Franskir miðlar hafa undanfarna daga verið uppfullir af fréttum og greinum tengdum andláti eins mesta rithöfundar samtímans, hins tékknesk-franska Milans Kundera, sem er íslenskum bókmenntaáhugamönnum vel kunnur af afbragðsþýðingum Friðriks Rafnssonar.
Í vafri um vefmiðla síðustu daga hef ég hnotið um urmul snjallra tilvitnina til skáldsins framliðna. Til að mynda vísaði Paul Sugy, blaðamaður Le Figaro, til þeirra orða Kundera að það væri dauðadómur þjóðar að svipta hana menningu sinni og þar af leiðandi minni sínu og frumleika (fr. „vider une nation de sa culture, donc de sa mémoire et de son originalité, c’est la condamner à mort“).
Móðurmálskennsla er grundvallaratriði
Fyrir viku vitnaði ég hér á þessum vettvangi til skrifa Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns frá árinu 1841 og ætla að fá að vísa til hans aftur, þar sem hann segir sagnfræðina vera einhverja hina yndælustu vísindagrein og án hennar væru „mennirnir og þjóðirnar sem í myrkri“. Hún sýndi þjóðunum hvað yrði „til viðreisnar og blómgunar, falls og eyðileggingar“.
Einhvern veginn þykja mér þetta svo sjálfsögð sannindi að vart sé orð á gerandi en samt er það svo að sögukennslu hefur hnignað mjög líkt og fjallað var um í fréttum í vetur sem leið. Nú er svo komið að stór hluti framhaldsskólanema lýkur stúdentsprófi án þess að hafa lært nokkra sögu yfir höfuð.
Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur og lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sagði í viðtali í Ríkisútvarpinu í mars síðastliðnum að sögukennsla í grunnskólum rynni inn í það sem kallað væri „samfélagsgreinar“ og færi sífellt hallloka fyrir ýmsum nýjum fögum sem þar væri bætt við.
Söguþekking og söguvitund Íslendinga stendur í órjúfanlegum tengslum við tungumálið. Engin önnur germönsk þjóð á greiðari aðgang að fornum ritum og fornri hugsun. Ég varð enn einu sinni áþreifanlega var við þetta er ég heimsótti Dómkirkjuna í Uppsölum á dögunum. Þar mátti lesa á 19. aldar málverkum tilvitnanir í miðaldasænsku. Ég skildi hvert orð en sænskur kunningi minn sem var með í för — mikill málamaður — átti í mesta basli með að ráða fram úr því hvað þarna stóð. Þýskur vinur minn gaf mér í jólagjöf bók með gullaldartextum þýskrar tungu. Þar voru aðeins birtir tveir miðaldatextar og báðir þörfnuðust þýðinga á nútímamál, enda tungumálið allt annað.
Ég leit á heimleiðinni frá Uppsölum enn og aftur á hina gríðarstóru veggmynd Carls Larsson Midvinterblot frá 1915 á Þjóðminjasafninu í Stokkhólmi en myndefnið er sótt í Ynglingasögu sem finna má í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Og á Norræna safninu (s. Nordiska museet) var á sýningu vitnað á nokkrum stöðum til Snorra-Eddu. Forníslensk sagnaritun er allt um kring.
En þrátt fyrir að fáir efist um mikilvægi íslensks menningararfs í þjóðlegu jafnt sem alþjóðlegu samhengi hefur ekki einasta sögukennsla mátt þoka — sömu sögu er að segja af móðurmálskennslu. Sú vegferð hófst fyrir löngu.
Þorsteinn Gylfason, prófessor í heimspeki, benti á það í miðopnugrein í Morgunblaðinu 12. apríl 1980, að stéttir ýmissa félagsvísindamanna hefðu það að markmiði (hér á landi sem annars staðar) að ryðja „móðurmálskennurum úr vegi“ svo þeir kæmust að „með sitt agalausa kjaftæði þar sem engin skil eru á réttu og röngu“.
