fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Nýr formaður, ný stefna, nýr flokkur, er þar allt á hreinu?

Eyjan
Fimmtudaginn 26. október 2023 06:00

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir, Nýja-Samfylkingin (N-S), sem ég verð svo að kalla, fer mikinn þessa dagana, m.a. á hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni/DV, í því að útlista, hvernig hún og flokkurinn ætla að bæta íslenzkt samfélag, auka velferð landsmanna.

Reyndar nýtur hún yfirburðafylgis, í bili, sem myndi gera henni kleift, að ná völdum og hrinda nýjum megin áherzlum hennar/flokksins í framkvæmd, héldist fylgi. Það er þó væntanlega mikið komið frá óánægðum VG- og B-kjósendum, og kann að vera ótryggt. Sumir kunna að taka sinn flokk í sátt, þrátt fyrir vanefndir og getuleysi, fyrir næstu kosningar.

Hætt er líka við, að einfölduð baráttumál og vafasamar kenningar og fullyrðingar formannsins nýja, N-S, verði tætt niður í kosningabaráttunni, sem fram undan er, enda stenzt þar ýmislegt ekki skoðun.

Hlutverk stjórnmálaleiðtoga

Kristrún gerir mikið úr því að hún hafi farið um landið vítt og breitt, hafi haldið 40 fundi, og rætt þar við fólkið – auðvitað mest hennar eigið flokksfólk – um það hvað það vilji. Hún hafi síðan myndað meginstefnu flokksins, fyrir næstu kosningar, á grundvelli vilja fólksins.

Fyrir undirrituðum er þetta óvenjuleg og illskiljanleg aðferðafræði stjórnmálaleiðtoga, sem svo vill vera.

Myndi stjórnandi fótboltaliðs snúa sér að leikmönnum og óska eftir tillögum þeirra eða óskum um það hver stefna og leikaðferðir liðsins ættu að vera? Myndi skipstjóri haga sinni skipstjórn í samræmi við óskir og vilja áhafnar? Myndi stjórnandi sinfóníuhljómsveitar leita ráða og leiðsagnar um stjórn tónverks hjá liðsmönnum sveitarinnar?

Auðvitað verður leiðtogi að hlusta á hópinn, vera opinn fyrir gagnrýni og ráðgjöf, skilja sameiginlegan vilja, en, umfram allt verður hann að vera leiðtogi, sem hefur þekkingu, reynslu og burði til að móta heildstæða eigin stefnu, taka af skarið, gefa tóninn og leiða, og, ef í harðbakkann slær, leiða hópinn eins og forustusauður leiðir fjárhópinn yfir straumharða á eða erfiðan fjallveg.

Eru umbætur í grunnvelferðarmálum sérstök pólitík?

Vilji stuðningsmanna Kristrúnar virðist einkum hafa gengið út á bætt heilbrigðiskerfi, bættar og öruggari samgöngur og sókn í húsnæðismálum, sem hún gerir svo að helztu stefnu- eða áherzlumálum N-S. Hvað þetta allt kosti, og hvaðan féð á að koma, virðist hafa legið milli hluta.

Þetta er auðvitað engin sérstök pólitísk stefna. Allir flokkar landsins styðja þessi markmið. Þetta er spurningin um almenna aukna velferð landsmanna, sem allir flokkar vilja vinna að, þó að með nokkuð ólíkum hætti sé.

Fyrir mér er þessi svokallaða stefnumótum Kristrúnar því ekkert markvert, ekkert nýtt eða frumlegt, í raun engin stefnumótun, og alvarlegur akkur á málinu að ekkert liggur fyrir um það hvaðan velferðarféð á að koma.

Það er líka með ólíkindum, að menntun sé hér ekki með, því hún – bezt og víðtækust möguleg menntun – er það þýðingarmesta sem hægt er að fjárfesta í, bezta tryggingin fyrir velferð barnanna og barnabarna, sem völ er á. 

Stóri gallinn er þó sá að í þessari nálgun allri er byrjað á öfugum enda.

