fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Eyjan

Krefst þess að forsætisráðherra fordæmi misnotkun VG-liða á hatursorðræðu – „Vinstri grænir vilja fyrst og fremst auka eigin völd“

Eyjan
Föstudaginn 29. september 2023 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttamaðurinn Snorri Másson ákvað að segja skilið við blaðamennskuna í maí á þessu ári er hann hætti störfum hjá Sýn. Þrátt fyrir að hafa fjölda hugmynda í kollinum um næstu skref fór það þó svo að blaðamennskan kallaði hann aftur til sín. Að þessu sinni ákvað Snorri þó að takast á við starfið með nýjum hætti. Hann er því nú ritstjóri á eigin miðli sem heitir einmitt ritstjori.is. Þar ræðst hann ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur skýtur föstum skotum í þætti sínum Fréttir vikunnar á forystu Vinstri Grænna.

„Á meðan formaður VG og forsætisráðherra hefur ekki fordæmt þessa misnotkun flokksmanna á hugtakinu hatursorðræða, þá er alveg ljóst að við eigum ekki að treysta Vinstri grænum fyrir því að herða lagaleg takmörk fyrir því hvað við megum segja í þessu landi. Ekki láta blekkjast og ekki láta Vinstri græna telja þér trú um að þeir vilji bara bæta stöðu „jaðarsettra“ hópa. Vinstri grænir vilja fyrst og fremst auka eigin völd,“ segir Snorri í þættinum.

Google Translate-a og byggja mat sitt á því

Snorri vísar til þess að þrátt fyrir óveðurský sem hangi yfir vinnumarkaði landsins nú þegar styttist í kjarasamninga í blússandi verðbólgu hafi ráðherra málaflokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, samt nóg af tíma til að stíga fram að fjalla um áfangaskýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, sem kom út fyrir skömmu. Guðmundur hafi af því tilefni sagt mikilvægt að rými sé í samfélaginu svo fólk geti greint frá hatursorðræðu og fordómum. Mikilvægt sé að skrá öll tilfelli og bregðast við þeim.

Ekki þykir Snorra mikið til áfangaskýrslunnar koma.

„Þessi „Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi” fer yfir það í 36 blaðsíðna skýrslu hvernig Ísland stendur sig í þessum umburðarleysismálum – smá Orwellískt orð, umburðarleysi – og hvað Ísland þarf að gera til að tortíma umburðarleysinu. Þarna fer semsagt hópur evrópskra, já, möppudýra, eða sérfræðinga, les nokkrar íslenskar fréttir með Google Translate og skrifar svo hvað þeim finnst.“

Nú hafi Stjórnarráð Íslands móttekið þessi fyrirmæli og hafi þau verið hvött til að auka meðvitund almennings um þann lagaramma sem um mismunun gildir og þau úrræði sem þolendum fordóma og hatursorðræðu standi til boða. Stjórnarráðið lofi að hafa fyrirmælin til hliðsjónar við frekari stefnumótun.

Nota skilgreiningu á hatursorðræði til að verja sig frá gagnrýni

Snorri segir að ágætt sé þau að skoða þessar tillögur til íslenskra stjórnvalda nánar. Þar sé í raun verið að skipa íslenskum stjórnvöldum að glæpavæða tjáningu meira en nú þegar er gert.

„Það skal vera klárlega glæpsamlegt að „hvetja til ofbeldis, til haturs eða til mismununar.“. Nú er ég eins og allir góðir menn einlægt á móti ógeðslegri og hatursfullri tjáningu og ekki síst í garð einstaklinga sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Hins vegar hef ég efasemdir um að fela stjórnvöldum aukið svigrúm til að sækja menn til saka fyrir tjáningu og þegar „hvatning til mismununar“ er orðin ólögleg, þá er ég hræddur um að ekki líði á löngu þar til slíkur lagabókstafur verður misnotaður.

Ef ykkur finnst það bera keim af ofsóknaræði, að óttast misnotkun Vinstri grænna á glæpavæddri tjáningu, þá skil ég ykkur, ég væri líka til í að vera rólegur yfir þessu en ég get það ekki. Við skulum fara betur yfir sögu Vinstri grænna og baráttu þeirra gegn hatursorðræðu.“

Snorri rekur þegar Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks Vinstri Grænna, sagði í viðtali á síðasta ári að presturinn Davíð Þór Jónsson hafi verið að ala á hatursorðræðu þegar hann kallaði Vinstri græna fasista. Þau orð hafði Davíð látið falla í tengslum við umræðu um stöðu flóttamanna á Íslandi. Snorri segir að þessi fullyrðing Orra Páls hafi verið sláandi.

„Maður gapti. Er gaurinn að segja að gagnrýni á ríkisstjórnarflokk sé hatursorðræða? Hann getur ekki verið að meina þetta. Hann hlýtur að árétta að hann hafi átt við eitthvað annað. En nei. Orri Páll hefur aldrei gert neitt slíkt. Sú árétting kom aldrei. Þetta stendur. Davíð Þór stundaði að hans mati hatursorðræðu með gagnrýni sinni.“

Forsætisráðherra þurfi að fordæma þessa misnotkun

Til að bæta gráu ofan á svart hafi flokkurinn staðið með Orra í þessari afstöðu. Framkvæmdastjóri þingflokksins, Anna Lísa Björnsdóttir, hafi tjáð sig um málið á Twitter og rakið þar skilgreiningu áhatursorðræðu. Snorri bendir á að Anna Lísa hafi kannski ekki verið í réttu stöðunni til að taka þennan slag.

„Anna Lísa er sem sagt já framkvæmdastjórinn sem rataði síðast í fréttir fyrir að hafa keypt sjálf í Íslandsbankaútboðinu og svo eiginmaður hennar sem keypti í lokuðu útboði bankans, og alls konar eitthvað slíkt, en þessi þáttur er málefnalegur þannig að ég ætla ekki að fara að nota þetta tækifæri til að benda á órjúfanleg tengsl stjórnmálalegrar valdaelítu og viðskiptalífs á Íslandi, nei, ritstjórinn styður frjálst framtak – hann er pro-business – þannig að hann ætlar ekki niður á það plan.“

Anna Lísa sagði að afmennskun í orðræðu væri hatursorðræða. Slík orðræða gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum hafi raunverulegar afleiðingar. Mikilvægt sé að taka umræðuna en best sé að gera slíkt án þess að afmennska.

Snorri segir að þarna sé í raun verið að endurskilgreina hugtak til að mæta gagnrýni mótherja.

„Þessi þráður framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna er skólabókardæmi um að ekki aðeins í einræðisríkjum geti stjórnmálamenn endurskilgreint hugtök til að ofsækja andstæðinga sína, heldur er það raunveruleg hætta hér. Hatursorðræða er meðal annars orðræða sem stjórnvöld hata. Og vel að merkja, getum við ekki metið mörk leyfilegrar tjáningar sjálf á Íslandi? Þurfum við „úttektarskýrslu Evrópuráðs um umburðarleysi“ (íslenskar fréttir í Google Translate) til þess að gefa okkur fyrirmæli í þessum málaflokki? Nei, skilaboð ritstjórans eru einföld: Á meðan formaður VG og forsætisráðherra hefur ekki fordæmt þessa misnotkun flokksmanna á hugtakinu hatursorðræða, þá er alveg ljóst að við eigum ekki að treysta Vinstri grænum fyrir því að herða lagaleg takmörk fyrir því hvað við megum segja í þessu landi. Ekki láta blekkjast og ekki láta Vinstri græna telja þér trú um að þeir vilji bara bæta stöðu „jaðarsettra“ hópa. Vinstri grænir vilja fyrst og fremst auka eigin völd.“

Sjá má brot úr þættinum hér fyrir neðan en þáttinn má finna í opinni dagskrá á ritstjori.is.

VG
play-sharp-fill

VG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur brýnir sinn gamla flokk – Vill að meira verði gert fyrir Breiðholtið

Vilhjálmur brýnir sinn gamla flokk – Vill að meira verði gert fyrir Breiðholtið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Össur segir elda loga í Sjálfstæðisflokknum – „Hvenær sýður upp úr?“

Össur segir elda loga í Sjálfstæðisflokknum – „Hvenær sýður upp úr?“
Hide picture