fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Akureyri fékk sams konar bréf og Kópavogur

Ritstjórn DV
Föstudaginn 20. október 2023 14:48

Ráðhús Akureyrarbæjar mynd/Akureyri.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með fundargerð síðasta fundar bæjarráðs Akureyrarbæjar, sem haldinn var í gær, fylgir bréf sem bænum barst frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Með bréfinu tilkynnir nefndin Akureyrarbæ að hún hafi yfirfarið ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Samkvæmt honum uppfylli sveitarfélagið ekki öll lágmarksviðmið
eftirlitsnefndar vegna rekstrar fyrir A-hluta. Viðmiðin byggi á lágmarkskröfu til að standast jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga.

Eins og Eyjan greindi frá í gær sendi nefndin Kópavogsbæ sams konar bréf.

Sjá einnig: Kópavogsbær uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið vegna rekstrar

Munurinn á milli bréfanna er helst sá Akureyrarbær uppfyllir ekki eitt af lágmarksviðmiðum nefndarinnar en Kópavogur uppfyllir ekki tvö þeirra.

Það skal áréttað að þegar vísað er til A-hluta í rekstri sveitarfélaga er átt við sveitar- eða bæjarsjóð sem fjármagnaður er helst með útsvari og öðrum gjöldum sem sveitarfélög leggja á íbúa sína.

Í bréfi nefndarinnar til Akureyrarbæjar kemur fram að A-hluti í rekstri bæjarins hafi á síðasta ári skilað neikvæðri rektsrarniðurstöðu en lágmarksviðmið nefndarinnar kveði á um að reksturinn komi út að minnsta kosti á sléttu.

Eins og í bréfinu til Kópavogs áréttar nefndin við Akureyrarbæ að þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 þar sem sveitarstjórn er heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 vilji nefndin benda á að árið 2026 þurfi að uppfylla þessi skilyrði.

Eftirlitsnefndin leggur áherslu á það við bæjarstjórn Akureyrarbæjar að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná framangreindum lágmarksviðmiðum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024. Mikilvægt sé að gerð verði útkomuspá fyrir árið 2023 sem grunnforsenda fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 og skilað til nefndarinnar þegar spáin liggur fyrir.

Akureyri andmælti ekki eins og Kópavogur

Í fundargerðinni er ekki birt neitt svar frá Akureyrarbæ við bréfi nefndarinnar.

Eins og fram kom í frétt Eyjunnar í gær birti Kópavogsbær með sínu bréfi eldra bréf sem Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, sendi Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra. Í því bréfi eru gerðar athugasemdir við útreikninga nefndarinnar á framlegð sveitarfélaga en samkvæmt bréfi nefndarinnar til Kópavogsbæjar uppfyllti bærinn ekki lágmarksviðmið um framlegð í rekstri A-hluta á síðasta ári.

Afstaða fulltrúa í bæjarráði Akureyrar til reksturs bæjarins kemur þó fram á öðrum stað í fundargerðinni. Fyrsta mál sem tekið var fyrir á fundinum var vinna við fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2024-2027. Undir þeim lið bókuðu fulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarráði og bæjarstjórn, Hilda Jana Gísladóttir úr Samfylkingunni, Gunnar Már Gunnarsson úr Framsóknarflokknum og áheyrnarfulltrúarnir Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir úr Vinstri-grænum og Jón Hjaltason, sem er óflokksbundinn eftirfarandi:

„Sveitarfélagið verður rekið með halla miðað við fjárhagsáætlun næsta árs. Minnihluti bæjarráðs leggur áherslu á að farið verði í markvissa greiningu á hvernig snúa megi þeirri stöðu við sé horft til næsta áratugar. Þar sé allt undir, s.s. hagræðing í húsnæðismálum. Sjálfbær rekstur er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ráðast í þau verkefni sem Akureyrarbær vill sinna vel og af myndarskap.“

Í bréfi Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til Akureyjarbæjar er áréttað að neikvæð rekstrarniðurstaða A-hluta uppfylli ekki lágmarksviðmið nefndarinnar og miðað við bókun minnihlutans á bærinn að öllu óbreyttu von á öðru bréfi á næsta ári.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarráði og bæjarstjórn, Heimir Örn Árnason úr Sjálfstæðisflokknum, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-listanum og Hlynur Jóhannsson úr Miðflokknum svöruðu bókun minnihlutans með eftirfarandi bókun:

„Meirihluti bæjarráðs bendir á starfsáætlanir sviða þar sem fram koma áherslur í rekstrinum. Markvisst hefur verið unnið að sjálfbærni í rekstri á síðustu árum og mikill árangur náðst. Það sem erfitt er að sjá fyrir eru ófjármagnaðar lagasetningar sem hafa áhrif á rekstur og ytra umhverfi svo sem vaxtastig og verðbólga. Fjárhagsáætlunarvinnunni er ekki lokið og markmiðið að ná A-hlutanum jákvæðum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“