Stærð kökunnar stóra málið

Til að skapa velferð, þarf fyrst að skapa þannig ramma um efnahagsmálin, að atvinnulífið megi vaxa og dafna. Aukin verðamætasköpun, eða útgjaldalækkun, sem ekki bitnar á velferð, er forsenda aukinnar velsældar.

Eftir því sem þetta er betur gert verður kakan, sem til skiptanna verður, stærri. Meira í hvers hlut, hærra framlag til hvers þáttar velferðarsamfélagsins. Þetta er fyrsta málið.

Stærstu mál líðandi stundar

Fyrir undirrituðum eru þau þessi:

– Evrópumálin, fyrst framhald samninga við ESB um mögulega aðild. Fyrir öllum öðrum jafnaðarmannaflokkum er Evrópusamstarfið heilagt. Hér talar Kristrún um að það vilji hún ekki, því það muni kljúfa þjóðina.

Auðvitað stenzt þetta ekki. Á þessu stigi erum við bara að tala um það eitt, að ljúka samningaviðræðum við ESB og sjá, hvað út úr þeim kemur. Auðvitað án fyrir fram skuldbindinga. Hvernig gætu slíkar þreifingar og samningaumleitanir klofið þjóðina?

– Upptaka Evru, sem þá fyrst kæmi þó til greina, ef/þegar góðir samningar hafa náðst við ESB og meirihluti væri fyrir aðild. Evran myndi færa stöðugleika inn í íslenzkt efnahagslíf, stórlækka vexti og tilkostnað, ekki bara fyrir ríkið heldur líka fyrir fyrirtæki og allan almenning, og, það, sem afar mikilvægt væri, afgerandi, laða að erlenda fjárfestingu og fyrirtæki; stórskerpa á samkeppni banka, verzlunar- og þjónustufyrirtækja, sem myndi færa niður verðlag og auka kaupmátt, án launahækkana. Hvernig væri t.a.m., ef Aldi og Lidl kæmu hérna inn með sín matvörutilboð og lágmarksverð á nauðsynjavöru? Auðvitað væri þetta þó langtíma mál, en brýnt er að byrjað sé á því sem fyrst.

– Auðlindamálin, aukin hlutdeild þjóðarinnar í þeim mikla arði, sem þar verður til, t.a.m. með 30% auðlindagjald á hagnað, að greiddum sköttum, eins og Norðmenn beita á laxeldisfyrirtæki fyrir afnot af hafi og strönd. Slíkt auðlindagjald ætti auðvitað líka, og einkum, að ná til fiskeldis í sjó. Þetta mál gæti styrkt aukna velferð almennings strax.

– Ný stjórnarskrá, aukið jafnrétti, þó að það sé ekki efnahagsmál, er það líka mikilvægt, alla vega brennur það á stórum hluta þjóðarinnar.

Með allt þetta gerir Kristrún lítið eða ekkert.

Skammtímamál málanna, og um leið eilífðarmál í krónu-hagkerfinu, er auðvitað að ríkisstjórnin, í samvinnu við verkalýðsfélög, samtök atvinnulífsins og Seðlabanka, knýi niður verðbólgu og vexti. Í huga undirritaðs, hefur Seðlabanki gengið allt of langt í hækkun stýrivaxta, og það í þeim mæli að yfirkeyrðir vextir hafa örvað verðbólgu í stað þess að dempa hana. Í Danmörku var verðbólgan fyrir ári 10% en er nú 0,9% við mest 3,35% stýrivexti á þessu tímabili. Hér var verðbólgan líka 10% fyrir ári – nú er hún 8% við 9,25% stýrivexti. Annað eins fokk.

Þessi þáttur kemst svo í miklu betra og tryggara form, ef/þegar til upptöku Evru kemur.

Hvað segja Svisslendingar?

