fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Jóhann Páll birtir nokkuð sláandi tölur um hækkun óverðtryggðra lána og vöruverðs – Sendir Bjarna sneið

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 30. maí 2023 14:30

Jóhann Páll Jóhannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Páll Jóhannsson, alþingismaður, birti í morgun á Facebook-síðu sinni myndir úr mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis – og mannvirkjastofnunnar(HMS) fyrir maí mánuð og nýjasta peningamálariti Seðlabanka Íslands.

Á myndinni má sjá að mánaðarleg greiðslubyrði af 40 milljóna króna óverðtryggðu húsnæðisláni á breytilegum vöxtum, sem tekið var í byrjun árs 2019 og er til 40 ára, hefur hækkað úr 220.900 krónum, frá janúar 2019, í 303.300 krónur í maí 2023. Reiknar HMS með að greiðslubyrðin muni hækka í 326.200 krónur í júní eftir að viðskiptabankarnir hafa brugðist við nýjustu stýrivaxtahækkun Seðlabankans.

Samkvæmt skýrslunni eru þessir útreikningar miðaðir við jafngreiðslulán á vöxtum sem jafngilda meðaltali af lægstu breytilegum vöxtum hjá viðskiptabönkunum.

Eins og áður sagði birtir Jóhann einnig mynd úr nýjasta hefti ritsins Peningamál sem Seðlabankinn gefur út. Myndin byggir á mælingum Hagstofu Íslands. Á myndinni má m.a. sjá að verðhækkanir innlendra vara, á 12 mánaða tímabili, hafa vaxið úr tæpum tveimur prósentum frá miðju ári 2021 í tíu til fimmtán prósent í apríl síðastliðnum. Hækkunin er misjöfn eftir því um hvaða vöruflokk er að ræða. Mest er hækkunin á búvörum og grænmeti.

Þegar kemur að innfluttum vörum er breytingin enn meiri. Þær lækkuðu í verði, á 12 mánaða tímabili, um mitt ár 2021 en í apríl síðastliðnum höfðu þær hækkað í verði, á 12 mánaða tímabili, um átta til tólf prósent. Eins og í tilfelli innfluttu varanna er hækkunin misjöfn eftir vöruflokkum. Mest er hækkunin í flokknum nýir bílar og varahlutir.

Jóhann vitnar í orð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, sem hann lét að sögn falla í september 2021 en lætur þess ógetið á hvaða vettvangi eða við hvaða tækifæri það var. Að sögn Jóhanns sagði Bjarni:

„Tugþúsundir Íslendinga njóta þess að afborganir af lánum hafa lækkað eftir endurfjármögnun. Þetta var hægt vegna þess að vextir eru lágir. Það er ekki tilviljun. Útgjaldalistinn sem nú er lofað mun hækka vextina aftur. Afborganirnar munu hækka með. (…). Við þurfum öll að borga fyrir ábyrgðarleysi með hærri afborgunum um mánaðamótin, í hærri sköttum á launaseðlinum og í hærra verði á kassanum úti í búð. Þess vegna lofum við ábyrgð og stöðugleika ofar öllu öðru.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt