Þetta kemur fram í viðbót við bókina „Donald Trump V. The United States“ eftir Michael Schmidt. Bókin kom út haustið 2020 en ný útgáfa með viðbót er væntanleg á næstu dögum. Í eftirmála hennar skýrir Schmidt frá þessari hugmynd Trump. Sky News skýrir frá þessu.
Á fyrsta ári Trump í Hvíta húsinu stóð hann í orðaskaki við Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, og hafði ítrekað í hótunum við hann. Þegar Trump ávarpaði allsherjarþing SÞ sagði hann að Bandaríkin myndu gjöreyða Norður-Kóreu og kallaði Kim Jong-un „litla eldflaugamanninn“.
John Kelly, þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, er sagður hafa haft miklu meiri áhyggjur af ummælum Trump í einkasamtölum en opinberlega.