Verkfall nýrra aðila innan Eflingar hófst á hádegi í dag. 70 vörubílstjórar hjá Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu, og 500 starfsmenn Berjaya-hótela og Edition lögðu niður störf kl. 12 og halda áfram í verkfalli þangað til því hefur verið aflýst af félaginu. Þegar eru um 300 Eflingarfélagar á Íslandshótelum í verkfalli.
Settur ríkissáttasemjari, héraðsdómarinn Ástráður Haraldsson, tók við hlutverki sáttasemjara í deilunni í gær og boðaði SA og Eflingu til fundar í morgun. Mbl.is greinir frá því merki séu á lofti um að sættir gætu náðst í deilunni. Rætt var við Sólveigu Önnu sem segir: „Við bindum miklar vonir um að mögulega sé eitthvað að gerast.“ Segir Sólveig Anna að samningsvilji Eflingar sé mikill í deilunni.
Morgunblaðið fer hörðum orðum um Eflingu í dálkinum Staksteinar í morgun og segir félagið halda samfélaginu í gíslingu. Er þar vitnað til viðtals við forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogasonar:
„Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að flug til og frá landinu stöðvist ekki seinna en í næstu viku, verði verkfalli eldsneytisflutningabílstjóra í Eflingu haldið til streitu. Ekki vegna þess að ekki sé nóg til af flugvélaeldsneyti, heldur vegna þess að það þarf líka olíu á rútur með farþega og starfsfólk, flutningabíla með flugvélamat og sprittþurrkur.
Það er ekkert grín ef flugið stöðvast. Þar horfa auðvitað margir til ferðaþjónustunnar, sem ekki hefur enn náð sér eftir heimsfaraldurinn, og má ekki við neinni truflun. Og það er ekki eins og þá falli niður nokkrar flugferðir á dag, því fljótt flýgur fiskisagan og verkfallsfréttir af íslenskum ferðageira getur sett allt sölustarf fyrir sumarið á hliðina.“