Þorsteinn vísaði þar til nýlegra skrifa félagsvísindamanns nokkurs þess efnis að íslensk málfræði og málvöndun væri „eitt máttugasta kúgunartæki yfirstéttarinnar í landinu“. Sama máli gilti að mati viðkomandi um alla kennslu sem hefði það að markmiði að nemendur lærðu það sem réttast væri. Skólarnir ættu að hætta að skeyta um rétt og rangt — þá fyrst tækist þeim að gegna hlutverki sínu og unnin yrði sigur á þeirri „yfirstétt“ sem um var rætt.
Hér er lýst alþjóðlegri tilhneigingu til útvötnunar menntunar sem franski germanistinn Sylvain Fort gerði vel skil í viðtali við þýska miðilinn Welt í janúar sl. Í Frakklandi hefðu félagsgreinar verið látnar leysa tungumálakennslu af hólmi af stórum hluta vegna ótta við eitthvað sem kallað var „yfirstéttarmenntun“ (þ. „Angst vor Elitenbildung“). Tungumálanám var með öðrum orðum talið ala á mannamun, en fyrir vikið færu nemendur á mis við þann aga og þá rökhugsun sem því fylgdi að leggja fyrir sig tungumálanám. Nú skyldi allt vera afstætt og hreinar hlutlægar forsendur dottnar úr tísku. Það er bagalegt að slíkar delluhugmyndir hafi orðið jafnútbreiddar og raun ber vitni. Við blasir að menntun á Vesturlöndum hefur borið alvarlegan skaða af.
Áðurnefnd grein Þorsteins var svar við (og nánari útlegging á) pistli Helga Hálfdánarsonar, lyfjafræðings og þýðanda, sem birst hafði nokkrum dögum fyrr í sama blaði. En Helgi hafði sagt að það kynni
„ekki góðri lukku að stýra, ef þær raddir mega sín einhvers, sem halda því fram, að ekki megi leiðrétta málfar barna í skólum, því þá sé verið að mismuna fólki eftir þjóðfélagsstéttum, hvernig í dauðanum sem það er nú hugsað“.
Pistill Helga bar yfirskriftina „Vítahringur“ og vísaði heitið til þess að þau grundvallaratriði móðurmáls sem börnin væru svikin um í grunnskóla fengju þau hvergi eftir það í skólum, því á hærri skólastigum væri ekki ætlast til að unglingum væri kennt það sem þeir áttu að læra í barnaskóla. Margt færi að vonum fyrir ofan garð og neðan í kennslu eldri nemenda því undirstöðuna skorti. Sífellt fleiri brautskráðust úr háskólum án þess að kunna viðhlítandi skil á móðurmálinu, margir þeirra yrðu kennarar og sama sagan endurtæki sig „með síversnandi afleiðingum“. Helgi lét því næst svo um mælt: „Til kennslu í grunnskólum þyrfti að laða sem flesta úrvalsmenn fremur en í nokkurt annað starf.“ Ella væri íslenskri menningu bráður háski búinn. Þetta var ritað fyrir rúmum 43 árum en skyggnumst um lengra aftur.
Mál alþýðumanna
Talsverð blaðaskrif urðu um slettur í máli Reykvíkinga árið 1926. Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, stakk niður penna af því tilefni og sagði í grein sem birtist í Lesbókinni að vandað talmál þyrfti „að verða eins sjálfsagt og hreinlæti, kurteisi, mannasiðir.“ Íslenskan tæki illa við erlendum orðum því þeim fylgdi
„skakkur framburður, beygingarleysi og hálfur eða rangur skilningur. Þegar þau eru orðin nógu mörg fara þau að hafa áhrif á íslensku orðin. Hljóðkerfi málsins raskast, beygingar skekkjast, menn hætta að kæra sig um að skyggnast fyrir rætur orðanna.“
Þessi orð eiga ekki síður við nú en fyrir 97 árum. Skeytingarleysi um málið verður til þess að það spillist og sögulegt samhengi rofnar. Við hættum að eiga sálufélag við Ara og Snorra. Hættum að skilja eigin menningu; hættum að skilja okkur sjálf.
Franski heimspekingurinn Roland Barthes flutti ávarp er hann var tekinn inn í Collège de France 1977 þar sem hann lýsti því yfir að tungumálið væri „hvorki afturhaldssamt né framfarasinnað“ það væri „einfaldlega fasískt“. Því fasismi væri ekki „að koma í veg fyrir að menn tali heldur að neyða þá til að tala“. Pétur Gunnarsson rithöfundur lagði út af þessum orðum í grein í 4. tbl. Tímarits Máls og menningar 2010 og sagði þann sem ætlaði að beita þessari nálgun á íslenskar aðstæður líkum manni sem stæði með stjörnuskrúfjárn andspænis skrúfu með þverrifu. Hér væru og hefðu alla tíð verið margvíslegar stéttaandstæður en þær birtust ekki í tungumálinu; alltént ekki þegar komið væri fram á tuttugustu öld.
Fátækt alþýðufólk á fyrri hluta tuttugustu aldar (já og fyrr og síðar) var gjarnan feiknavel lesið í skáldskap og margvíslegum fræðum og oft engir eftirbátar menntamanna í beitingu tungumálsins. Þetta er allt önnur staða en í nálægum löndum. Pétur Gunnarsson velti því upp að ef til vill væri þarna fólgið mesta verðmæti íslenskrar menningar en Sigurður Nordal benti á í áðurnefndri grein að ekkert tungumál sem hann vissi til hefði það hvort tveggja til ágætis að vera ræktað menningarmál og óskipt eign allrar þjóðarinnar: „Hér á landi eru engar mállýskur, engin stéttamál, ekkert almúgamál, ekkert skrílmál.“ Tungan væri ekki einungis undirstaða menningar Íslendinga „heldur líka sjálfstæðis út á við og jafnaðar inn á við“.
Andleg eyðimörk
Eitt af eftirlætiskvæðum mínum var frumflutt á þjóðminningardaginn í Reykjavík, 2. ágúst 1897. Það heitir einfaldlega „Reykjavík“ og skáldið Einar Benediktsson. Þar eru höfuðstaðnum bornar óskir um gifturíka framtíð, að hún „verði stór og rík“ en síðan koma þessar hendingar:
En þó við Flóann byggðist borg
með breiða vegi og fögur torg
og gnægð af öllum auð —
ef þjóðin gleymdi sjálfri sér
og svip þeim týndi er hún ber,
er betra að vanta brauð.
Hvers virði er allur veraldlegur auður ef hinn andlegi fjársjóður glatast? Vera kann að einhverjum finnist þetta upphafið og rómantískt hjal og þá verður svo að vera. Ólína Þorvarðardóttir, fræðimaður og fyrrv. alþingismaður, vitnaði til hinna fleygu vísuorða Snorra Hjartarsonar í pistli á vordögum:
Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,
þér var ég gefinn barn á móðurkné;
og gat þess að ef til vill yrði þetta álitin „þjóðremba“ á okkar dögum — ljóðlínur sem samt væru svo fullar
„af auðmýkt og þakklæti í garð móðurtungunnar sem sameinar í huga skáldsins sjálfan grundvöllinn fyrir tilvist þess sem skapandi mannveru í því samfélagi sem mótast hefur um aldir hér á norðurslóðum. Sú tilvist — líkamleg, andleg og félagsleg — tilheyrir órjúfanlegu samhengi sem kristallast í þessum þremur orðum: Land — þjóð — tunga.“
Ólína nefndi að íslenskan væri í vanda. Hún hefði verið vanrækt af þeim sem bæru ábyrgð á viðgangi hennar: stjórnvöldum, stofnunum, menntakerfi og ekki síst þjóðinni sjálfri.
Mig langar að taka undir með Ólínu og lýsi eftir menningarforkólfum sem gera sér grein fyrir mikilvægi þess sögulega samhengis sem að framan er getið — í von um að opna augu sem flestra fyrir því hvernig öll sjálfsvitund okkar byggir á þessu ævaforna máli. Hvar eru slíkir menn í hópi ráðamanna, til að mynda meðal æðstu embættismanna, alþingismanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar? Stundum finnst mér sem margir þeirra ráfi um villtir í andlegri eyðimörk. Ef til vill hafa þeir gleymt sjálfum sér.