Baráttufólk úr hópi Eflingar viðhöfðu „friðsamleg mótmæli“ í dag, líkt og segir í tilkynningu frá félaginu, en við þessi mótmæli fylktu þau liði á Tjarnargötu í morgun við ráðherrabústaðinn. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fór fyrir hópnum sem baulaði á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann kom út úr bíl sínum. ‘
Bjarni Benediktsson sagði í samtali við mbl.is að hann hafi furðað sig á athæfinu sem hann sagði hafa komið sér í opna skjöldu enda vissi hann ekki til þess að Efling ætti eitthvað ótalað við ríkisstjórnina.
Bjarni benti á Efling á í kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins og kunni hann illa við að látið væri sem að hann væri ekki tilbúin til viðtals þegar fólk stæði fyrir framan hann með gjallarhorn að öskra ókvæðisorð. Þá væri best að yfirgefa aðstæður.
Bjarni var kallaður rasisti af hópnum sem hann vísar til föðurhúsanna.
Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, furðar sig á mótmælunum í morgun en hann spyr á Facebook hvernig sé staðið að öryggisgæslu ráðherra í landinu.
„Hvernig er með öryggisgæslu ráðherra í þessu landi? Ofstopafólk, sem kann enga mannasiði, ræðst að fjármálaráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinnn og hengir spjöld á ráðherrabílinn með látum og enginn hreyfir legg né lið. Veit þetta fólk ekki hver er viðsemjandi þeirra?“