Fyrirsögnin vakti athygli þína er það ekki? Sannleikurinn er sá að sjálfsvíg vekur athygli allra. Það er því miður oft tíminn áður en einstaklingur tekur líf sitt sem fer framhjá okkur.
Hver er ég að skrifa um sjálfsvíg og finnst mér það viðeigandi? Viðeigandi er kannski ekki rétta orðið en mikilvægt er það hins vegar.
Andleg veikindi, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvíg eru viðkvæm málefni. Skilningsleysi og fordómar virðast enn vera til staðar í samfélaginu og því er erfitt að rjúfa þögnina.
Sjálf hef ég verið að kljást við andleg veikindi síðan ég var unglingur. Ég er 35 ára í dag og hef ekki tölu á því hversu margar þunglyndislotur ég hef þurft að ganga í gegnum á þessum tíma.
Það var allt of lengi einblínt á að einungis væri um mjög alvarlegt þunglyndi að ræða. Mig grunaði þó að eitthvað meira væri að. Þunglyndisloturnar komu yfirleitt án nokkurrar ástæðu og voru bæði tíðar og langar. Auk þess höfðu hefðbundin þunglyndis- og kvíðalyf ekki skilað tilsettum árangri, þó margt hafi verið reynt.
Sama hversu sterkur maður er, þá eru þolmörkin ekki endalaus. Ég fór því að lesa mig til og sá fljótlega að einkenni mín gætu vel fallið undir greiningarviðmið fyrir geðhvörf II. Þess má geta að um 40-60% einstaklinga með alvarlegt þunglyndi uppfylla skilyrði fyrir slíka greiningu en það uppgötvast oft seint og jafnvel aldrei.
Eftir langt greiningarferli fékk ég svo loks rétta greiningu. Ég var sett á jafnvægislyf eða mood stabilizers eins og þau heita á ensku en þau eru meðal annars notuð til meðferðar á geðhvörfum. Ég hafði fyrir þetta aldrei heyrt um jafnvægislyf áður, þrátt fyrir alla þessa baráttu. Hvernig mátti það vera?
Ég byrjaði sem sagt á lyfjunum í síðustu þunglyndislotunni minni. Lotan var mjög djúp og hafði staðið yfir í um tvo mánuði. Það er skemmst frá því að segja að ég komst upp úr henni með hjálp lyfjanna á tveimur vikum. TVEIMUR vikum.
Nú eru liðnir nokkrir mánuðir frá því að ég hóf meðferð og mér hefur sjaldan liðið betur. Lyfin hafa ekki bara gert líf mitt betra, á svo marga vegu, heldur einnig bjargað lífi mínu. Til að vera alveg hreinskilin sá ég ekki fyrir mér að þolmörk mín næðu langt yfir fertugt, ef ástandið héldist áfram óbreytt.
Samkvæmt því sem ég kemst næst þá má áætla að mikill meirihluti þeirra sem falla fyrir eigin hendi glími við einhverskonar raskanir, þá helst geðraskanir. Í mörgum tilvikum er um ófullnægjandi greiningu/ar að ræða og jafnvel ómeðhöndlað ástand.
Ég spyr mig því, hversu margir ætli hafi tekið sitt eigið líf vegna rangra greininga, rangrar lyfjameðferðar og/eða ómeðhöndlaðra veikinda?
Flestir finna fyrir kvíða, pirringi og vanlíðan einhvern tímann á ævinni. Ef þú hefur hins vegar fundið fyrir slíku í nokkurn tíma og ert með mörg einkenni á sama tíma gæti það þýtt að þú sért andlega veikur.
Hér eru nokkrir punktar, bæði upp úr greinum og rannsóknum, sem ég tók saman og umorðaði. Það er óhætt að segja að þetta séu sláandi tölur.
Andleg veikindi geta verið af ýmsum toga en flest eiga þau það sameiginlegt að þurfa kortlagningu. Kortlagning er meðal annars gerð með hjálp sálfræðinga, heilbrigðisstarfsmanna og/eða sérfræðinga. Með kortlagningu er betur hægt að átta sig á því hvar einstaklingur er staddur í sínum veikindum og hvaða úrræði henta honum í samræmi við það.