Í Lausanne/Sviss er háskóli, sem heitir International Institute for Management Development, IMD, og er hann flokkaður með allra beztu háskólum heims. Þessi háskóli hefur um langt árabil framkvæmt úttekt á samkeppnishæfni 63 þjóða, og hefur Ísland verið með síðustu áratugi.

Nýlega greindi IMD frá niðurstöðum sínum fyrir 2022. Skilgreinir háskólinn samkeppnishæfi með tilliti til fjögurra þátta:

  1. Efnahagsleg frammistaða
  2. Skilvirkni hins opinbera
  3. Skilvirkni atvinnulífsins
  4. Staða samfélagslegra innviða.

Í heildina tekið er Danmörk nr. 1, Sviss nr. 2, Singapúr nr. 3, Svíþjóð nr. 4 og svo koma Finnland og Noregur í 8. og 9. sæti. Ísland er í 16. sæti.

Það, sem dregur Ísland stórlega  niður, er efnahagsleg frammistaða. 1. og þýðingarmesti þátturinn, því efnahagslegar framfarir eru forsenda aukinnar velferðar. Þar er Ísland aftast á merinni, í 56. sæti. 

Ræður þar miklu um, að erlend fjárfesting og alþjóðaviðskipti eru hér í lágmarki. Hlutfall erlendra fjárfesta í kauphöllinni er t.a.m. bara 5% á sama tíma og hlutfall erlendra fjárfesta í viðskiptum hinna Nasdaq kauphallanna er 72%.

Hvað hamlar erlendri fjárfestingu?

Hvað veldur svo þessari tregðu erlendra fjárfesta til að koma hingað með sitt fjármagn og það efnahagslega afl, sem það gæfi okkur!? Svarið er einfalt: Fyrst og fremst íslenzka krónan. Það er hrein undantekning ef menn vilja koma með sína fjármuni inn í íslenzku-krónu-hagkerfið.

Það er synd, að vel menntaður hagfræðingur og banka- og efnahagssérfræðingur, sem vill verða leiðandi stjórnmálamaður hér, skuli ekki sjá eða skilja að ESB og Evran gætu tryggt okkur meiri aukningu velferðar, þó að það muni taka nokkurn tíma, en aðrar leiðir eða skref.

Staðlausir stafir formannsins vekja ugg um hæfi

Í nefndu hlaðvarpi Eyjunnar/DV fullyrðir Kristrún m.a. þetta:

– „Skattalækkanir 2018-2019 eru orsök ríkishallans“. Hvernig dettur formanninum í hug, að setja fram þessa fullyrðingu? Er henni ekki ljóst, að á milli 2018/2019 og líðandi stundar eru 2-3 COVID-ár og innnrás Pútíns í Úkraínu. Skilur formaðurinn ekki, að þessi atburðarás í millitíðinni gjörbreytti forsendum ríkisfjármála?

– „Háir vextir hér á landi eru pólitísk ákvörðun sjálfstæðismanna.“ Er Kristrúnu ekki ljóst, að megin orsök verðbólgu hér var erlend verðbólga, sem stafaði af COVID og Úkraínustríðinu, innflutt verðbólga!? Hvernig var það „pólitísk ákvörðun sjálfstæðismanna“? Skortur á fasteignum, íbúðum, á fasteignamarkaði, var líka einn megin verðbólguvaldurinn. Var það „pólitísk ákvörðun sjálfstæðismanna“?

Það fór nánast um mig að lesa þessar fullyrðingar, staðlausa stafi, konu, sem kann að leiða næstu ríkisstjórn landsins. Eina vonin er að þetta sé fljótfærni og byrjendaglöp, sem verða löguð.

Ný ríkisstjórn

Þrátt fyrir allt er það ósk og von undirritaðs að Samfylkingin, ekki Nýja-Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og, kannske, Flokkur fólksins eða Sósíalistaflokkurinn myndi næstu ríkisstjórn, í síðasta lagi 2025, en þá á réttum forsendum, með réttri stefnu og réttum áherzlum, skv. ofangreindu, og er þessum pistli ætlað að vera lítið framlag til að tryggja, að svo megi verða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“