Nú standa íbúðirnar tómar og verðlausar og fasteignafyrirtækin eru skuldum vafin og mörg hver á heljarþröm.
Fasteignabólan var fram á mitt ár 2021 eins stærsta fasteignabóla sögunnar. Risastór fjölbýlishús spruttu upp eins og gorkúlur í borgum og bæjum landsins. Oft var búið að selja íbúðirnar í þeim löngu áður en byggingu þeirra lauk. Spákaupmennska var alls ráðandi og þrýsti verðinu upp í hæstu hæðir og gerði fasteignafyrirtækjunum kleift að nota ókláraðar íbúðir sem veð fyrir nýjum lánum.
Þannig keyrði hringekjan hring eftir hring og hraðinn jókst sífellt eða allt þar til mótorinn bræddi úr sér og hringekjan stöðvaðist skyndilega.
Nú standa vonsviknir íbúðakaupendur og fasteignafyrirtæki eins og Evergrande með himinháar skuldir en í heildina nema þær 340 milljörðum dollara.
Margir spyrja sig nú hvernig fasteignamarkaðurinn hafi náð að verða svona áður en hann hrundi? Hversu margar tómar íbúðir séu nú í Kína?
„Hversu mörg hús standa auð í dag?“ spurði He Keng, fyrrum varaforstjóri kínversku hagstofunnar á ráðstefnu um efnahagsmál í Dongguan í september. „Sérfræðingar koma með mjög mismunandi tölur og þær öfgafyllstu eru að það séu auðar íbúðir fyrir 3 milljarða manna. Það eru líklega ýktar tölur en hins vegar tel ég ekki að 1,4 milljarður dugi til að fylla þær allar,“ sagði hann.
Tölur hans ná yfir hús og íbúðir sem eru tilbúnar en óseldar. Þær ná einnig yfir þær sem er búið að selja en ekki ljúka við. Einnig ná þær yfir hús sem spákaupmenn keyptu í stórum stíl og standa því auð.
Í orðum He felst að hann segir að það séu fleiri auðar íbúðir og hús í Kína en íbúar landsins. Þar á meðal allir þeir sem eiga nú þegar húsnæði.
Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir fasteignabóluna og spurning hvernig verður hægt að vinda ofan af henni og skuldunum.