Vitavonlaust er að ætla sér að dreifa ferðamönnum með einhverjum hætti um landið til að ferðaþjónustan dafni víðar en bara á höfuðborgarsvæðinu. Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, segir að ekki megi byrja á öfugum enda. Fyrst verði að byggja upp eitthvert aðdráttarafl, einhverja þjónustu, sem dregur ferðamenn inn á svæðið, ekki dugi að byggja hótel – hótel og flugsamgöngur spretti úr þeim jarðvegi að landssvæði hafi upp á eitthvað að bjóða sem ferðamenn sækist eftir.
Jón Karl er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar menn eru að tala um að dreifa ferðamönnum. Halda menn að þetta sé áburður? Við eigum að dreifa ferðamönnum, við eigum að senda þá eitthvað annað,“ segir Jón Karl. „Hvernig heldurðu að þér liði ef þú ætlaðir til London og það yrði hringt til þín frá ferðamálasamtökum London og sagt: Heyrðu, Óli minn, það er því miður þannig að þú verður að fara til Bristol því það hentar okkur betur en að þú farir til London.
Þetta virkar ekkert svona. Þegar það er eitthvað í Bristol sem þú hefur áhuga á þá ferð þú til Bristol. Þannig virkar ferðaþjónustan. Þú verður að byrja á því að búa til aðdráttaraflið og þú verður að byrja á að búa það til þannig að það veki athygli og þá kemur fólkið. Núna er EasyJet að byrja að fljúga til Akureyrar. Ástæðan fyrir því er margra ára og áratuga uppbygging á svæðinu þar. Nú er þetta orðið svæði sem er áhugavert að fara til sem áfangastaðar. Þannig gerist þetta.“
Aðspurður um hvort rétt sé að stefna á markvissari miðlæga stefnumótun eða gefa einkaaðilum frekar lausan tauminn þegar kemur að þróun ferðamennsku og ferðamannastaða segist Jón Karl telja nauðsynlegt að miðlæg stefnumörkun sé til staðar. Ein ástæðan fyrir því sé að ríkið eigi mjög mikið af því landi sem á í hlut.
„Hins vegar held ég að það yrðu mjög gæfuríkt ef hægt væri að láta einkaaðila koma inn og sjá um rekstur; gera þá langtímasamninga með skilyrðum en láta þá aðila sem hafa þannig hagsmuni að leiðarljósi taka að sér þann rekstur. Ég held að það sé módel sem menn ættu að horfa meira til. Það virðist hins vegar oft vera þannig að, sjáum t.d. Vatnajökulsþjóðgarð, sem er opinber stofnun og rekinn sem slík. Ég held að það yrði betra fyrir framtíðarsýnina að fá fleiri aðila inn sem hefðu af þessu raunverulega atvinnu og væru að sjá fyrir sér lengri tíma fjárfestingu og fleira. Þannig að, já, ég held að það væri nú betra að gera þetta í samstarfi við einkaaðila,“ segir Jón Karl.