Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins hafa með afgerandi meirihluta samþykkt verkbann á félagsmenn Eflingar. 94,73% þeirra sem kusu greiddu atkvæði með verkbanni en 3,32% á móti.
Þetta kemur fram á vef SA.
Í tilkynningu samtakanna um málið er haft eftir framkvæmdastjóra samtakanna, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, að mjög mikilvægt sé að hafa fengið svo afgerandi niðurstöðu í kosningunni:
„Að fá svo afgerandi niðurstöðu er mjög mikilvægt í þeirri orrahríð sem nú gengur yfir. Atkvæðagreiðslan leiðir í ljós gríðarlegan stuðning fyrirtækjanna í landinu við málflutning Samtaka atvinnulífsins og ábyrga nálgun okkar í afar vandasamri stöðu.“
Halldór segir að verkbannið sé neyðarráðstöfun:
„Að efna til verkbanns er ekki ákvörðun sem tekin er af léttúð, en þau spil sem eru á hendi bjóða ekki upp á marga kosti. Þetta er neyðarráðstöfun þar sem fyrirtækin eru að bera hönd fyrir höfuð sér, þegar á skellur hrina þaulskipulagðra verkfalla sem ætlað er að lama samfélagið en valda Eflingu sem minnstum tilkostnaði. Það er okkar von að boðun verkbannsins leiði til skjótari niðurstöðu við samningaborðið enda er vinnudeilan nú þegar farin að valda verulegum skaða úti í samfélaginu.“
Halldór segir ennfremur:
„Það eru þung skref að taka að boða til verkbanns, Samtök atvinnulífsins líta á það sem frumskyldu sína að tryggja frið á vinnumarkaði, en meðan forysta Eflingar velur alltaf ófrið þótt friður sé í boði, munum við taka til varna eins og við höfum rétt til samkvæmt lögum.“
Verkbannið tekur gildi eftir rúma viku, eða á hádegi fimmtudaginn 2. mars. Ef Efling frestar verkföllum verður verkbanninu einnig frestað.