Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), Halldór Benjamín Þorgeirsson, sé búinn að missa alla jarðtengingu. Ábyrgð hans sé mikil og hvetur hún hann til að koma aftur niður til jarðar og gera samning við Eflingu sem henti þeirra félagsmönnum.
Sólveig skrifar á Facebook:
„Útúrsnúningar og ofríki. Framkvæmdastjóri SA heldur því fram að samningsvilji Eflingar sé enginn. Jarðsambandið er greinilega alveg farið; samninganefnd Eflingar hefur lagt fram þrjú tilboð um kjarasamning og í hvert sinn fært sig nær viðsemjendum okkar, SA“
Hins vegar hafi enginn samningsvilji verið til staðar hjá Samtökum atvinnulífsins, þetta geti allir sem tóku þátt í viðræðunum vitnað um.
Sólveig Anna vísar til viðtals sem Halldór Benjamín veitti RÚV en þar hafi hann komið með skot á Eflingar-jakka sem samninganefnd Eflingar hefur klæðst í viðræðunum.
Sagði Halldór: „Ég hef hvatt Eflingu til þess að láta af þeim látalátum sem sjást á þessum samningafundum, með því að mæta með tugi manna í einkennisbúningum“
Sólveig segir þetta fáránlegan útúrsnúning og árás á samninganefnd Eflingar og klæðaburð meðlima hennar.
„Það er leitt að framkvæmdastjóri SA telji sig staddan í einhverri uppsetningu á Upstairs, Downstairs þar sem yfirráð hans yfir vinnuafli höfuðborgarsvæðisins eru svo æðisgengin að þá ná til klæðnaðar og framkomu. Svo er ekki.“
Halldór sé þátttakandi í samningaviðræðum við stærsta verkalýðsfélag verka og láglaunafólks á landinu, félag sem hafi sjálfstæðan samningsrétt sem Halldóri beri að virða.
„Það er framkvæmdastjóri SA sem hefur með látalátum reynt að snúa grafalvarlegum kjaraviðræðum upp í leikhús útúrsnúninga og ofríkis. Hann virðist hafa talið sér trú um, eða látið telja sér trú um að SGS [Starfsgreinasambandið] með Vilhjálm Birgisson í fararbroddi, gerði kjarasamninga fyrir Eflingu. Svo er ekki.“
Tíminn sé kominn til að Halldór horfist í augu við þau „mistök sem hann ásamt öðrum mönnum gerðu þegar þeir handsöluðu á „maraþonfundum“ sínum fyrir jól að gera grófa tilraun til að svipta Eflingu sjálfstæðum samningsrétti, og neyða formann og samninganefnd félagsins til að taka við kjarasamningi annarra manna og annarra félaga.“
Ábyrgð Halldórs sé mikil og vonast Sólveig til að hann horfist í augu við þá ábyrgð og komi aftur niður til jarðar þar sem samninganefnd Eflingar dvelur og gera Eflingar-kjarasamning við félagsmenn Eflingar.
„Það er varla eftir neinu að bíða?“