Ríkisendurskoðun hefur tekið upp það breytta verklag að ráðast fyrr í eftirfylgni með skýrslum embættisins til að kanna hvort ráðist hefur verið í úrbætur. Áður var ráðist í slíka eftirfylgni þremur árum eftir að skýrsla embættisins leit dagsins ljós en því ferli verður nú hraðað þannig að skýrslunum verði fylgt eftir nokkrum mánuðum eftir birtingu.
Í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun kemur fram að farið verði af stað með fyrstu eftirfylgnina af þessu tagi en það sé eftirfylgni með skýrslu embættisins um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022. Hefur fjármála- og efnahagsráðuneyti verið kynnt ákvörðun embættisins í bréfi, sem jafnframt hefur verið sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar, sem snerist helst um aðkomu Bankasýslu ríkisins á sölu hlutarins, voru birtar í skýrslu á vef embættisins þann 14. nóvember 2022 og vöktu talsvert umtal í samfélaginu á þeim tíma. Það umtal var þó ekkert í líkingu við fárviðri sem fór af stað eftir að úttekt Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um útboðsframkvæmd Íslandsbanka leit dagsins ljós á dögunum.
Á vef Ríkisendurskoðunar er fjallað betur um málið og þar má lesa væna pillu sem stofnunin sendir forsvarsmönnum Bankasýslunnar og er þar vísað í málflutning þeirra á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á dögunum. Sá fundur vakti nokkra athygli fyrir þá staðreynd að Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sagðist standa við fyrri yfirlýsingar sínar um að útboðið hefði verið óvenju vel heppnað.
„Ríkisendurskoðun getur ekki dregið aðra ályktun af málflutningi fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd, sem haldinn var 28. júní sl., en að stofnunin hafi fyrir sitt leyti engan lærdóm dregið af skýrslu Ríkisendurskoðunar og að ekki standi til af hennar hálfu að axla neina þá ábyrgð sem henni ber sem framkvæmdaraðila útboðsins og fjallað er um í skýrslunni,“ segir með hvössum tón á vef stofnunarinnar.
Hefur Ríkisendurskoðun því óskað eftir Aeftir ítarlegum upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um stöðu mála og til hvaða ráðstafana ráðuneytið hafi gripið með það að markmiði að styrkja eftirfylgni með eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Hér má sjá umfjöllunina á vef Ríkisendurskoðunar