Stefán Þór Winkel Jessen hefur verið ráðinn í stöðu tæknistjóra fiskeldisfyrirtækisins First Water, sem áður hét Landeldi. Um leið tekur Stefán sæti í framkvæmdastjórn félagsins sem hann hefur starfað hjá síðan í desember 2022
Stefán er með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík. Stefán hefur stjórnað og tekið þátt í mörgum krefjandi verkefnum bæði hérlendis og erlendis sem lúta að hönnun, rekstri og uppbyggingu ýmissa tækniinnviða; til dæmis virkjana, tengivirkja og fjarskipta- og stjórnkerfa.
First Water var stofnað 2017 til að byggja upp metnaðarfullt landeldi á laxi við kjöraðstæður við Þorlákshöfn þar sem hreint vatn, hrein orka og sérstök ker verða notuð til að líkja sem best eftir náttúrulegum uppeldisaðstæðum fisksins auk þess sem lífrænir hliðarstraumar verða nýttir, m.a. til áburðarframleiðslu.