyndað sér, að það gæti vart orðið.

Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin, leiðtogar hins svokallaða siðmenntaða heims, skuli ekki vera búnir að grípa inn í þá grimmilegu og ómennsku atburðarás, misþyrmingar, limlestingar og morð, blóðbað, sem þarna á sér stað, ekki bara á innilokuðum börnum, konum og gamalmennum, almennum borgurum, sem ekki eiga sér undankomu auðið og ekkert hafa sér til sakar unnið, heldur líka á hvítvoðungum og særðu og fárveiku fólki, sem liggur bjargarlaust á spítölum, en þeim er ekki heldur þyrmt.

Þann 1. nóvember réðust Ísraelsmenn með hrikalegu stórskota- og sprengjuregni, á yfirfullar Jabalia-flóttamannabúðirnar, að eigin sögn til að drepa einn tiltekinn foringja Hamas. Skv. Hamas voru 200 saklausir og varnarlausir flóttamenn drepnir og 800 særðir í leiðinni, og, að sögn Hamas, var Hamas-foringinn á allt öðrum stað.

Í hvaða fjandans heimi lifum við eiginlega!? Geta leiðtogar heimsins brosað framan í sjálfa sig, í speglinum á morgnana, eins og heimurinn sé í góðu lagi og sofið á nóttunni? Við, hér norður við Dumbshaf, án valds og áhrifa, getum það vart.

Árás Hamas á Ísrael 7. október var ómennsk að grimmd, barbarísk og forkastanleg, en hún kom ekki úr tómarúmi, eins og ég hef bent á í fyrri skrifum og António Guterres, aðalritari SÞ, lagði áherzlu á í ræðu sinni fyrir Öryggisráðinu 24. október.

„Palestínska þjóðin hefur sætt þrúgandi hernámi í 56 ár. Hún hefur þurft að horfa upp á ofbeldisfulla töku húsa sinna, lands og byggða, efnahag sinn kæfðan og fólk sitt flutt nauðungarflutningum, flæmt á flótta og heimili þeirra rifin. Vonir þeirra um pólitíska lausn á vandanum hafa verið að hverfa“, svo rifjuð séu upp orð Guterres fyrir Öryggisráðinu, en auðvitað réttlætir þessi hörmulega forsaga, heldur ekki langvarandi þjáningar, vonleysi og örvilnun, ekki villimennskuna og ódæðin, sem Hamas frömdu í Ísrael.

Leiðtogar hins svokallaða siðmenntaða heims tönnlast á því, að Ísrael hafi rétt til að verja sig. Auðvitað hafa þeir það, eins og allar þjóðir, en eru þeir að beita þeim rétti nú eins og af er látið og margar þjóðir, einkum Bandaríkin, gera svo mikið með?

Ef Ísraelsmenn væru eingöngu að beita sér og notfæra sér sinn rétt til sjálfsvarnar, þá myndi sú viðleitni, sú gagnárás, beinast að Hamas-liðum.

Þeir eru fjandmennirnir, þeir frömdu ódæðin í Ísrael 7. október, þeim hefur Benjamín Netanjahú – þrjóturinn sá, segi ég, sem er forsætisráðherra landsins, þó að hann sæti minnst þremur ákærum fyrir spillingu og svik – hótað að uppræta, eyða af yfirborði jarðar.

En beinist gagnárás Ísraelsmanna að Hamas-liðum!?

Norska ríkissjónvarpið gerði nýlega vandaða úttekt á Hamas og stöðu þeirra. Niðurstaðan var sú, að ætla megi, að þeir væru nú um 20.000 talsins, og, að þeir byggju yfir neðanjarðargöngum og -birgjum, undir Gaza svæðinu, með ótal mörgum inngöngum, sem næmi að lengd neðanjarðalestarkerfi Lundúna. Yfir 400 km, sem er, eins og menn vita, meira en vegalengdin Reykjavík-Akureyri.

Í þessu gangakerfi, „Gaza Metro“, hafa Hamas-liðar komið sér tryggilega fyrir, með sína um 240 gísla, sem auðvitað aðeins hafa gildi fyrir þá lifandi, allt að 40 metrum undir yfirborði jarðar, að miklu leyti öruggir fyrir stórfelldu og linnulausu stórskota- og sprengjudrífi Ísraelshers.

Auðvitað vita Ísraelsmenn þetta. Þeir væru ekki að leggja hýbýli, byggð og mannvirki í Gazaborg í rúst, ef þeir teldu, að gíslarnir væru þar. Þeirra fyrsta skylda, gagnvart ísraelsku þjóðinni og fjölskyldum gíslanna, er, auðvitað, að frelsa gíslana, tryggja heimkomu þeirra heilla og haldinna. 

Hinar stórfelldu og linnulausu stórskotaliðs-, sjóhers- og flugvélaárása á Gaza-borg þjóna því ekki beinum hernaðarlegum tilgangi, að því er séð verður, heldur ekki lausn eða frelsun gísla, heldur þeim tilganga, aðallega eða einum, að gjöreyða Gaza-borg, húsnæði, byggingum, innviðum – símakerfi, rafmagnskerfi, vatnsveitum, vega- og samgöngukerfi – lífsviðurværi og framtíðar afkomumöguleikum palestínska fólksins þar, í ofsafenginni og hatursfullri hefndarherför.

Hvernig geta Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Bretar og fjöldamargar aðrar þjóðir horft upp á þetta og túlkað það sem sjálfsvörn!? Völd og áhrif Gyðinga eru ótrúleg, og undirlægjuháttur margra við þá illskiljanlegur. Reyndar má skilja Þjóðverja nokkuð, en þeir telja sig vera í ævarandi skuld við þá vegna Helfararinnar.

Gyðingar eru taldir gáfufólk, þeir eru klárir og færir með margt, bera af í sumu, en þeim virðist fyrirmunað að sjá, að þeir eru nú, með grimmd sinni, algjöru miskunnarleysi og botnlausu hatri, að kynda upp óvild og hatur gagnvart sjálfum sér í slíkum mæli, að ekki aðeins íbúar Ísrael, heldur Gyðingar um allan heim, munu líða fyrir um ókominn tíma og sennilega í ríkari mæli, en verið hefur frá því fyrir stríð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt