fbpx
Mánudagur 11.desember 2023
Eyjan

Sjókvíaeldið: Guðmundur fjallar um íslenska spillingu og segir merkilegt að sjá skítinn skjóta upp kollinum nánast í rauntíma

Eyjan
Föstudaginn 10. febrúar 2023 10:00

Mynd: Vefur Ríkisendurskoðunar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Gunnarsson, ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu, segir spillinguna bókstaflega leka af síðum svartrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Skýrslan er talin vera mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu varðandi sjókvíaeldi hér við land. Guðmundur segir hana vera klassísk dæmi um íslenska spillingu en merkilegt sé að sjá skítinn fljóta upp nánast í rauntíma:

„Ætli íslenskri þjóð sé ekki bara farið að þykja dulítið vænt um spillinguna sína? Sem loðir við sameiginlegar auðlindir landsmanna eins og myglusveppur.

Það sem er reyndar merkilegast í þessu nýjasta spillingarútspili okkar Íslendinga er að sjá skítinn skjóta upp kollinum svona hratt og vel. Svo að segja í rauntíma.

Það er hressandi, því það þýðir að fólkið sem ber ábyrgð á öllu sukkinu situr enn í sömu stólunum. Svona fyrir utan þá sem hafa þegar fært sig yfir á launaskrá auðmannanna sem fengu þá til verksins. Öldungis ánægðir með afraksturinn.“

Guðmundur bendir á að hann hafi ekki bara lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur hafi hann verið í hringiðu þeirra atburða sem lýst sé í skýrslunni. Fullyrðingar hans um spillingu í tengslum við sjókvíaeldi séu því ekki úr lausu lofti gripnar:

„Þetta liggur allt ljóst fyrir vegna þess að ég horfði upp á þræðina teiknast upp fyrir framan mig. Sat við borðið þegar handónýtri lagaumgjörðinni var troðið ofan í kokið á fiskeldissamfélögunum. Af fólki sem vissi nákvæmlega hvað það var að gera.

Svo sat ég líka alla fundina. Heyrði fagurgalann um mikilvægi þess að ávinningurinn yrði eftir hjá fólkinu. Í samfélögunum.

Sem varð svo auðvitað ekkert raunin. Þegar allt kom til alls og kjörnir fulltrúar, sem töluðu svo digurbarkalega um samfélögin, hurfu aftur ofan í rassvasa gírugra auðmanna. Eins og þeirra er siður.“

Spilling er þetta og ekkert annað, segir Guðmundur. Þetta sé gamla íslenska sagan þar sem sérhagsmunir trompi almannahagsmuni.

Leiðarinn er í heild hér fyrir neðan:

 

Spilling er það

Þótt hvergi sé minnst berum orðum á spillingu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, þá er hún þarna samt. Svo bersýnileg að hún bókstaflega lekur af öllum hundrað fjörutíu og tveimur blaðsíðunum. Eins og grútur. Með tilheyrandi óþef.

Ætli íslenskri þjóð sé ekki bara farið að þykja dulítið vænt um spillinguna sína? Sem loðir við sameiginlegar auðlindir landsmanna eins og myglusveppur.

Það sem er reyndar merkilegast í þessu nýjasta spillingarútspili okkar Íslendinga er að sjá skítinn skjóta upp kollinum svona hratt og vel. Svo að segja í rauntíma.

Það er hressandi, því það þýðir að fólkið sem ber ábyrgð á öllu sukkinu situr enn í sömu stólunum. Svona fyrir utan þá sem hafa þegar fært sig yfir á launaskrá auðmannanna sem fengu þá til verksins. Öldungis ánægðir með afraksturinn.

Einhverjum kann að finnast leiðarahöfundur fara full gassalega í fullyrðingar í þessum efnum. En þá er því til að svara að sá sem hér ritar byggir fullyrðingar sínar ekki bara á lestri einnar skýrslu.

Svo vill til að ég var í hringiðu þeirra atburða sem lýst er í skýrslunni. Ekkert af því sem þar stendur er nýtt eða óvænt fyrir mér.

Þetta liggur allt ljóst fyrir vegna þess að ég horfði upp á þræðina teiknast upp fyrir framan mig. Sat við borðið þegar handónýtri lagaumgjörðinni var troðið ofan í kokið á fiskeldissamfélögunum. Af fólki sem vissi nákvæmlega hvað það var að gera.

Svo sat ég líka alla fundina. Heyrði fagurgalann um mikilvægi þess að ávinningurinn yrði eftir hjá fólkinu. Í samfélögunum.

Sem varð svo auðvitað ekkert raunin. Þegar allt kom til alls og kjörnir fulltrúar, sem töluðu svo digurbarkalega um samfélögin, hurfu aftur ofan í rassvasa gírugra auðmanna. Eins og þeirra er siður.

Þannig er sagan og þannig gerðist þetta. Eða hvernig heldur fólk annars að önnur eins endemis vitleysa verði til? Heldur fólk að svona ósómi stafi af penna sem rennur aðeins til í blekinu? Eða að hending ein ráði því að rentan af auðlindum þjóðarinnar skuli alltaf enda í hjólbörum sömu auðmannanna, fremur en hjá þjóðinni?

Aldeilis ekki. Spilling er það og spilling skal það heita. Það er það sem ríkisendurskoðandi er að reyna að segja okkur með þessari skýrslu. Í löngu og ítarlegu máli.

En eigum við svo nokkuð að vera að gera eitthvað mál úr þessu? Er þetta ekki bara sama gamla íslenska sagan?

Þar sem sérhagsmunir trompa almannahagsmuni. Sem oftast og sem víðast.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vistkerfi bókaútgáfu er að breytast hratt, segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Vistkerfi bókaútgáfu er að breytast hratt, segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta eru ákvæðin sem voru felld úr siðareglum ráðherra

Þetta eru ákvæðin sem voru felld úr siðareglum ráðherra
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Hugumprýði, fórnfýsi og örlæti

Svarthöfði skrifar: Hugumprýði, fórnfýsi og örlæti
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Er hún svo frábær, þessi íslenska sveifla?

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Er hún svo frábær, þessi íslenska sveifla?