Tökum kortlagningu þunglyndis sem dæmi:
Helstu meðferðir gegn þunglyndi eru samtalsmeðferð og/eða lyfjameðferð. Margar rannsóknir benda til þess að samtalsmeðferð sé jafngóð og lyfjameðferð gegn vægu þunglyndi. Við alvarlegu þunglyndi sé lyfjameðferð aftur á móti öflugasta úrræðið og oftast algjörlega nauðsynleg.
Þrátt fyrir að þunglyndi sé ekki eini orsakavaldur sjálfsvíga er talið að um 1 af hverjum 10 einstaklingum með þunglyndi falli fyrir eigin hendi. Þunglyndi er ein algengasta ástæða lífsgæðaskerðingar í heiminum og leggst á a.m.k. 12% karla og 25% kvenna á hverjum tíma.
Líðan sést yfirleitt ekki utan á fólki, ekki frekar en við vitum hvað það er að hugsa. Einhver hluti þeirra sem eru andlega veikir eru líka góðir í því að maska (setja upp grímu) og ná þannig að fela líðan sína. Útlit og virkni er því ekki endilega góður mælikvarði á það hvernig einstaklingum líður.
Þú getur verið vel virkur, stundað bæði skóla og/eða vinnu en samt verið með sjálfsvígshugsanir. Þú getur virst glaður og ánægður en samt verið með sjálfsvígshugsanir. Þú getur stundað líkamsrækt og lifað heilsusamlegu lífi en samt verið með sjálfsvígshugsanir. Þú getur átt fjölskyldu og góða að en samt verið með sjálfsvígshugsanir. Þú getur verið vel efnaður og í raun átt allt sem þig dreymir um en samt verið með sjálfsvígshugsanir.
Mig langar líka að deila með ykkur einni tilvitnun á ensku sem mér þykir erfitt að þýða yfir á ásættanlega íslensku: “She was drowning, but nobody saw her struggle.”
Til þeirra sem eru að berjast við andleg veikindi langar mig að segja: Ekki gefast upp, ljósið kemur alltaf aftur.
Það er í lagi að leyfa sér að fljóta bara í gegnum daginn þegar vanlíðanin er meiri en viljastyrkurinn. Þú ert sterkari en þínir erfiðustu dagar og hefur komist í gegnum þá alla. Haltu því áfram og vertu stolt/ur af því hversu mikið þú reynir.
Það er von eftir örvæntingu og birta eftir myrkur. Því má heldur ekki gleyma að eins erfiðir og erfiðu dagarnir eru geta góðu dagarnir verið svo góðir. Reyndu líka að minna þig á sjálfsmildina og að sýna þér eitthvað af þeirri umhyggju sem þú sýnir öðrum.
Auk þess getur verið gott að hafa fyrirmyndir. Fyrirmyndir sem rjúfa þögnina og tala opinberlega um líðan sína, veikindi, baráttur, bjargráð og bata.
Hér er ein slík:
Fleiri fyrirmyndir sem hafa talað opinskátt um líðan/veikindi sín:
Justin Bieber (þunglyndi og sjálfsvígshugsanir), Demi Lovato (geðhvörf I, átröskun og fíkn), Lady Gaga (áfallastreita, kvíði og þunglyndi), Ryan Reynolds (þunglyndi og kvíði), Andres Iniesta (þunglyndi og sjálfsvígshugsanir), Mariah Carey (geðhvörf II), David Beckham (kvíðaröskun; OCD), Kendall Jenner (kvíðaröskun; félagskvíði), Harry Prins (kvíði; víðáttufælni), Miley Cyrus (kvíði, þunglyndi og fíkn), Gina Rodriguez (kvíði og sjálfsvígshugsanir), Nicki Minaj (þunglyndi og sjálfsvígshugsanir), Pete Davidson (áfallastreita, persónuleikaröskun og sjálfsvígshugsanir), Adele (þunglyndi og kvíði), Ariana Grande (áfallastreita og kvíðaröskun), Leonardo DiCaprio (kvíðaröskun; OCD), Selena Gomez (geðhvörf I) og Harry Styles (kvíðaröskun; frammistöðukvíði).
