Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Landsbankann til að greiða hjónum rúmlega 230 þúsund krónur vegna oftekinna vaxta og 1,5 milljónir króna í málskostnað. Hjónin sem í hlut eiga tóku lán með breytilegum vöxtum hjá bankanum árið 2006. Neytendasamtökin telja að lán með breytilegum vöxtum standist ekki lög og að lántakendur sem hafi tekið slík lán gætu átt rétt á endurgreiðslu. Telja samtökin að breytilegir vextir Landsbankans hafi lækkað minna frá árinu 2018 en þeir hefðu átt að gera ef miðað er við aðra vexti.
Arion banki vann hins vegar í dag mál gegn öðrum hjónum sem stefndu bankanum vegna láns með breytilegum vöxtum. Sjá hér.
Fjallað er um málið á vef RÚV í dag og rætt við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna. Breki segir að neytendarétti á fjármálamarkaði á Íslandi sé verulega ábótavant. Neytendasamtökin telja að „flestöll lán með breytilegum vöxtum séu ekki með lögum sem samrýmist íslenskum lögum eða Evróputilskipunum.“
Í tveimur sambærilegum málum hafa Neytendasamtökin leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. „Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og framkvæmdastjórn Evrópu hafa nú þegar skilað inn greinargerðum og síðan verður munnlegur málflutningu í þeim málum 23. mars næstkomandi.“
Breki upplýsir að um 70 þúsund lán á Íslandi séu undir hvað varðar ágreining um lán með breytilega vexti. Allt í allt sé því um verulegar upphæðir að ræða, tugi milljarða. „Þetta eru verulegar upphæðir.“ Giskar hann á að bankarnir hafi oftekið tugi milljarða af viðskiptavinum sínum.