„Það er til mikils að vinna að ná saman um að hér verði spilaður sanngjarn leikur,“ segir Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ágúst Bjarni skrifar um gjaldtöku og arðsemi íslenska bankakerfisins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Ágúst vísar meðal annars í nýja skýrslu starfshóps sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra skipaði, en markmið hópsins var meðal annars að velta því upp hvort íslensk heimili greiði hlutfallslega meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili annars staðar á Norðurlöndunum.
Ágúst segir að vaxtamunur viðskiptabankanna hafi verið að aukast og það verði að vera krafa okkar neytenda að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningnum á sanngjarnari hátt.
„Þá eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Það er óviðunandi staða. Nefnt er dæmi um að gjaldtaka íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sé dulin en hún vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Þá segir að gengisálag bankanna á kortafærslum skeri sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Um er að ræða 6,6 milljarða gengisálag á íslenska neytendur fyrir að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.“
Ágúst nefnir fleiri dæmi úr skýrslunni, meðal annars að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar sé mun hærri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta hafi meðal annars í för með sér hærra verð á vörum og þjónustu til íslenskra neytenda sem á endanum bera kostnaðinn.
Ágúst hvetur fólk til að skoða sín mál og vera vakandi.
„Í skýrslunni segir að það geti margborgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkomandi liggi helst við bankaþjónustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaumgæfilega í sínum viðskiptum því það má vera að tækifæri séu til að lækka tilkynningar- og greiðslugjöld. Þá segir að einnig sé hægt að athuga hvort ódýrara sé að nota kreditkort, debetkort eða kaupa gjaldeyri áður en farið er til útlanda.“
Starfshópurinn lagði fram nokkrar tillögur til úrbóta í skýrslu sinni, meðal annars að sett verði á fót samanburðarvefsjá með verði fjármálaþjónustu að norskri og sænskri fyrirmynd. Þá verði kannaðir möguleikar á að draga úr kostnaði í innlendri greiðslumiðlun í samræmi við ábendingar Seðlabankans. Einnig að aukin áhersla verði lögð á fjármálafræðslu fyrir almenning frá hlutlausum aðilum til að efla fjármálalæsi neytenda.
Ágúst bendir á að bönkunum hafi tekist að auka hagnað og bæta arðsemi með aukinni hagræðingu. Í uppgjörum bankanna sé þó ekki að finna jafn skýr merki um lækkun gjalda til viðskiptavina.
„Okkur Íslendingum er vitaskuld nauðsynlegt að eiga sterkt bankakerfi. En til að styðja og styrkja öflugt atvinnu- og efnahagslíf verða viðskiptabankar að njóta almenns trausts í samfélaginu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun betur. Innheimta ýmissa gjalda, þóknana og vaxtakostnaðar á ekki að vera neytendum torskilin á allan hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að samkeppni skorti á markaðnum og eins það að við neytendur séum ekki nægilega á verði. Það er hins vegar að breytast og það er gott. Það er til mikils að vinna að ná saman um að hér verði spilaður sanngjarn leikur.“