„Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 segir fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, að felist skýr markmið. Meðal annars sé eitt markmiðanna að styðja við Seðlabankann í því verkefni að tempra verðbólgu. Þvílíkt froðusnakk! Það fer ekki fram hjá neinum að þetta er innantómt blaður,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Inga bendir á að erlendis lækki stjórnvöld álögur til að takast á við verðbólguna en íslensk stjórnvöld fari öfuga leið:
„Í löndunum í kringum okkur sjáum við hvernig þjóðirnar takast með mismunandi hætti á við verðbólguna. Á Spáni sem dæmi lækkaði verðbólgan um heil tvö prósentustig á milli mánaðanna febrúar og mars. Hvernig fóru Spánverjar að því? Spænsk stjórnvöld lækkuðu álögur á bensín. Á sama tíma ákvað ríkisstjórn Íslands að hækka hvern einasta bensínlítra um níu krónur. Spænsk stjórnvöld drógu úr öllum álögum hvaða nöfnum sem þær kunna að nefnast á meðan íslensk stjórnvöld réðust af afli á samfélagið með krónutöluhækkunum. Skattahækkanirnar skiluðu sér svo beina leið út í verðlagið sem vítamínbætt fóður fyrir verðbólguna.“
Inga segir að stjórnvöldum væri nær að sækja skattfé þangað sem nóg er til í stað þess að hækka álögur á almenning í gegnum neysluskatta:
„Hvarflaði að þeim að sækja þessar krónur í stórútgerðina sem græðir sem aldrei fyrr? Eða í bankana sem mergsjúga samfélagið með okurvöxtum og verðtryggingu? Nei, að sjálfsögðu hvarflar ekki að þeim að sækja fjármagn þar sem nóg er af því fyrir og allar hirslur eru yfirfullar af peningum milljarðamæringanna sem þessi ríkisstjórn verndar með kjafti og klóm undir forystu VG.“
Inga staðhæfir að ríkisstjórnin sem nú situr við völd þjóni sérhagsmunum en ekki almannhagsmunum. „Enn og aftur skal fórna þeim efnaminni á altari græðginnar,“ segir hún. Í lok pistilsins fellir Inga þennan dóm:
„Ég gef bæði ríkisstjórninni og fjármálaáætlun hennar til næstu fjögurra ára 0,0.“