Sumir hafa náð bata, aðrir ekki. Dæmi um bjargráð þeirra eru meðal annars: sjálfsvinna, núvitund, sálfræðitímar (Adele fór í 5 sálfræði tíma á dag þegar henni leið sem verst) og lyfjameðferðir.
Þess má geta að kvíðaröskun á sér margar birtingarmyndir sem ekki verður farið nánar í hér. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur það betur ef kvíði er eitthvað sem þið tengið við.
Mundu bara að þú ert ekki ein/einn/eitt. Aldrei.
Vegna fordóma hefur það sýnt sig, að margir eiga erfitt með að horfast í augu við það að þeir séu veikir. Það er til dæmis talið að einungis um helmingur þeirra sem eru með þunglyndi séu greindir.
Umræða og fræðsla er lykilatriði þegar kemur að andlegum veikindum og sjálfsvígum. Auka þannig skilning og minnka um leið fordóma. Að koma snemma auga á geðræna sjúkdóma skiptir líka miklu máli, því þá er hægt að grípa inn í strax.
Fræðimenn hafa auk þess haldið því fram að skólinn sé betri vettvangur fyrir skimanir, til þess að uppgötva áhættuþætti og andleg veikindi ungmenna, heldur en heilbrigðiskerfið. Meðal annars vegna þess að ungmenni leita oft ekki til heilbrigðiskerfisins þegar þeim líður illa, fyrr en í óefni er komið.
Eftir reynslu mína af kennslustörfum, spyr ég líka: Hvernig má það vera að ekki er lögð meiri áhersla á skimanir, eflandi fræðslu og skipulagt forvarnarstarf tengt andlegri heilsu í grunnskólum landsins?
Nýverið las ég líka að kennarar ættu almennt erfitt með að nefna orðið sjálfsvíg í kennslu, þegar þeir huga að forvörnum. Orðið sjálfsvíg er sjaldnast það sem ýtir undir að ungmenni taka sitt eigið líf en þögnin getur hins vegar gert það.
Sjálfsvíg ungmenna er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað. Okkur er kennt að lífið eigi að vera gott og hamingjuríkt en okkur eru sjaldnast rétt verkfæri til þess að takast á við erfiðleikana, fyrr en eftir að við lendum í þeim. Þá er það því miður í einhverjum tilvikum bara orðið of seint.
Sama hversu erfið líðan þín er, eru alltaf einhverjar lausnir og mikið af góðu fólki sem vill hjálpa.
Ef þú finnur fyrir vanlíðan og veist ekki hvert þú átt að leita er gott að byrja á því að tala við einhvern sem þú treystir. Ekki burðast með erfiða líðan ein/einn/eitt – því fyrr sem þú leitar þér aðstoðar því betra.
Hjálparlínur og önnur þjónusta hafa líka komið í veg fyrir mörg sjálfsvíg. Hér eru nokkrar leiðir til þess að fá frekari aðstoð (ekki tæmandi listi):
Þegar kemur að andlegum veikindum sjáum við yfirleitt aðeins brot af því sem einstaklingar eru að ganga í gegnum. Ef þeir opna sig um líðan sína eða sýna hana á einhvern hátt – tökum því alvarlega. Það gerist oftar en ekki á þeim tíma sem einkenni þeirra eru hvað mest og þeir hafa ekki orku til þess að fela það hvernig þeim líður.
Ástæðan fyrir því að ég tek fræga fólkið sem dæmi er að einhvern veginn tengjum við betur þegar við sjáum kunnugleg andlit.
Passið vel upp á ykkur og þá sem í kringum ykkur eru. Við viljum öll innst inni bara það besta fyrir okkur sjálf og þá sem okkur þykir vænt um – og aðra ef út í það er farið.
Hugur minn er hjá þeim sem hafa misst ástvin vegna sjálfsvígs.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.