Fossar fjárfestingarbanki hafa ráðið til sín Heiðrúnu Haraldsdóttur sem forstöðumann fjármála- og rekstrarsviðs. Kemur þetta fram í tilkynningu.
Heiðrún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með MSc í fjármálum fyrirtækja og með yfir 20 ára reynslu af fjármálastarfsemi. Hún kemur til Fossa frá Arion banka þar sem hún starfaði sem rekstrarstjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs. Áður starfaði hún á fjármálasviði Arion banka, meðal annars í samstæðuuppgjöri og hagdeild. Heiðrún hefur einnig starfað sem sérfræðingur hjá Íslandsbanka, sem rekstrarstjóri hjá Senu og fjármálastjóri Hér & Nú auglýsingastofu.
Fossar voru stofnaðir árið 2015 og þjónusta innlenda og erlenda fjárfesta á sviði markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og eignastýringar. Starfsmenn Fossa eru reyndir sérfræðingar með viðamikla þekkingu á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Markmið Fossa er að skila viðskiptavinum árangri með því að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu. Sjálfbærnisjónarmið hafa ávallt verið höfð að leiðarljósi í starfsháttum Fossa. Það er markmið Fossa að sýna ríka ábyrgð í samfélagsábyrgð og sjálfbærni, bæði í eigin starfsemi og í gegnum víðtæk áhrif starfseminnar á viðskiptavini og aðra haghafa. Þannig hafa Fossar til dæmis verið brautryðjandi í umsjón með útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi.